Topplið Grindavíkur í heimsókn á morgun

Á morgun þriðjudag mætast KA og Grindavík í 11. umferð 1.deildar karla. Um er að ræða síðasta leik fyrri umferðar mótsins. Við hvetjum alla til að fjölmenna á leikinn enda um hörkuleik að ræða þar sem Grindavík sitja einir á toppnum með 22 stig og KA liðið verið á mikilli siglingu í undanförnum leikjum. Leikurinn hefst kl. 18.00.

Grindvíkingar hafa spilað virkilega vel í sumar í 1.deildinni eftir að hafa fallið úr úrvalsdeildinni síðasta haust og eru verðskuldað í toppsætinu eftir 10. umferðir. Þjálfari Grindvíkinga er Milan Stefán Jankovic en hann er öllum hnútum kunnugur hjá félaginu þrátt fyrir að hafa tekið við liðinu í vetur. Því þetta er í þriðja skipti sem hann tekur við stjórnartaumum liðsins en hann tók fyrst við liðinu árið 1999. Grindvíkingar hófu tímabilið á óvæntu tapi gegn Víkingum á heimavelli í 1.umferð. En í kjölfarið fylgdu sex sigurleikir í röð gegn Haukum, BÍ/Bolungarvík, Tindastól, Völsung, Þrótturum og Leikni. Síðan beið liðið í lægri hlut gegn Selfyssingum á heimavelli og gerðu jafntefli við Fjölni og unnu KF í síðustu umferð.

Markahæstur Grindvíkinga á þessu tímabili er framherjinn Stefán Þór Pálsson. Hann hefur skorað 7 mörk í deildinni og er markahæsti leikmaður 1.deildarinnar en hann er á láni hjá Grindvíkingum frá Breiðabliki. Annar leikmaður Grindvíkinga sem hefur mikið að sér látið kveða er Króatinn Juraj Grizlj. En hann hefur skorað þrjú mörk í níu leikjum og var til að mynda valinn í úrvalslið umferðarinnar hjá Fótbolta.net fjórar umferðir í röð. Hjá Grindvíkingum leikur síðan KA maðurinn Jóhann Helgason frá Sílastöðum. En hann hefur leikið 7 leiki hjá Grindvíkingum í sumar og skorað eitt mark og er í algjöru lykilhlutverki hjá Grindvíkingum. Jóhann lék eins og allir vita með KA á síðasta keppnistímabili og lék þá 22 leiki og skoraði í þeim leikjum 7 mörk. Jóhann á að baki 64 leiki fyrir KA og skorað í þeim 16 mörk. Grindvíkingar hafa skorað flest mörk allra liða í deildinni eða 25 mörk. Í leikjum Grindvíkinga hafa verið skoruð 3,5 mörk að meðaltali í leik í sumar og því ljóst um að fjörugan leik verður að ræða á morgun.

Eins og ávallt höfum við fengið galvaska KA menn til að spá fyrir um komandi leik á sinn hátt. Í síðustu umferð gerðist einn spámaður svo getspakur að hann spáði fyrir um hárrétt úrslit og var það í fyrsta skipti í sumar sem spámaður spáir fyrir um hárrétt úrslit. En það var fyrrum framkvæmdarstjórI Knattspyrnudeildar KA, Óskar Þór Halldórsson.

Spámenn umferðarinnar: 

Siguróli Magni Sigurðsson, KA-maður:

Gulir og glaðir Grindvíkingar sækja okkur heim og verður um hörkuleik að ræða. Veðurspáin spilar að hluta til með Grindvíkingum en spáð er úrhellisrigningu sem að Suðurnesjapiltar eru vanir, en Norðlenska-lognið vinnur með okkar mönnum en gárungarnir segja að síðast hafi verið logn á Suðurnesjunum árið 1972. 

KA menn munu liggja til baka í fyrri hálfleik og beita skyndisóknum með Grímsa fremstan í flokki. Grindvíkingar munu ekki ná að setja mark sitt á leikinn þar sem að Ivan "the Terrible" Dragicevic, Gunnar Valur og Atli Captain Þórarinsson hafa einfaldlega múrað fyrir að undanförnu. 

KA mun skora tvö mörk, annað í fyrri hálfleik og hitt undir lokinn þegar að Grindjánar eru farnir að pressa stíft. Ég ætla að gerast það djarfur og spá því að Grímsi muni eiga einhvern hlut í mörkunum en markaskorarar verða Orri Gústafs og Lionel Bessi. 

Semsagt, 2-0 heimasigur í blautum leik.

Jóhannes Valgeirsson, KA-maður:

Leikurinn leggst vel í mig. Einn besti þjálfari landsins, Bjarni Jóh. virðist vera búinn að ná jafnvægi í liðið aftur eftir nokkurn halla sem skútan lenti í eftir flottan opnunarleik.

KA liðið hefur á að skipa gríðarlega skemmtilegri blöndu leikmanna sem geta náð góðum árangri ef gott jafnvægi næst í skipulag liðsins.

KA mun vinna næsta heimaleik á móti Grindavík 2-0. Það verða miðverðirnir tveir sem munu skora mörkin eftir aukapyrnur frá Hallgrími. Kristalskúlan mín segir þetta vera Atla og Gunnar Val. Veit ekki með það. Þetta verður hörkuleikur í rigningu. Kúlan segir mér að sveittustu menn vallarins verði þeir "vallarbræður" Eddi og Sævar sem munu þjappa torfum af miklum móð í hálfleik, eftir hörku "fæting".

Gunni Nella mun pósta á feisbúkk "nú er minn kátur"

Áfram KA

Sverrir Freyr Jónsson, KA-maður:

Leikurinn leggst ágætlega í mig. Liðið er að rétta úr kútnum eftir slaka byrjun og hefur haldið hreinu í 3 af síðustu 4 leikjum og fengið úr þeim 10 stig af 12 mögulegum. Grindvíkingar hafa skorað 25 mörk í sumar en einungis 4 þeirra hafa komið á útivelli þannig að það lítur út fyrir að það verði ekki mikið skorað í þessum leik.

Núna eru tveir heimaleikir í þessari viku og menn vita að með sigri í þeim báðum þá erum við komnir í bullandi séns á toppnum og ég hef trú á því að menn selji sig dýrt til að ná úrslitum.

Þetta verður baráttuleikur sem verður markalaus í hálfleik en svo kemur sigurmark okkar manna á 76. mínútu. Þar verður á ferðinni enginn annar en Gunni Valur sem skóflar boltanum í netið eftir fast leikatriði að sjálfsögðu. Eftir markið munu Grindvíkingar setja pressu á okkur en ná ekki að setja jöfnunarmark og við munum því hirða öll þrjú stigin.


Við minnum fólk á að kl 17.15 verður boðið upp á grillaða hamborgara og kók á vægu verði vestan við stúkubygginguna og hvetjum við alla KA-menn að fjölmenna þangað. Einnig verður hægt að kaupa hina stórglæsilegu KA trefla sem eru algjór skyldueign. Áfram KA !