Víkingar sóttir heim á morgun

Mynd/Þórir Tryggva.
Mynd/Þórir Tryggva.

Á morgun ferðast okkar menn suður yfir heiðar, nánar tiltekið í Fossvoginn þar sem liðið etur kappi við Víking frá Reykjavík. Um er að ræða gríðarlega mikilvægan leik fyrir bæði lið og því ljóst að það verður hart barist um stigin þrjú sem eru í boði. Víkingur er í 4. sæti deildarinnar með 26 stig einu stigi frá toppsætinu en KA er í því sjöunda með 22 stig. Leikurinn hefst kl. 18.00.

Víkingar eru með gríðar sterkt lið eins og sást á fyrri viðureign liðanna hér á Akureyrarvelli þar sem þeir léku okkur grátt og fóru með sigur af hólmi þar sem Pape Mamadou Faye skoraði eina mark leiksins í leik þar sem Víkingar voru töluvert sterkari aðilinn. 

Víkingar fóru vel af stað í mótinu í ár og hafa einu tapleikir liðsins í sumar komið gegn Selfoss á heimavelli í 2. umferð og svo aftur gegn Selfyssingum á útivelli í 13.umferð þegar að liði steinlá 6-1 og svo í 14. umferð þegar liðið beið lægri hlut gegn Fjölni á heimavelli. Víkingum hefur gengið erfiðlega í sumar að halda stöðuleika og hefur framistaða liðsins verið afar misjöfn leik eftir leik. Liðinu hefur gengið brösulega í undanförnum leikjum eða allt frá því að að liðið komst í toppsæti deildarinnar eftir góðan sigur á Grindavík í 12. umferð.

Atkvæðamestur hjá Víkingum í sumar er markahæsti leikmaður deildarinnar Aron Elís Þrándarson en hann hefur skorað 9 mörk í deildinni í sumar og verið af mörgum talinn einn albesti leikmaður deildarinnar í sumar. Aðrir leikmenn sem hafa spilað vel eru Dofri Snorrason sem gékk til liðs við Víkinga fyrir tímabilið frá KR en hann hefur skorað þrjú mörk og gefið fjöldann allann af stoðsendingum. Einnig hefur miðjumaðurinn Igor Taskovic leikið vel og stýrt spili Víkinga eins og herforingi.

Þjálfari Víkinga er Ólafur Þórðarson en hann má ekki stýra liðinu á morgun vegna leikbanns og það kemur því í hlut Milos Milojevic að stýra liðinu af hliðarlínunni. Hjá KA kemur Bjarki Baldvinsson aftur í liðið en hann tók út leikbann í síðasta leik gegn Leikni.

Eins og ævinlega höfum við fengið valinkunna KA menn til að reyna að spá fyrir um rétt úrslit leiksins og rýna létt í komandi leik.

Spámenn umferðarinnar:

Óskar Helgi Adamsson, KA-maður:

Þetta er ótrúlega mikilvægur leikur eins og deildin er núna, við verðum eiginlega í það minnsta að ná stigi úr honum. Víkingarnir gætu orðið ansi erfiðir heim að sækja, en ég hef alla trú á því að við komumst yfir í leiknum og þá liggur á að bæta í forskotið til að fara glaðir heim.

Það á eftir að muna um að fá Bjarka aftur úr banni, enda með eindæmum duglegur. Miðað við veðrið í Reykjavík það sem af er sumri eru líkur á rigningu yfirþyrmandi, svo leikurinn gæti orðið ansi fjörugur. Ég spái 2-3 eftir mikinn baráttuleik þar sem Ivan mun skora eitt og vera á við tvo í vörninni.

Víkingur Hauksson, KA-maður:

KA er hiklaust í "duga eða drepast" stöðu þessa stundina.

Víkingar eru með sprækt lið en þeim hefur ekki gengið alveg nógu vel undanfarið og er það eitthvað sem KA gæti unnið með. Fyrir síðasta leik voru okkar menn í KA búnir að ná upp góðu skriði og mín spá er að þeim takist að viðhalda því í þessum hörkuleik.

Ég spái alveg gríðarlega fjörugum markaleik sem mun enda með 2-3 sigri okkar heimamanna. Mörkin þrjú skorar Hallgrímur úr vítaspyrnu, aukaspyrnu og utan af velli!

Gunnar Þórir Björnsson, KA-maður:

Reykjavíkur Víkingar eru án sigurs í þremur leikjum og hafa verið betri á útivelli en heima í sumar. Fengið 9 stig heima en 17 á útivöllum, t.d. þrjú stig á Akureyrarvelli fyrr í sumar. KA hafa fengið 12 stig heima en 10 úti.

Ég reikna með því að leikurinn endi með jafntefli þó ég sé ansi smeykur um að Víkingur taki þetta, myndi skella 1X á þetta á getraunaseðli ef það væri hægt.

Aron Elís mun koma Víkingum yfir um miðbik fyrri hálfleiks eftir fyrirgjöf frá Dofra Snorrasyni. KA nær síðan að jafna í byrjun síðari hálfleiks með marki frá Bessa Víðissyni. Bessi mun síðan hlaupa í átt að Andrési Vilhjálms og þykjast raka skeggið af Andrési. Bæði lið munu síðan reyna að ná marki í lokin en það tekst ekki enda eru Kale og Sandor erfiðir viðureignar.

Úrslit 1-1.


Leikurinn verður í beinni útsendingu á SportTv og hefst eins og áður segir kl. 18.00 en við hvetjum alla KA menn á höfuðborgarsvæðinu að mæta á leikinn og styðja liðið til sigurs. Áfram KA!