Þá er komið að 9. umferð 1.deildarinnar og er það heimaleikur gegn nágrönnum okkar frá Húsavík sem bíður okkar á morgun. Leikurinn mun hefjast á slaginu klukkan 19.15 og verður það Halldór Breiðfjörð Jóhannsson sem mun sjá til þess að leikurinn fari prúðmannlega fram. Fyrir leikinn á morgun situr Völsungur á botni deildarinnar með 2 stig en KA í því níunda með 8 stig og ljóst um er að ræða hörkuleik þar sem ekkert verður gefið eftir.
Völsungar eru eins og flestir vita nýliðar í deildinni eftir frækin sigur í 2.deildinni síðasta sumar. Gengi þeir það sem af er sumri hefur hinsvegar verið magurt. Liðið situr eins og áður segir á botni deildarinnar með einungis tvö stig og komu þau gegn Selfossi heima og gegn Tindastól á útivelli en sá leikur fór fram í Boganum. Völsungur hefur skorað 6 mörk í deildinni í sumar sem er minnst allra liða og fengið á sig 16 sem er mest allra liða ásamt BÍ/Bolungarvík. Í leikjum Völsunga í sumar hafa verið skoruð 2,75 mörk að meðaltali í leik.
Þjálfari Húsvíkinga er hinn geðþekki Dragan Stojanovic sem áður stýrði áður liði Þórs/KA á árunum 2006-2010. Dragan er á sínu öðru tímabili með liðið. Atkvæðamestur hjá Völsungum í sumar hefur verið framherjinn ungi Hafþór Mar Aðalgeirsson en hefur skorað 4 mörk í 7 leikjum. Á morgun mætast síðan bræður inn á vellinum því þrír bræður Hallgríms Mars leika með Húsvíkingum. Guðmundur Óli sem á 91 leik að baki með KA og gékk til liðs við sitt gamla félag fyrir þetta tímabil og Sveinbjörn Már og fyrirliði þeirra Hrannar Björn.
Hjá KA liðinu verður Ivan í banni vegna rauða spjaldsins gegn Tindastól. Atli Sveinn Þórarinsson er kominn með fjögur gul spjöld en hann tekur sitt bann ekki út á morgun heldur í næsta leik gegn Þrótti.
Eins og fyrir undanfarna leiki þá höfum við fengið valinkunna einstaklinga til að rýna í komandi leik og spá fyrir um úrslit leiksins í léttum dúr.
Spámenn umferðarinnar:
Þorvaldur Makan Sigbjörnsson, KA-maður:
Þrátt fyrir vonbrigðarsumar þá leggst leikurinn þokkalega í mig. Ég er búinn að sjá einn leik (live) í sumar en það var fyrsti leikurinn á móti Selfossi, sá leikur vannst og þar sem ég mæti á þennan þá mun KA klárlega vinna hann.
Þetta verður hörku leikur, KA sækir mun meira, markmaður Völsungs verður í miklu stuði og þeir skora eitt óvænt í andlitið á okkur, Gummi Steingríms 0-1 í hálfleik. Svekkjandi leikhlé fyrir okkur en Bjarninn og Túfa fara vel yfir málin í hálfleik og KA heldur áfram að sækja. Á 58 mín jafnar KA, sá ekki alveg næginlega hver það var en þetta verður skalli eftir horn. Á loka mínútum leiksins fær KA sjaldséð víti sem Hallgrímur Mar skorar úr og KA vinnur leikinn 2-1.
Áhorfendur sáttir enda spilamennskan góð, 7 stig í síðustu þremur leikjum og menn horfa bjartara fram veginn.
Áfram KA
Jón Heiðar Sigurðsson, KA-maður:
Þetta verður skemmtilegur leikur, nágrannaslagur af bestu gerð og leggst hann mjög vel í mig. Fullt af fólki í bænum út af N1 mótinu og verður vonandi topp mæting á völlinn!
KA menn skora snemma í leiknum og þar verður að verki Grímsi eftir frábært "gegnumbrot" þar sem hann fíflar bróðir sinn Sveinbjörn á vinstri kantinum. Völlarar hressast við þetta og sækja mikið í fyrrihálfleik en KA menn verjast vel þrátt fyrir að það vanti lykilmenn í vörnina. 1-0 verður staðan í hálfleik og geta KA menn verið sáttir með það.
Seinni hálfleikinn byrja KA menn af miklum krafti og sækja linnulaust fyrsta korterið, loks ná þeir öðru markinu og finnst mér líklegt að þar verði að verki Carsten eftir glæsilegt samspil við Bjarka. Völsungar ná að klóra í bakkann undir lok leiks með frábæru aukaspyrnumarki Hrannars af 35 metra færi en komast ekki lengra og KA innbyrðir þrjú gríðarlega mikilvæg stig og það er vonandi að liðið komist á smá flug eftir þennan leik!
Vilhjálmur Herrera Þórisson, KA-maður:
Leikurinn leggst nokkuð vel í mig gegn flottu liði Völsungs sem hefur reyndar ekki gengið svo vel í sumar. Völlarar mæta dýrvitlausir til leiks enda þekkja þeir vel til KA manna.
Ég spái hins vegar að KA menn drulli sér loksins í gang og klári Völsung sannfærandi 4-1. Hrannar skorar einn screamer fyrir Völsung en bróðir hans gerir gott betur og hendir í þrennu áður en stóra G.Ö. vélin kemur inn og klárar þetta með fjórða markinu.
Þetta verður erfiður róður fyrir Völsung sem eiga eftir að byggja allar sínar sóknir upp kantana og treysta mikið á skyndisóknir. KA menn hljóta að ætla halda boltanum og spila honum á milli sín og trúi ég ekki öðru en Bjarni Jó verði bandvitlaus ef það tekst ekki. Síðan er kannski óþarfi að nefna það en ég held að allir KA menn viti að Gummi Óli eigi eftir að fjúka útaf með beint rautt eftir eina gjörsamlega tilgangslausa og grófa tæklingu.
Heimasíðan hvetur síðan alla að fjölmenna á völlinn og styðja liðið til sigurs. Áfram KA !