2-0 sigur gegn Völsungum

Mynd/Þórir Tryggva.
Mynd/Þórir Tryggva.

Okkar menn unnu í kvöld góðan 2-0 sigur á nágrönnum okkar frá Húsavík. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en í þeim síðari skoraði KA tvö mörk og hefðu þau hæglega getað verið fleiri. Gunnar Valur hélt upp á endurkomu sína í byrjunarlið KA eftir að hafa verið að stíga upp úr erfiðum meiðslum með því skora fyrsta mark KA í leiknum. Carsten Pedersen bætti svo við öðru marki á 75. mínútu. Gestirnir frá Húsavík fengu síðan vítaspyrnu í seinni hálfleik í stöðunni 1-0 fyrir KA sem Sandor Matus varði glæsilega. Lokatölur leiksins því 2-0 KA í vil sem með sigrinum eru komnir upp í 11 stig og á fleygiferð upp töfluna.

KA 2 - 0 Völsungur

1-0 Gunnar Valur Gunnarsson ('49), Stoðsending: Hallgrímur Mar.

2-0 Carsten Pedersen ('75), Stoðsending: Hallgrímur Mar.

Lið KA í dag: Sandor Matus, Ómar Friðriksson, Atli Sveinn Þórarinsson, Gunnar Valur Gunnarsson, Jón Heiðar Magnússon, Davíð Rúnar Bjarnason, Bjarki Baldvinsson (Darren 82.min), Bessi Víðisson, Ævar Ingi Jóhannesson (Brian 89.min), Hallgrímur Mar Steingrímsson, Carsten Pedersen.

Bekkur: Fannar Hafsteinsson, Andrés Vilhjámsson, Brian Gilmour, Kristján Freyr Óðinsson, Fannar Freyr Gíslason, Darren Lough, Jakob Hafsteinsson.

Tvær breytingar voru gerðar á KA liðinu frá síðasta leik gegn Tindastól. Ævar Ingi og Gunnar Valur komu inn í byrjunarliðið í staðinn fyrir Orra Gústafsson sem er meiddur og Ivan Dragicevic sem var í banni. Brian Gilmour og Jakob Hafsteinsson kom inn á bekkinn frá síðasta leik. Vel var mætt á völlinn í kvöld bæði hjá stuðningsmönnum KA og Völsungs ásamt gestum N1 mótsins og óhætt að fullyrða um bestu mætingu á leik hjá KA hingað til í sumar hafi verið að ræða.

KA liðið byrjaði leikinn í dag af miklu krafti og mikilli ákefð og var ljóst frá fyrstu mínútu að liðið ætlaði sér öll þrjú stigin í dag. Nánast allann fyrri hálfleikinn sótti KA án afláts upp hægri kantinn og var Ómar Friðriksson á yfirvinnukaupi við það að koma upp kantinn og gefa fyrirgjafir og taka löng innköst. Þrátt fyrir mikla pressu frá KA náði liðið ekki að skapa sér nein stórhættuleg marktækifæri en voru þó alltaf líklegir til að taka forystuna í fyrri hálfleik. Völsungar áttu þó sína spretti og voru það Hrannar Björn og Guðmundur Óli sem voru hvað sprækastir í þeirra liði í fyrri hálfleik. Hættulegustu færi KA í fyrri hálfleiknum komu eftir fyrirgjafir utan af kanti og voru þar Carsten, Bessi og Ævar í aðalhlutverki en Dejan Pesic markvörður Húsvíkinga lenti aldrei í neinum teljandi vandræðum með marktækifæri þeirra.

Síðar hálfleikur var þó heldur fjörlegri og miklu opnari en sá fyrri. Líkt og í þeim fyrri voru KA menn mikið mun sterkari. Á 49. mínútu bar sú pressa síðan árangur þegar að Hallgrímur Mar tók frábæra hornspyrnu sem endaði inn í markteig þar sem enginn annar en Gunnar Valur var mættur og skallaði boltann af miklum krafti í netið og koma KA verðskuldað yfir. Eftir markið jókst pressa KA og var eins og Völsungar hefðu verið slegnir út af laginu við markið. Hallgrímur Mar var á þessum kafla afar líflegur og réðu Völsungar hreinlega ekkert við hann. Á 57. mínútu gerðist svo umdeilt atvik þegar að Péter Odrobéna tók boltann með hendi innann vítateigs Völsunga eftir hornspyrnu KA og voru gestirnir stálheppnir að fá ekki dæmt á sig víti. Því um var að ræða klárt víti sem fór algjörlega framhjá dómurum leiksins.

Eftir þetta atvik færðu Völsungar sig heldur betur upp á skaftið og fóru aðeins að sækja að marki KA. Áttu meðal annars frábæran spil kafla þar sem Guðmundur Óli átti gott skot að marki en Jón Heiðar náði að kasta sér fyrir skotið og fengu gestirnir hornspyrnu. Stuttu seinna eða 70.mínútu gerðist síðan mjög umdeilt atvik þegar að Halldór Breiðfjörð dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu á KA eða réttara sagt aðstoðardómarinn sem dæmdi og Halldór dæmdi í kjölfarið eftir að Jón Heiðar Magnússon átti að hafa farið með löppina of hátt og háskalega í andlit sóknarmann Völsunga. Í fyrstu virtist eins og dómarinn ætlaði að dæma aukaspyrnu því brotið var alveg á mörkunum að vera innann teigs en eftir töluverðan umhugsunarfrest ákvað hann að dæma vítaspyrnu. Á punktinn steig Marko Blagojevic og varði Sandor Matus vítið eins og honum einum er lagið og bjargaði því að Völsungar jöfnuðu metin.

Eftir vítaspyrnuna voru lokamínúturnar algjör eign okkar manna sem voru staðráðnir í því að bæta við marki og sigla sigrinum heim. Títtnefndur Hallgrímur Mar átti á 75. mínútu einn af sínum mörgu sprettum upp völlinn og gaf glæsilega fyrirgjöf þar sem Carsten Pedersen stakk sér framfyrir varnarmenn Völsungs og stangaði boltann af fádæma öryggi í netið og staðan því orðinn 2-0 KA í vil. Fjórum mínútum síðar átti Hallgrímur síðan stórhættulegt skot fyrir utan teig sem hafnaði í stönginni og Bessi Víðisson var fyrstur að átti sig og tók frákastið og skoraði en markið var dæmt af vegna rangstöðu og mátti það varla tæpara standa. Eftir þetta fjaraði leikurinn svo út og KA menn innbyrtu því þrjú gríðarlega góð stig. Sem þýðir að liðið hefur fengið 7 stig úr síðustu þremur leikjum sem verður að teljast jákvætt.

KA-maður leiksins: Hallgrímur Mar ( Átti frábæran leik í dag og var sífellt ógnandi og áttu varnarmenn Völsunga í stöðugum vandræðum með hann. Lagði upp bæði mörk KA í leiknum og var sjálfur mjög nálægt því að skora þegar að skot hans hafnaði í stönginni) 

Aðrir sem gerðu tilkall til manns leiksins voru þeir Gunnar Valur, Ævar, Carsten og Sandor. Gunnar Valur var flottur í miðri vörninni með Atla og mynduðu þeir afar öruggt miðvarðarpar ásamt því að Gunnar skoraði gott mark. Ævar og Carsten voru gríðarlega líflegir í sóknarleik KA í dag og ollu oft miklum usla í vörn Völsunga með vinnusemi sinni. Sandor var síðan mjög góður og varði glæsilega vítaspyrnuna í stöðunni 1-0 fyrir KA og var það ákveðinn vendipunktur í leiknum og afar mikilvæg varsla hjá Sandor.

Næsti leikur KA er útileikur gegn Þrótturum þann 13. júlí næstkomandi og hvetjum við alla sem hafa tök á að styðja liðið til sigurs í þeim leik. Áfram KA !