Leiknismenn í heimsókn á laugardaginn

Mynd/Þórir Tryggva.
Mynd/Þórir Tryggva.

Á laugardaginn koma Breiðhyltingar í heimsókn og mæta okkar mönnum í 15. umferð 1.deildar karla. Leiknismenn eru sæti fyrir ofan KA í 6. sæti deildarinnar. Liðin eru þó með jafn mörg stig en Breiðhyltingar með betri markatölu. Leikurinn hefst kl. 16.00 og verður að sjálfsögðu boðið upp á grillaða hamborgara og pylsur 45 mínútum fyrir leik.

Leiknismenn hófu þetta tímabil af miklum krafti og voru taplausir eftir fyrstu sex umferðirnar. Eftir stöðuleika í upphafi tímabils hefur lítill stöðuleiki verið einkennandi í leik Leiknismanna og liðið einungis tvisvar unnið tvo leiki í röð eftir fyrstu sex leikina en það eru einmitt síðustu tveir leikir gegn KF og Völsungum.

Atkvæðamesti leikmaður Leiknis í sumar er Hilmar Árni Halldórsson en hann hefur skorað 8 mörk í sumar og er næst markahæsti leikmaður deildarinnar ásamt Aron Elís Þrándarssyni. Aðeins Grindvíkingurinn Stefán Árni Pálsson hefur skorað meira eða 9 mörk. Næst markahæsti leikmaður Leiknis í sumar er svo Ólafur Hrannar Kristjánsson en hann hefur skorað 5 mörk í sumar. Leiknismenn styrktu sig í félagaskiptaglugganum nú á dögunum með þremur leikmönnum. Þeir fengu ungan breskan framherja Karl Oliyide að nafni, Kristján Páll Jónsson gékk síðan aftur til liðs við sitt gamla félag eftir stutt stopp hjá Fylki og svo kom Ósvald Jarl Traustason frá Breiðablik á láni.

Óttar Bjarni Guðmundsson varnarmaður Leiknis verður í leikbanni á laugardaginn en það verður einnig Bjarki Baldvinsson sem fékk rautt spjald í síðasta leik gegn KF. Fyrri leik liðanna í sumar lauk með 2-1 sigri Breiðhyltinga þar sem Ólafur Hrannar Kristjánsson og Stefán Birgir Jóhannesson skoruðu mörk Leiknismanna en Kristján Freyr Óðinsson skoraði mark okkar manna. 

Eins og ævinlega höfum við fengið valinkunna KA menn til að reyna að spá fyrir um rétt úrslit leiksins og rýna létt í komandi leik. Að þessu sinni fengum við fjóra einstaklinga til að spá fyrir um leikinn en það eykur vonandi líkurnar að rétt úrslit komi hjá einhverjum.

Spámenn umferðarinnar:

Jón Egill Gíslason, KA-maður:

Hér er greinilega um mjög jöfn lið að ræða eins og stigataflan sýnir og leggst hann vel í mig. Þetta verður hörkuleikur sem endar með sigri okkar manna 3-1.

Leikurinn byrjar rólega þar sem hann mun að mestu fara fram á miðju vallarins. Á 23. mínútu fær Ævar Ingi stungusendingu inn fyrir vörn Leiknismanna og rennir boltanum framhjá markverði liðsins. Eftir þetta stjórnum við leiknum fram að hálfleik og setjum annað mark á þá á 42. mínútu. Aftur er það Ævar Ingi sem skorar og markið verður með svipuðum hætti og það fyrra nema að núna leikur Ævar á markvörð Leiknismanna og rennir boltanum í netið.

Leiknismenn mæta dýrvitlausir til leiks í byrjun síðari hálfleiks og minnka muninn á 56. mínútu. Veit ekki hver skorar því ég þekki engan leikmann í Leiknisliðinu. Eftir þetta færist mikil harka í leikinn sem endar með rauðu spjaldi á leikmann gestanna fyrir grófa tæklingu á leikmann KA við endalínu sunnan megin. Enginn meiðist við þetta. Eftir þetta tekur KA völdin á vellinum og bætir Carsten "Den Danske" við þriðja markinu á 84. mínútu og sigur okkar manna staðreynd 3-1.

Spái því einnig að Gassi og Gunni Nella verði frekar rólegir framan af leik en stressist aðeins upp um miðjan síðari hálfleik. 

Mín spá:

Gassi: 7 Marlboro og 13 kaffibollar. 

Gunni Nella: 3 1/2 Bagatello, 2 kaffibollar og 1 bolli af heitu súkkulaði með rjóma.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, KA-maður: 

Ég hef fulla trú á mínum mönnum á laugardaginn og við náum góðum heimasigri 3-1 og setjum þar með á fulla ferð í úrvalsdeild.  

Spá mín byggist á því að Hallgrímur verði búinn að ná sér og setji eitt í fyrri hálfleik og í þeim seinni mun Orri Gústafs skora sitt fyrsta mark í sumar og Carsten mun bæta við öðru eftir góðan undirbúning frá Davíð Rúnari.   

Þetta verður nokkuð öruggt og okkar menn með öll tök á leiknum en Leiknismenn munu þó setja eitt í lokin rétt áður en dómarinn flautar til leiksloka, en hverjum er ekki sama? 

Verður klárlega besti heimaleikur liðsins í sumar og verst þykir mér að verða ekki í bænum á laugardaginn 

Andri Þór Valsson, KA-maður: 

Leikurinn gegn Leikni leggst ágætlega í mig. Þetta verður líklega hörkuleikur enda liðin jöfn í 6.-7. sæti deildarinnar en þó aðeins 3 stigum frá toppnum svo sigur í þessum leik myndi reynast mjög dýrmætur! Okkar menn hafa verið á fínri siglingu undanfarið þó jafnteflið gegn KF í síðustu umferð hafi verið býsna sárt, sigur í þeim leik hefði komið okkur enn nær toppnum en það munar um öll stig þegar að þetta er svona þéttur pakki í toppbaráttunni.

Leiknismenn hafa unnið síðustu 2 leiki sína gegn tveimur af lakari liðum deildarinnar og koma eflaust dýrvitlausir í þennan leik!

Ég ætla að gerast djarfur og spá 3-2 sigri okkar manna í dramatískum leik. 

Ef Orri Gössa verður í byrjunarliðinu mun hann skora markið sem hann lofaði mér fyrir Selfoss leikinn, get alveg fyrirgefið honum þó það komi ekki fyrr en í þessum leik. Sé fyrir mér að það verði eftir klafs í teignum eftir hornspyrnu frá Brian. Grímsi kemur líka sterkur inn og setur tvö.

KA menn munu byrja þennan leik vel og vera 2-0 yfir í hálfleik en Leiknismenn rífa sig í gang í seinni og ná að jafna leikinn, en á síðustu 10 mín hleður Grímsi í mark sumarsins beint úr aukaspyrnu og tryggir sigurinn. Stúkan tryllist og stigin þrjú verða eftir á Akureyri!

Eggert Högni Sigmundsson, KA-maður:

Leikurinn fer 2-1 fyrir KA og gömlu kempurnar og varnarjaxlarnir Atli Sveinn og Gunnar Valur skora öll mörkin í leiknum. Þeir mega berjast um sjálfsmarkið. KA kemst í 1-0 og annar hvor elli smellanna jafnar leikinn fyrir Leikni og svo skorar annar þeirra sigur markið. 

Ég set smá fyrirvara þ.e. ef Grímsi er búinn að jafna sig eftir þjóðhátið og meiðsl í læri, þá skorar hann bæði mörk KA en gömlu mennirnir sjá um mark KA. Og þrjú stig í húsi.


Við viljum svo hvetja alla að mæta á laugardaginn og styðja við bakið á liðinu í mikilvægum leik. Leikurinn hefst eins og áður segir klukkan 16.00 og verður kveikt í grillinu klukkan 15.15 og verður boðið upp á hamborgara, pylsur og kók á vægu verði. Áfram KA !