Á morgun koma nágrannar okkar úr Fjallabyggð í heimsókn í 14. umferð 1.deildar karla á Akureyrarvelli. Leikurinn verður flautaður á klukkan 19.15. KF eru í 10. sæti með 13 stig á meðan okkar menn eru í 5. sæti með 21 stig. Eins og ávallt verður grillað fyrir leik og hefst fjörið 45 mínútum fyrir leik.
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar hafa komið þó nokkuð á óvart í sumar og verið að spila mjög vel. Síðustu fimm leikir liðsins hafa hinsvegar ekki reynst þeim gæfuríkir og hefur liðið tapað þeim öllum. Heimavöllur KF hefur reynst þeim dýrmætur og hafa þeir fengið 8 af 13 stigum sínum þar og höfðu fyrir tapið gegn Þrótti um daginn ekki tapað á heimavelli sínum í rúm tvö ár.
Markahæsti leikmaður KF er Skagamaðurinn Jón Björgvin Kristjánsson en hann hefur skorað 4 mörk í þrettán leikjum. Aðrir leikmenn sem hafa verið í lykilhlutverki hjá KF í sumar eru Nenad Zivanovic, Milos Glogavac og Vladan Vukovic. Á dögunum gékk markahrókurinn Þórður Birgisson síðan aftur til liðs við sitt gamla félag eftir stutta dvöl hjá ÍA. Í liði KF eru síðan þrír fyrrum leikmenn KA en það eru þeir Arnór Egill Hallsson, Magnús Blöndal og Sigurjón Fannar Sigurðsson. KF hafa byggt leik sinn upp á gríðar sterkum varnarleik undir stjórn fyrrum landsliðsmannsins Lárusar Orra Sigurðssonar og hafa einungis fengið á sig 16 mörk í sumar og er það næst besti árangurinn í deildinni.
Fyrri leik liðanna í sumar lauk með stórsigri KF 4-1 og því ljóst að um er að ræða hörkuleik á morgun og vilja leikmenn KA eflaust kvitta fyrir framistöðuna í síðasta leik liðanna. Hallgrímur Mar skoraði eina mark okkar í leiknum úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik og kom okkur yfir en heimamenn í KF svöruðu með fjórum mörkum og yfirspiluðu okkar menn í síðari hálfleik.
Eins og ævinlega höfum við fengið valinkunna KA menn til að reyna að spá fyrir um rétt úrslit leiksins og rýna létt í komandi leik. Í síðustu umferð gerðist sá fáheyrði atburður þegar að einn af spámönnum umferðarinnar spáði fyrir um hárrétt úrslit leiksins og var það Hlynur Örn Ásgeirsson sem gerðist svo getspakur.
Spámenn umferðarinnar:
Ólafur Ásgeirsson, KA-maður:
Ég held og vona að leikurinn fari fjögur núll fyrir KA. Liðið er á uppleið og til alls líklegt. Ég sá fyrri leikinn á Ólafsfirði en KF vann hann sanngjarnt. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og við spilum betur.
Ég held að Carsten verði í stuði og skori a.m.k. þrjú mörk og síðan setur Atli það fjórða. Vinir mínir frá Fjallabyggð munu að vanda berjast vel en vörn KA mun standast allar árásir þeirra. KA skorar þrjú mörk í fyrri hálfleik og eitt í þeim síðari. Ekkert verður skorað úr víti. Sandor mun að vanda verja KA markið með tilþrifum og taka a.m.k. eitt algjört dauðafæri gestanna.
Því miður held ég að mótlætið fari eitthvað í taugarnar á gestunum og að þeir muni missa mann útaf með tvö gul. Annars er ég ekki mikill spámaður en spáin byggir á von um góða framtíð fyrir liðið mitt KA.
Sindri Már Stefánsson, KA-maður:
Þessi leikur leggst rosalega vel í mig, liðið á frábæru "rönni" og menn vilja eflaust hefna fyrir hrikalega ferð á Ólafsfjörð fyrr í sumar.
Okkar menn verða með stjórn á leiknum allan tímann og taka þetta 3-0, Carsten skorar um miðjan fyrri hálfleik og staðan 1-0 í leikhléi. Ævar skorar síðan nokkuð snemma í seinni hálfleik eftir flotta stungu frá Brian. Ef Grímsi verður með þá klárar hann leikinn með þrumufleyg á 80min. Ef ekki þá skorar Brian 3.markið og klárar þetta fyrir okkar menn. Gott spil og góð vörn er það sem við fáum að sjá allan leikinn hjá okkar mönnum.
KF eiga aldrei séns og við siglum góðum og mikilvægum sigri í hús.
Ólafur Arnar Pálsson, KA-maður:
Það er ljóst að um er að ræða gífurlega mikilvægan leik fyrir bæði lið. Okkar menn hafa verið á miklu skriði og geta með sigri komið sér enn betur fyrir í efri hlutanum. Lið KF er í bullandi botnbaráttu og þeir munu án efa selja sig dýrt.
Leikurinn leggst sæmilega í mig. Gestirnir verða þéttir til baka og með flesta sína leikmenn fyrir aftan bolta, sumir myndu jafnvel segja að þeir muni leggja rútunni fyrir framan markið. Við þurfum að vera þolinmóðir en jafnframt agaðir og verðum að vara okkur á skyndisóknum KF en þeir geta sótt hratt. Sérstaklega þurfum við að varast Nenad Zivanovic sem var okkur erfiður ljár í þúfu á Ólafsfirði fyrr í sumar en eins verðum við að hafa góðar gætur á Þórði Birgissyni.
Það verður markalaust í hálfleik en í þeim síðari skorum við tiltölulega snemma og verður þar að verki Bjarki Baldvinsson. Sandor ver víti um miðbik seinni hálfleiksins og KF missa mann af velli með beint rautt spjald stuttu síðar. Það verður svo Darren Lough sem innsiglar sigur okkar manna með skalla eftir hornspyrnu undir lok leiks, 2-0.
Við viljum svo hvetja alla að mæta á morgun og styðja við bakið á liðinu í mikilvægum leik. Leikurinn hefst eins og áður segir klukkan 19.15 og verður kveikt í grillinu klukkan 18.30 og verður boðið upp á hamborgara, pyslur og kók og vægu verði. Áfram KA !