KA - Selfoss á morgun

Ævar Ingi á ferðinni gegn Grindavík. Mynd/Þórir Tryggva.
Ævar Ingi á ferðinni gegn Grindavík. Mynd/Þórir Tryggva.

Á morgun hefst seinni umferð 1.deildar karla þegar að við fáum Selfyssinga í heimsókn. Staða liðanna í deildinni er ekki ólík. Selfyssingar sitja í 8.sæti með 14 stig. Á meðan okkar menn eru sæti ofar og með 15 stig. Leikurinn hefst á slaginu klukkan 16.00 og verður það Halldór Breiðfjörð Jóhannsson sem mun dæma leikinn. Við hvetjum alla að mæta tímanlega. Það verður fírað upp í grillinu 45 mínútum fyrir leik og boðið upp á hamborgara, pyslur og gos á vægu verði.

Selfyssingar féllu úr Pepsi-deildinni síðasta haust eftir árs dvöl meðal þeirra bestu. Það er vægt til orða tekið að það hafi orðið miklar breytingar á liðinu frá síðasta keppnistímabili. Ríflega tuttugu leikmenn yfirgáfu herbúðir liðsins og um það bil 15 leikmenn komið í stað þeirra. Að auki er nýr maður við stjórnvölin hjá Selfyssingum því Gunnar Guðmundsson tók við liðinu í vetur. En hann hafði þar á undan þjálfað HK og U17 ára landslið Íslands.

Atkvæðamestur hjá Selfossi í sumar er Englendingurinn Joseph David Yoffe en hann hefur skorað 7 mörk í sumar í níu leikjum og er næst markahæsti leikmaður deildarinnar. Gengi Selfyssinga í sumar hefur verið mjög misjafnt og hefur liðið verið mjög óútreiknanlegt. Liðið hefur til dæmis farið á tvo mjög erfiða útivelli í sumar og náð í sigra gegn Víkingum og Grindvíkingum nokkuð sannfærandi. Í síðustu þremur leikjum hefur liðið unnið einn og tapað tveimur. Liðið vann sterkan heimasigur gegn Leiknismönnum 4-2 þann 3.júlí. Í kjölfarið fylgdu síðan tvo töp gegn Fjölni og KF. Í leikjum Selfyssinga í sumar hafa verið skoruð 3,4 mörk að meðaltali og vonandi að það verði boðið upp á markaveislu á morgun.

Fyrri leikur liðanna á tímabilinu var sá fyrsti á þessu tímabili og fórum við af Suðurlandinu með stigin þrjú í fótboltaleik sem verður seint færður í sögubækurnar fyrir fallegan fótbolta. Það var Hallgrímur Mar sem skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu. 

Eins og ávallt höfum við fengið vaskt KA fólk til að rýna í komandi leik og spá létt fyrir um leikinn.

Spámenn umferðarinnar: 

Jóhann Már Kristinsson, KA-maður:

Þessi leikur leggst mjög vel í mig eins og flest allir KA leikir. Hef trú á að Selfyssingar mæti dýrvitlausir til leiks eftir tap gegn KF og slakkt gengi að undanförnu en það mun þó ekki vera nóg fyrir þá því okkar menn eru komnir á tærnar eftir frábæra endurkomu gegn Grindavík þar sem þeir sýndu magnaðan karakter og ekki á hverjum degi sem maður sér KA snúa leik svona rosalega við, nema þá á hinn veginn. 

Okkar menn munu halda áfram þar sem frá var horfið í Grindavíkur leiknum og Selfyssingar munu ekki sjá mikið til sólar í þessum leik. Mín spá er sú að Carsten setji 2 og Bessi Víðisson opni markareikninginn og fagni því af mikilli innlifun eins og hans er von og vísa.

Kristín Sigurbjörg Jóhannsdóttir, KA-kona:

Leikurinn leggst bara vel í mig, ég held að eftir góða endurkomu hjá liðinu í leiknum gegn Grindavík þá sé liðið komið í réttan gír. Þetta verður baráttuleikur sem við vinnum 3-1 og ætli Carsten verði ekki með 2 mörk og Bjarki með 1.

Ragnar Heiðar Sigtryggsson, KA-maður:

Leikurinn leggst vel í mig eins og allir aðrir leikir fyrirfram, enda eigum við að geta unnið öll lið í þessari deild á góðum degi. Við munum stjórna leiknum á morgun eftir erfiða byrjun, komum ekki inn í leikinn fyrr en eftir 20 mínútur, en tökum þá öll völd. 

2-0 sigur verður staðreyndin á morgun en Carsten heldur áfram að standa sig fyrir hann Pál Jónsson og setja‘nn. Bjarki Baldvins skorar hitt markið, hægri stönginn alveg efst og inn, greifa meginn á vellinum. Selfoss hefur tapað síðustu 2 leikjum og því er sjálfstraustið í lágmarki hjá þeim en okkar menn hafa sigrað 3 og gert 2 jafntefli í síðustu 5 leikjum. Sjálfstraustið er á lofti og við munum færa okkur upp um allavega 1 sæti í þessari umferð, jafnvel tvö.

Vil ég enda á að hvetja alla til að mæta á völlin, fá sér trefil ef þeir hafa ekki gert það nú þegar og láta aðeins í sér heyra, en það hefur verið hálf skömmustulegt að hlusta á mávana í hverjum leik en ekki mannfólkinu. KOMA SVO ! ÁFRAM KA!


Við viljum svo hvetja alla að mæta á morgun og styðja við bakið á liðinu í mikilvægum leik. Leikurinn hefst eins og áður segir klukkan 16.00 og verður kveikt í grillinu klukkan 15.15 og verður boðið upp á hamborgara, pyslur og kók og vægu verði. Áfram KA !