Tap gegn Leikni í bragðdaufum leik

Mynd/Þórir Tryggva.
Mynd/Þórir Tryggva.

KA og Leiknir R. mættust í dag í 15. umferð 1.deildar karla og lauk leiknum með 1-0 sigri gestanna í vægast sagt bragðdaufum leik þar sem marktæfæri leiksins gætu verið talinn á fingrum annarrar handar. Með sigrinum fóru Leiknismenn upp í 4.sæti deildarinnar með 25 stig en KA er í því sjöunda með 22 stig. Næsti leikur KA er gegn Víkingum á útivelli föstudaginn næsta.

KA 0 - 1 Leiknir R.

0-1 Kristján Páll Jónsson ('70)

Lið KA í dag: Sandor Matus, Ómar Friðriksson, Atli Sveinn Þórarinsson, Ivan Dragicevic, Darren Lough, Gunnar Valur Gunnarsson (Davíð Rúnar 77.mín), Brian Gilmour, Ævar Ingi Jóhannesson, Hallgrímur Mar Steingrímsson (Orri Gústafs 73.mín), Bessi Víðisson og Carsten Pedersen (Andrés 85.mín).

Bekkur: Fannar Hafsteinsson, Andrés Vilhjámsson, Orri Gústafsson, Davíð Rúnar Bjarnason, Jón Heiðar Magnússon, Bjarni Mark Antonsson og Jakob Hafsteinsson.

Bjarni Jóhannsson gerði þrjár breytingar á byrjunarliði KA frá síðasta leik. Inn í liðið komu þeir Hallgrímur Mar, Gunnar Valur og Bessi. Í staðinn fyrir þá Davíð Rúnar, Orra og Bjarka Baldvins sem var í leikbanni í dag. Einnig var Bjarni Mark Antonsson í hóp hjá KA í dag í fyrsta sinn.

Leikurinn hófst rólega og raunar var allur fyrri hálfleikurinn mjög rólegur. Til marks um lítið skemmtanagildi fyrri hálfleiksins kom fyrsta almennilega skot KA eftir 15. mínútna leik og kom það frá Brian Gilmour en það var laust og nokkuð yfir markið. Leiknismenn voru eilítið meira með boltann í fyrri hálfleik án þess þó að skapa sér nein hættuleg færi en þeir voru ávallt hættulegir í föstum leikatriðum. 

Hættulegasta færi KA í fyrri hálfleiknum kom á 26.mínútu þegar að Bessi lék skemmtilega á tvo leikmenn Leiknis og gaf á Hallgrím sem var staðsettur rétt fyrir utan vítateigin og gaf hann flotta utanfótarsendingu á Darren sem fékk boltann utarlega í teignum og skaut föstu skoti að marki sem hafnaði í hliðarnetinu. Næsta markverða tækifæri KA í leiknum kom þegar að Hallgrímur átti fast skot úr aukaspyrnu langt utan af velli sem fór hárfínt framhjá. Eftir þetta fjaraði fyrri hálfleikurinn út.

Síðari hálfleikurinn hófst eins og sá fyrri og var mjög rólegur. Okkar menn voru meira með boltann og sóttu meira en enginn hættuleg færi litu dagsins ljós. Það var ekki fyrr en á 70. mínútu sem Hilmar Árni markahæsti leikmaður Leiknis átti góða stungusendingu inn fyrir vörn KA á Kristján Pál Jónsson sem var kominn einn gegn Sandor og afgreiddi boltann snyrtilega í netið og gestirnir því komnir í 1-0.

Eftir markið róaðist leikurinn en frekar og var mikið um stöðubaráttu og lítið um færi. Eina færi KA það sem eftir lifði leiks kom þegar að Darren átti flotta fyrirgjöf á Ævar sem skallaði boltann rétt framhjá markinu. Eftir það fjaraði leikurinn út og fyrsta tap KA síðan 14. júní því staðreynd. Gífurlega svekkjandi úrslit en verða þó að teljast sanngjörn úrslit því spilamennska liðsins í dag var ekki upp á marga fiska. 

KA-maður leiksins: Bessi Víðisson ( Var eitt það fáa jákvæða í leik KA í dag. Var öflugur á miðjunni og mjög hættulegur með boltann.)

Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Víkingum frá Reykjavík föstudaginn næstkomandi klukkan 18.00. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu hjá SportTV en við hvetjum alla KA menn á höfuðborgarsvæðinu til að fjölmenna á leikinn og styðja við bakið á liðinu.