Ótrúleg endurkoma gegn Grindavík

Ómar skoraði með þrumuskoti í kvöld. Mynd/Þórir Tryggva.
Ómar skoraði með þrumuskoti í kvöld. Mynd/Þórir Tryggva.

Í kvöld skildu KA og Grindavík jöfn í bráðskemmtilegum leik sem var gríðarlega kaflaskiptur. Fyrri hálfleikur leiksins var algjör eign gestana úr Grindavík sem voru verðskuldað yfir 2-0 í hálfleik eftir mörk frá Daníel Leó Grétarssyni og Juraj Grizelj. En í síðari hálfleik náði Carsten Pedersen að minnka muninn á 71. mínútu og skömmu seinna jafnaði varamaðurinn Ómar Friðriksson fyrir KA með þrumu skoti og 2-2 jafntefli því staðreynd.

KA 2- 2 Grindavík

0-1 Daníel Leó Grétarsson ('28)

0-2 Juraj Grizelj ('34)

1-2 Carsten Pedersen ('71) Stoðsending: Atli Sveinn Þórarinsson

2-2 Ómar Friðriksson ('78) Stoðsending: Bjarki Baldvinsson

Lið KA í dag: Sandor Matus, Gunnar Valur Gunnarsson (Ómar 61.mín), Ivan Dragicevic, Atli Sveinn Þórarinsson, Darren Lough, Davíð Rúnar Bjarnason (Brian 70.mín), Bjarki Baldvinsson, Orri Gústafsson , Ævar Ingi Jóhannesson, Hallgrímur Mar Steingrímsson (Bessi 75.mín), Carsten Pedersen.

Bekkur: Fannar Hafsteinsson, Andrés Vilhjámsson, Ómar Friðriksson, Brian Gilmour, Bessi Víðisson, Jón Heiðar Magnússon, Jakob Hafsteinsson.

Tvær breytingar voru gerðar á byrjunarliði KA frá sigrinum gegn Þrótturum í síðustu umferð. Inn í byrjunarliðið komu fyrirliðin Atli Sveinn Þórarinsson og Orri Gústafsson í staðinn fyrir Brian Gilmour og Ómar Friðriksson sem fóru á bekkinn. 

Leikurinn í dag hófst heldur fjörlega og var leikurinn mjög opinn á upphafsmínútunum. Gestirnir frá Grindavík hófu leikinn af miklum krafti og voru yfirburðirnir miklir. Þeir sóttu að marki KA án afláts og voru KA menn ekki alveg í takt við leikinn í byrjun. Grindvíkingar áttu stórhættulegt færi eftir aðeins 5 mínútna leik þegar að þeirra markahæsti leikmaður á tímabilinu Stefán Þór Pálsson fékk sendingu inn fyrir vörnina og átti gott skot að marki sem Sandor varði frábærlega og í kjölfarið fylgdu þrjú önnur skot að marki frá gestunum sem Gunnar Valur og Darren köstuðu sér fyrir og enduðu ósköpin með því að gestirnir fengu hornspyrnu. Stórhættuleg sókn frá Grindvíkingum.

Á 28.mínútu bar stanslaus sókn gestana árangur þegar Daníel Leó Grétarsson skoraði eftir fyrirgjöf utan af kanti þar sem Ivan náði ekki til boltans en Daníel var fljótur að átta sig og skaut boltanum þéttingsfast að marki úr teignum og átti Sandor engann möguleika og staðan orðinn 1-0 gestunum í vil nokkuð verðskuldað miðað við gang leiksins.

Rúmum fimm mínútum síðar kom síðan besti leikmaður Grindvíkinga Juraj Grizelj upp vinstri væning á mikilli ferð og lék á Gunnar Val og afgreiddi boltann af einstakri snilld í markhornið fjær. Einkar laglega gert hjá Juraj Grizelj sem er greinilega frábær fótboltamaður. Við seinna mark Grindvíkinga vöknuðu okkar menn aðeins til lífsins og kom fyrsta almennilega færi KA í leiknum stuttu seinna þegar að Hallgrímur Mar tók hornspyrnu sem Ivan skallaði rétt yfir mark Grindvíkinga. Þremur mínútum síðar tók Hallgrímur góðan sprett og gaf á Bjarka sem fékk boltann rétt fyrir utan teig og hamraði boltanum að marki og hafnaði boltinn ofarlega í markstönginni. KA óheppnir að minnka ekki muninn og fóru gestirnir því inn í hálfleikinn með 2-0 forystu.

Seinni hálfleikurinn var gjörólíkur þeim fyrri og virtust leikmenn KA ákveðnir í því að bæta upp fyrir framistöðu sína í fyrri hálfleik og reyna að fá eitthvað út úr þessum leik. Með tveggja mínútna millibili eftir 5 mínútna leik í seinni hálfleik áttu okkar menn tvær hættulegar sóknir. Fyrst þegar að Hallgrímur átti góðan sprett upp kantinn og gaf fyrir á Carsten og Orra sem börðust um boltann en rákust saman og boltinn fór aftur fyrir markið. Svo fékk Ævar góða sendingu inn fyrir vörn Grindvíkinga og nýtti sér hraða sinn vel og stakk varnarmenn Grindvíkinga af og lék á einn varnarmann en missti boltann aðeins of langt frá sér og markvörður Grindvíkinga Óskar Pétursson náði til knattarins.

Eins og áður sagði var seinni hálfleikurinn allt annar en sá fyrri og sóttu okkar menn nú mikið. Sú sókn frá okkar mönnum bar árangur á 71. mínútu leiksins þegar að Atli Sveinn sendi langan bolta inn fyrir vörn gestanna og Carsten sem hafði verið afar sprækur í leiknum stakk sér inn fyrir varnarmenn Grindvíkinga og kom boltanum laglega framhjá Óskari í marki Grindvíkinga og staðan því orðin 1-2 og nægur tími eftir fyrir KA til jafna metin.

Sjö mínútum síðar átti Bjarki Baldvinsson stórkostlega sendingu á Ómar Friðriksson sem tók boltann lystilega niður og lagði hann fyrir sig utarlega í teignum og hamraði boltanum upp í vinstra hornið, óverjandi fyrir Óskar í markinu. Einkar laglegt mark frá Ómari og afgreiðslan og yfirvegunin eins og hjá reyndum framherja. Eftir markið sóttu KA meira og hefðu alveg með smá heppni getað tekið öll stigin þrjú. En það hefði sennilega ekki verið mikil sanngirni í því en það er ekki spurt að því í íþróttum. 2-2 jafntefli varð því niðurstaðan í þessum skemmtilega fótboltaleik.

KA-maður leiksins: Carsten Pedersen ( Besti leikur Carsten í KA búningnum hingað til. Skoraði gott mark sem kom okkar mönnum inn í leikinn. Barðist svo vel og var ávallt að koma sér í góð færi) Aðrir sem gerðu tilkall til manns leiksins voru Ævar og Bjarki sem voru mjög flottir í leiknum í dag og áttu mjög góðan leik. Einnig var Sandor flottur í markinu og varði oft glæsilega.

Næsti leikur liðsins er síðan heimaleikur gegn Selfyssingum á laugardaginn næstkomandi þann 20.júlí kl. 16.00 og við hvetjum alla til að mæta á þann leik og styðja strákana til sigurs. Áfram KA!