Góður útisigur á Þrótturum

Mynd/Þórir Tryggva.
Mynd/Þórir Tryggva.

Í kvöld vann KA gríðarlega góðan útisigur á Þrótturum 1-0. Það var Ivan Dragicevic sem skoraði eina mark leiksins á 21. mínútu eftir hornspyrnu frá Hallgrími Mar. Leikurinn í kvöld fer seint í sögubækurnar fyrir áferða fallegan fótbolta en afar mikilvæg stig í hús hjá liðinu á erfiðum útivelli. KA liðið hefur fengið 10 stig af 12 í fjórum síðustu leikjum og hefur liðið haldið hreinu í þremur af þessum fjórum leikjum. 

Þróttur R. 0 - 1 KA 

0-1 Ivan Dragicevic ('21), Stoðsending: Hallgrímur Mar.

Lið KA í dag: Sandor Matus, Ómar Friðriksson, Ivan Dragicevic, Gunnar Valur Gunnarsson, Darren Lough (Jón Heiðar 62.mín), Davíð Rúnar Bjarnason, Bjarki Baldvinsson (Bessi 89.mín), Brian Gilmour, Ævar Ingi Jóhannesson (Orri 81.mín), Hallgrímur Mar Steingrímsson, Carsten Pedersen.

Bekkur: Fannar Hafsteinsson, Andrés Vilhjámsson, Orri Gústafsson, Bessi Víðisson, Gauti Gautason, Jón Heiðar Magnússon, Jakob Hafsteinsson.

Þrjár breytingar voru gerðar á byrjunarliðinu frá sigrinum gegn Völsungum í síðustu umferð. Inn komu Ivan Dragicevic, Brian Gilmour og Darren Lough. Í staðinn fyrir Atla Svein, Bessa og Jón Heiðar. Bessi og Jón voru á bekknum en Atli Sveinn tók út leikbann. Á bekkinn komu svo Orri Gústafsson inn sem var meiddur gegn Völsungum og Gauti Gautason.

Leikurinn hófst heldur rólega og verða upphafsmínúturnar seint færðar í sögubækurnar fyrir skemmtanagildi sitt. Okkar menn sóttu þó stíft og pressuðu Þróttara ofarlega á vellinum og voru Þróttarar í miklum vandræðum að bregðast við pressunni og spyrntu boltanum trekk í trekk til okkar manna eða útaf. Hallgrímur Mar var í aðalhlutverki í sóknarleik KA líkt og oft áður og voru stöðugar áætlunarferðir upp vinstri kantinn og voru varnarmenn Þróttara í stökustu vandræðum með Hallgrím. Á 16. mínútu átti Hallgrímur svo góðan sprett upp vinstri kantinn og gaf hættulega sendingu fyrir þar sem Carsten teygði sig í boltann og kom máttlausu skoti að marki sem Trausti Sigurbjörnsson í marki Þróttar átti ekki í miklum vandræðum með. Carsten hefði átt að gera betur í þessu ákjósanlega marktækifæri.

Stuttu seinna fengu KA hornspyrnu og hana tók Hallgrímur Mar. Hún var afbragðs góð og rataði beint á kollinn á Ivan Dragicevic sem stökk manna hæst í teignum og stangaði boltann í netið og átti Trausti í marki Þróttar engann möguleika og KA komið verðskuldað yfir í leiknum. Eftir markið juku okkar menn ef eitthvað var pressuna á Þróttara og hefðu hæglega geta bætt við mörkum. Hornspyrnur KA í fyrri hálfleik voru stórhættulegar og skapaðist oft mikil hætta út frá þeim. Á 26.mínútu tók Hallgrímur stutta hornspyrnu á Bjarka sem lék á hvern varnarmann Þróttara á fætum öðrum og var kominn langleiðina með að fara framhjá öllum leikmönnum Þróttar en lagði boltann svo fyrir Hallgrím sem átti hættulegt skot að marki sem varnarmaður Þróttara náði að kasta sér fyrir og í horn. Staðan í hálfleik var því 1-0 fyrir KA og hefðu forskot okkar manna hæglega verið meira.

Síðari hálfleikur var ekki mikið fyrir augað og mikið um stöðubaráttu og lítið um spil. Þróttarar gerðu tvær breytingar í hálfleik og virtust þær hafa jákvæð áhrif á liðið þar sem þeir voru mun líflegri en í þeim fyrri. Fyrsta markverða færi seinni hálfleiksins kom á 60. mínútu þegar að Hallgrímur Mar keyrði á vörn Þróttara og átti hættulegt skot rétt framhjá. Eftir það sóttu Þróttarar eilítið en áttu þó ekki nein stórhættuleg marktækifæri og reyndi lítið sem ekkert á Sandor Matus í rammanum. Á 77.mínútu keyrði Ævar inn í teig Þróttara og Hlynur Hauksson varnarmaður Þróttara braut á honum og dæmdi Englendingurinn Sebastian Stockbridge réttilega vítaspyrnu. Á punktinn steig Hallgrímur Mar og var spyrnan ekki nægilega góð og skutlaði Trausti markvörður Þróttara sér í rétt horn og varði spyrnuna. Eftir þetta fjaraði leikurinn út og sanngjarn sigur okkar manna því staðreynd. Það má með sanni segja að þetta hafi verið sigur liðsheildarinnar. KA liðið virkaði mjög ákveðið frá fyrstu mínútu og voru á undan í alla bolta. Einnig er afar ánægjulegt að liðið hafi haldið hreinu í enn eitt skiptið í sumar.

KA-maður leiksins: Bjarki Baldvinsson ( Hljóp eins og óður maður í leiknum í dag og gaf ekkert eftir. Öruggur á boltann og skapaði oft mikinn usla í vörn Þróttara ásamt Hallgrími Mar) Annars var þetta eins og áður segir sigur liðsheildarinnar. Ivan var öflugur í leiknum í dag ásamt því að miðja KA í leiknum var mjög örugg í öllum sínum aðgerðum og voru Bjarki og Davíð að hirða alla lausa bolta á miðjunni.

Næsti leikur liðsins er á þriðjudaginn næstkomandi 16.júlí gegn toppliði Grindavíkur og er ljóst KA menn verða að fjölmenna á leikinn og styðja liðið til sigurs í mikilvægum leik. Áfram KA!