KA menn unnu í dag 1-0 sigur á Fjölnismönnum í Grafarvogi í tíðindalitlum leik. Staðan í hálfleik var markalaus en í síðari hálfleik skoraði Carsten Pedersen sigurmark KA á 86. mínútu eftir hornspyrnu frá Brian Gilmour. Eftir sigurinn er KA í 4-5.sæti með 21 stig og taplausir í síðustu sjö leikjum.
Fjölnir 0 - 1 KA
1-0 Carsten Pedersen ('86), Stoðsending: Brian Gilmour
Lið KA í dag: Sandor Matus, Ómar Friðriksson, Atli Sveinn Þórarinsson, Gunnar Valur Gunnarsson, Darren Lough, Davíð Rúnar Bjarnason, Bjarki Baldvinsson, Brian Gilmour, Ævar Ingi Jóhannesson (Bessi 88.mín), Hallgrímur Mar Steingrímsson (Orri 42.mín), Carsten Pedersen.
Bekkur: Fannar Hafsteinsson, Andrés Vilhjámsson, Orri Gústafsson, Bessi Víðisson, Jón Heiðar Magnússon, Jakob Hafsteinsson.
Bjarni gerði tvær breytingar frá sigrinum gegn Selfossi í síðustu umferð. Inn í byrjunarliðið komu Hallgrímur Mar sem var meiddur í síðasta leik og kom þá ekkert við sögu og Gunnar Valur. Í staðinn fyrir þá Orra Gústafsson og hetjuna úr síðasta leik Ivan Dragicevic sem var í leikbanni.
Leikurinn í dag hófst heldur rólega en það voru heimamenn úr Grafarvoginum sem vori ívið sterkari í fyrri hálfleik og voru meira með boltann án þess þó að skapa sér nein hættuleg færi. Bæði lið voru mjög varasöm og greinilegt að liðin ætluðu ekki að gefa nein færi á sér og voru þétt til baka.
Besta og í rauninni eina marktækifæri fyrri hálfleiksins áttu heimamenn í Fjölni þegar að þeir geystust upp völlinn og Aron Sigurðarson átti hættulegt skot utan teigs sem Sandor varði aftur fyrir endamörk. Upp úr hornspyrnunni skapaðist mikil hætta inn í vítateig okkar manna og mátti ekki miklu muna að Fjölnismenn hefðu náð forystunni en okkar menn náðu að bæja hættunni frá. Eftir þeta fjaraði fyrri hálfleikurinn út og gengu því liðin til búningsherbergja eftir markalausan og bragðdaufan fyrri hálfleik.
KA menn hófu síðari hálfleikinn af töluverðum krafti og kom hættulegasta færi KA í leiknum eftir aðeins 30 sekúndur í seinni hálfleik. Bjarki vippaði þá boltanum skemmtilega inn fyrir og yfir varnarmenn Fjölnis og Orri Gústafs skaut boltanum í boga að átt að markinu og varnarmenn Fjölnis hreinsuðu boltann frá marki áður en Ævar Ingi náði til knattarins.
Síðari hálfleikur var í rauninni keimlíkur þeim fyrri er kom að skemmtanagildi. Til marks um litla sóknartilburði okkar manna í leiknum þá kom fyrsta hornspyrna okkar á 58. mínútu. Nokkrum mínútum síðar átti Darren háa fyrirgjöf frá vinstri yfir alla varnarmenn Fjölnis og þar lúrði Bjarki Baldvins á fjærstönginni og skaut boltanum viðstöðarlaust marki en boltinn hafnaði í hliðarnetinu.
Næsta markverða færi leiksins kom síðan ekki fyrr en á 86. mínútu þegar að okkar menn fengu hornspyrnu. Hana tók Brian Gilmour og var spyrnan afspyrnu góð og stökk Carsten Pedersen manna hæst í teignum og stangaði boltann í netið og kom KA yfir. Eftir markið fjaraði leikurinn út og KA tók öll stigin þrjú í heldur bragðdaudum leik. Gríðarlega mikilvægur sigur hjá KA í dag og ákveðin styrkleikamerki að koma í ljós að liðið vinni leiki þó svo að spilamennskan sé ekki upp á marga fiska.
KA hefur gengið erfiðlega í gegnum tíðina að spila gegn Fjölni í Grafarvoginum og höfðu fyrir leikinn aðeins unnið einn leik af síðustu sjö viðureignum liðsins sem spilaðar hafa verið fyrir sunnan og kom sá sigur árið 1997 þegar að KA kjöldró Fjölni 7-0 í Coca-Cola bikarnum þar sem Steingrímur Örn Eiðsson og alþingismaðurinn Höskuldur Þórhallson skoruðu meðal annars tvö mörk hvor fyrir KA.
KA-maður leiksins: Gunnar Valur Gunnarsson ( Steig vart feilspor gegn sínum gömlu félögum í dag og átti mjög góðan leik og virðist vera kominn í sitt fyrra form eftir erfið meiðsli) Annars var mjög erfitt að velja mann leiksins að þessu sinni og var þetta dæmigerður liðssigur þar sem allir lögðu sitt að mörkum til að skila þremur stigum í hús. Einnig var Atli Sveinn flottur í vörninni í dag sem og Bjarki og Brian sem voru öflugir á miðjunni hjá KA.
Næsti leikur liðsins er á miðvikudaginn næstkomandi þegar að nágrannar okkar frá Fjallabyggð koma í heimsókn. Leikurinn hefst kl. 19.15 og hvetjum við alla að fjölmenna á þann leik og styðja liðið til sigurs !