KA og Selfoss mættust í dag á Akureyrarvelli í hreint út sagt ótrúlegum leik þar sem okkar menn skoruðu sigurmarkið í uppbótartíma. Staðan í hálfleik var 1-0 okkur í vil en í þeim síðari var boðið upp á sannkallaða markasúpu og voru það Brian Gilmour, Atli Sveinn og Ivan sem skoruðu mörk okkar í seinni hálfleiknum. En fyrsta mark okkar í leiknum var sjálfsmark gestana.
KA 4 - 3 Selfoss
1-0 Þorsteinn Daníel Þorsteinsson, Sjálfsmark ('11), Stoðsending: Ómar Friðriksson
1-1 Carsten Pedersen , Sjálfsmark ('50)
2-1 Brian Gilmour, Víti ('56)
3-1 Atli Sveinn Þórarinsson ('67) Stoðsending: Ævar Ingi Jóhannesson
3-2 Sindri Snær Magnússon ('81)
3-3 Luka Jagacic ('86)
4-3 Ivan Dragicevic ('93) Stoðsending: Brian Gilmour
Lið KA í dag: Sandor Matus, Ómar Friðriksson, Ivan Dragicevic, Atli Sveinn Þórarinsson, Darren Lough, Davíð Rúnar Bjarnason, Bjarki Baldvinsson (Gunnar Valur 87.mín), Orri Gústafsson (Bessi 69.mín) , Ævar Ingi Jóhannesson (Jón Heiðar 87.mín), Brian Gilmour, Carsten Pedersen.
Bekkur: Fannar Hafsteinsson, Andrés Vilhjámsson, Gunnar Valur Gunnarsson, Bessi Víðisson, Jón Heiðar Magnússon, Hallgrímur Mar Steingrímsson, Jakob Hafsteinsson.
Tvær breytingar voru gerðar á KA liðinu frá jafnteflinu gegn Grindavík á þriðjudaginn. Brian og Ómar komu inn í byrjunarliðið í stað Gunnars Vals og Hallgríms sem fóru á bekkinn. Hallgrímur var reyndar í borgarlegum klæðum og kom því ekkert við sögu í dag. En Hallgrímur fór meiddur útaf í leiknum gegn Grindavík. Það var heldur dræm mæting þegar að Halldór Breiðfjörð Jóhansson flautaði til leiks í blíðskapar veðri í dag.
KA liðið byrjaði leikinn í dag af miklum krafti og sóttu stíft að marki gestana í upphafi leiks. Eftir stuttan leik átti Brian hættulegt skot að marki sem Jóhann Ólafur í marki Selfyssinga þurfti að hafa sig allann við til að verja. Eftir 11.mínútna leik átti Bjarki Baldvinsson góðan sprett með boltann á miðjunni og gaf knöttinn upp í horn á Ómar sem gaf þéttingsfasta sendingu fyrir markið sem fór framhjá öllum í teignum og varð leikmaður Selfoss fyrir því óláni að setja boltann í eigið net og staðan því orðinn 1-0 okkur í vil.
Svo virtist vera sem markið hefði slegið gestina eilítið út af laginu og eftir markið sóttu okkar menn en meira og voru miklu meira með boltann. Einnig voru hornspyrnur Brian Gilmour afar hættulegur hefðu okkar menn hæglega getað nýtt sér eina þeirra og aukið við forystuna en staðan 1-0 í hálfleik í heldur bragðdaufum fyrri hálfleik en það átti heldur betur eftir að breytast í þeim síðari sem var stórkostleg skemmtun.
Eftir einungis fimm mínútna leik í seinni hálfleik fengu gestirnir aukaspyrnu á álitlegum stað fyrir utan teig okkar manna. Hana tók Sindri Snær Magnússon og þrumaði hann knettinum í samskeytin og Sandor varði síðan boltann í horn. Upp úr hornspyrnunni kom síðan jöfnunarmark frá gestunum. Það kom hár bolti inn á teig og yfir allann mannskapinn inn í teignum og þar lúrði einn Selfyssingurinn á fjærstönginni og skaut föstu skoti í átt að marki sem hafnaði í Carsten og í netinu.
Eftir jöfnunarmarkið sóttu okkar menn í sig veðrið og sóttu stíft að marki Selfyssinga. Skömmu eftir markið fengu okkar menn síðan hornspyrnu og boltinn barst inn í teig þar sem varnarmaður Selfyssinga tók boltann með höndinni og Halldór Breiðfjörð var viss í sinni sök og dæmdi vítaspyrnu. Það var mjög erfitt að sjá hvort um réttan dóm var að ræða en vítaspyrna varð niðurstaðan. Á punktinn steig Brian Gilmour og skoraði hann af feikna öryggi með því að þruma boltanum ofarlega á markið og senda Jóhann Ólaf í marki Selfyssinga í vitlaust horn. 2-1 fyrir KA.
Áfram hélt einstefna KA að marki Selfyssinga og á 62. mínútum gerðist afar umdeilt atvik þegar að Ævar Ingi átti góða sendingu inn fyrir vörn Selfoss á Orra sem var við það að sleppa í gegn en Juan Martinez togaði Orra greinilega niður og var aftasti varnarmaður og hefði þar af leiðandi átt að fá rautt spjald. En slakur dómari leiksins Halldór Breiðfjörð veifaði einungis gulu spjaldi.
Fjörið í leiknum var hinsvegar hvergi nærri búið og nokkrum mínútum síðar áttu Bjarki og Ómar góðan samleik við vítateig gestana sem endaði með því Ómar náði hörkuskoti að marki sem markvörður Selfyssinga varði í horn. Upp úr horninu kom síðan mark. Brian spyrnti háum bolta úr hornspyrnunni á fjærstöngina sem Ævar Ingi skallaði fyrir fætur markamaskínunnar Atla Sveins sem skóflaði boltanum í markið með vinstri fæti. Einkar glæsilega gert hjá fyrirliðanum sem hefur verið iðinn við kolann í sumar og næst markahæsti leikmaður KA liðsins. Eftir þetta róaðist leikurinn eilítið niður.
Það var svo á 81. mínútu sem Selfyssingar geystust upp hægri vænginn og var þar Magnús Ingi Einarsson að verki sem hafði komið inn á sem varamaður skömmu áður og blásið miklu lífi í sóknarleik gestana. Hann átti góðan bolta fyrir markið sem sigldi framhjá varnarmönnum KA og Sandor og Sindri Snær Magnússon potaði boltanum í markið af stuttu færi og minnkaði muninn fyrir gestina. Sex mínútum síðar áttu Selfyssingar langt innkast inn í teig og barst boltinn til Luka Jagacic sem ruddi varnarmönnum KA frá og jafnaði fyrir gestina. Gífurlega svekkjandi fyrir KA að fá þetta mark í andlitið eftir að hafa verið miklu betri allann leikinn.
En dramatíkin var ekki búinn því að á 93. mínútu í uppbótartíma tók Ómar langt innkast og barst boltinn til Brian sem var í mikilli baráttu við varnarmenn Selfoss en náði að leggja boltann fyrir fætur Ivan Dragicevic sem skaut fallegum snúningsbolta upp í bláhornið á marki Selfyssinga og skoraði. Alveg hreint ótrúlegt mark og það ætlaði allt um koll að keyra á Akureyrarvelli og réðu leikmenn KA sem og stuðninsmenn sért vart fyrir kæti. Selfyssingar mótmæltu markinu og uppskar einn leikmaður þeirra tvö gul spjöld og þar með rautt frá Halldóri Breiðfjörð.
Nokkrum sekúndum síðar flautaði Halldór síðan til leiksloka og þrjú mikilvæg stig KA því staðreynd. Ótrúlegur karakterssigur hjá liðinu og sýndu strákarnir í dag svo sannarlega úr hverju þeir eru gerðir. Þrátt fyrir að fá tvö mörk á sig á lokamínútunum kom liðið til baka og hafði fulla trú á verkefninu.
KA-maður leiksins: Bjarki Baldvinsson ( Var eins og herforingi á miðjunni hjá KA í leiknum í dag og stjórnaði spili KA. Átti frábæra sendingu á Ómar í fyrsta markinu og var mjög vinnusamur í dag líkt og í síðustu leikjum) Var úr mörgum að velja í dag. Ævar og Atli Sveinn áttu til að mynda mjög góðan leik í dag. En fyrst og fremst var þetta sigur liðsheildarinnar.
Næsti leikur er útileikur gegn Fjölni laugardaginn 27.júlí næstkomandi og er gríðarlega mikilvægur upp á framhaldið og hvetjum við alla á höfuðborgarsvæðinu að mæta á leikinn og styðja liðið. Næsti heimaleikur er svo þann 31. júlí þegar að KF koma í heimsókn. Áfram KA !