Útileikur gegn Fjölni

Mynd/Sævar Geir
Mynd/Sævar Geir

Á morgun bregða okkar menn undir sig betri fætinum og fara í Grafarvoginn og etja kappi við Fjölni. Staða liðanna í deildinni er svipuð og sitja þau í 5. og 6 sæti deildarinnar. Fjölnir með 21 stig en KA með 18 stig. Leikurinn hefst kl. 14.00 og verður í beinni hjá SportTV og verður sjónvarpað hér í KA-heimilinu á breiðtjaldi.

Fjölnismenn hafa verið á mikilli siglingu í undanförnum leikjum líkt og KA og eru taplausir í síðustu sjö leikjum. Þar af eru fimm sigurleikir og einungis tvö jafntefli. Liðið byrjaði mótið heldur rólega en hefur heldur betur stigið á bensíngjöfina eftir því sem liðið hefur á mótið og verið illviðráðanlegir eftir tapið gegn BÍ/Bolungarvík á heimavelli.

Fimm leikmenn Fjölnis eru markahæstu leikmenn liðsins í sumar en það eru þeir Aron Sigurðarson, Atli Már Þorbergsson, Ágúst Örn Arnarson, Bergsveinn Ólafsson og Haukur Lárusson. Það hefur ekki verið boðið upp á margar markaveislur í leikjum Fjölnis í sumar og aðeins verið skoruð 2,3 mörk að meðaltali í leik hjá Fjölni í sumar. Fjölnir er einnig það það lið sem hefur fengið á sig fæst mörk í sumar eða aðeins 14 mörk og haldið hreinu í 5 leikjum í sumar sem er einnig besti árangurinn í deildinni.

Fyrri leikur liðanna á tímabilinu fór fram í Boganum í 2.umferð mótsins og lauk honum með 1-1 jafntefli þar sem Mads Rosenberg skoraði mark okkar manna með þrumufleyg en gestirnir jöfnuðu svo á 89. mínútu með marki frá Atla Má Þorbergssyni.

Eins og ávallt höfum við fengið vaska KA menn til að rýna í komandi leik og reyna geta fyrir um úrslit leiksins.

Spámenn umferðarinnar:

Egill Ármann Kristinsson, KA-maður: 

Ég held að KA liðið byrji leikinn vel fyrstu 25 mín, síðan kemur smá down kafli í leiknum fram að hálfleik þar sem liðið liggur dáltið til baka. 

Í seinni hálfleik kemur síðan hungrið í menn og við verðum yfirburðar á vellinum svona lang stærstan hluta seinni hálfleiks. Segi að við verðum búnir að klára leikinn þegar klukkan slær í 80 mín.

Leikurinn endar 1-3 fyrir KA og það verða Atli Sveinn, Ivan og Darren sem skora mörkin. KA kemst yfir 0-2 Fjölnir minnkar í 1-2 og síðan verður það Atli Sveinn sem klárar þetta 1-3.

Hlynur Örn Ásgeirsson, KA-maður: 

Þetta verður hundleiðinlegur leikur á að horfa . Bæði lið verða þétt til baka og fátt um færi. Við tökum þetta 0-1 með marki á 84 mín, það verður annað hvort Atli Sveinn eða Gunnar Valur með skot af 35 metrum. Verður eitt af mörkum tímabilsins.

Stefán Bergsson, KA-maður:

Fjölnir-KA nú á laugardag er gríðarlega mikilvægur leikur. Úrslitin hjá efstu liðunum í þessari umferð eru okkur hagstæð þar sem Víkingur, Grindavík og Haukar fengu lítið sem ekkert út úr leikjum sínum; samtals aðeins tvö stig. Með sigri gegn Fjölni mun KA því djemba sér vel inn í toppbaráttuna þar sem liðið á heima. Tap þýðir hins vegar að Fjölnir verður komið sex stigum á undan okkur og KA sent aftur rakleiðis í miðjumoðið.

Mér lýst afar vel á leikinn, liðið er búið að vera á mikilli siglingu og aukin gæði sem blunduðu í liðinu hafa komið í ljós með endurheimt lykilmanna; fleiri en Grímsi, sem er besti leikmaður deildarinnar, geta framkallað mikinn djöfulgang fyrir framan mark andstæðinganna. Tilbaka er svo liðið afar solid og á ekki að fá á sig fleiri en eitt mark max í hverjum leik. Ég er afar hrifinn af vörninni og þá sérstaklega miðvörðunum sem eru góð blanda; yfirvegaður og góður á boltann Atli Sveinn með slátrarann sér við hlið. Það er það sem mun gerast í þessum leik, KA mun halda hreinu eða í mesta lagi fá á sig eitt mark. Miðað við góða spilamennsku í sókninni upp á síðkastið má svo búast við 1-3 KA-mörkum svo ég spái X2 og er í raun afar bjartsýnn á góðan útisigur. Hafa ber þó í huga að Fjölnismenn hafa verið ágætri siglingu og hafa fengið á sig fá mörk. Því skal bera virðingu fyrir því að jafntefli er ekki slæm úrslit.

Ég er nokkuð viss um að það komi mark snemma á morgun, leikurinn mun svo drabbast aðeins niður eftir markið og lítið gerast fram að hálfleik. Í seinni hálfleik mun það koma í ljós að bæði lið vilja sigur og djöfulgangurinn mun aukast til muna. Sigurmark KA kemur eftir hornspyrnu á 83. mínútu. Hornið verður það þriðja í röðinni eftir mikla pressu. Fjölnismenn verja tvisvar á línu áður en hinn grjótharði Ivan Dragicevic mun skófla boltanum inn af tveggja metra færi með bringunni. Stúkan tryllist, Saggar munu dansa og markið verður upphafið að lokaáfanga KA-manna á leið sinni í Úrvalsdeild.


Leikurinn hefst eins og áður segir klukkan 14.00 og verður í beinni útsendingu hjá SportTv en við hvetjum samt sem áður alla KA menn sem hafa tök á að mæta á leikinn að gera svo. Áfram KA !