Fréttir

Lokahóf yngri flokka handboltans hjá KA

Fimmtudaginn 19/5 kl. 18:00 verður lokahóf yngri flokka handboltans haldið í KA heimilinu.  Veittar verða viðurkenningar, farið í leiki og endað á pizzuveislu.  Allir iðkendur eru hvattir til að mæta og foreldrar og systkini velkomin með. Æfingar hjá yngstu krökkunum hætta eftir lokahóf en eldri flokkar halda áfram í samráði við þjálfara. Sjáumst hress í KA heimilinu! Unglingaráð handknattleiksdeildar KA

Akureyri - FH á sunnudag, troðfyllum Höllina og gefum allt í leikinn

Nú er ljóst að ekkert nema sigur kemur til greina í leik Akureyrar og FH á sunnudaginn. Það er einfaldlega ekki í boði að láta FH-inga lyfta bikarnum hér á okkar heimavelli. Við þurfum ekki að hafa mörg orð um mikilvægi þess að troðfylla Höllina og berjast til síðasta manns. Leikirnir tveir sem búnir eru hafa verið algjörlega stál í stál og í raun hefði hvort liðið sem var getað gengið af velli sem sigurvegari. Við höfum áður bent á stöðuna sem var uppi í einvígi KA og Vals frá 2002 og nú er hreinlega ekkert annað í stöðunni en að endurtaka leikinn frá vorinu 2002 en til þess þurfa allir að leggjast á eitt. Leikurinn hefst klukkan 16:00 á sunnudaginn og húsið opnað klukkan 15:00.

FH – Akureyri (leikur 2), heimaleikur á sunnudag

Úrslitaeinvígi Akureyrar og FH heldur áfram í kvöld klukkan 20:15 en að þessu sinni verður leikið í Kaplakrika, heimavelli FH. Akureyrarliðið er staðráðið í að jafna stöðuna í einvíginu og hvetjum við alla stuðningsmenn sem verða staddir í nágrenni Hafnarfjarðar til að fjölmenna á leikinn og taka virkan þátt í baráttunni. „Það er fín stemmning í hópnum hjá okkur. Við erum búnir að fara yfir leikinn á þriðjudaginn og við látum þetta tap ekkert á okkur fá. Það er fullt eftir ennþá og við ætlum að halda áfram á fullum krafti,“ segir Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar í viðtali við Vikudag.

4. flokkur kvenna úr leik í 8 liða úrslitum

4. flokkur kvenna átti strembið verkefni fyrir höndum, bikarmeistarar Selfoss á Selfossi síðasta sunnudagskvöld.  Stelpurnar hafa verið á miklu skriði í vetur og framfarirnar hreint út sagt lygilegar. Á dögunum unnu þær 2. deildina og stefndu að sjálfsögðu á að fara alla leið í úrslitakeppninni. 

3. flokkur kvenna lauk keppni þennan veturinn um liðna helgi

Stelpurnar í 3. flokki kvenna spiluðu gegn deildarmeisturum HK í 8 liða úrslitum í Digranesi síðastliðinn laugardag.  Ljóst var fyrir leik að um erfiðan leik yrði að ræða. KA/Þór byrjaði leikinn vel og skiptust liðin á að skora. Eftir tíu mínútna leik meiðist Kolbrún Gígja og við það riðlaðist leikur KA/Þórs nokkuð og HK gekk á lagið. Sjálfstraustið fór úr leik KA/Þórs og HK var allt í einu komið með 8 marka forskot. Síðustu tíu mínúturnar í hálfleiknum voru þó virkilega góðar, sérstaklega varnarlega en HK skoraði einungis eitt mark á þeim kafla. 

3. flokkur karla: Fyrsti leikur í 8 liða úrslitakeppni

Þriðjudaginn 19. apríl hefst úrslitakeppnin hjá 3. flokki karla í handbolta. KA strákarnir taka á móti liði Fram í fyrsta leik keppninnar í KA heimilinu kl. 16:00  Það má búast við hörkuleik þar sem KA endaði í 3. sæti í deildinni með 30 stig en Fram var í 6. sæti með 27 stig. Við hvetjum fólk til að mæta í KA heimilið og og styðja strákana í baráttunni til að komast í úrslitaleikinn. Áfram KA

Leikur dagsins: Akureyri - HK klukkan 19:30

Í kvöld er komið að fyrstu viðureigninni í úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn. Akureyri og HK mætast í Höllinni klukkan 19:30 og nú má enginn láta sitt eftir liggja. Mætum á leikinn og tökum sem flesta með til að hjálpa strákunum í baráttunni.

Áfram KA - stuttermabolir til sölu

3. flokkur strákar og stelpur verða með glæsilega „Áfram KA“ stuttermaboli til sölu á 2.000 kr. stk. Þeir eru í gulum lit og tveimur bláum. Bolina verður hægt að panta og greiða í KA heimilinu mánudaginn 11., þriðjudaginn 12. og miðvikudaginn 13. apríl nk. milli klukkan 17:00 og 19:00 í KA heimilinu. Allir í Áfram KA bol, stórir sem smáir!

Íslandsmót 5. flokks karla 9.-10. apríl 2011, öll úrslit og myndir

Um helgina fór fram heil umferð á Íslandsmótinu hjá 5. flokki karla. Það voru KA og Þór sem önnuðust þessa umferð og var leikið í KA heimilinu og Íþróttahúsi Síðuskóla. Smelltu hér til að skoða allar upplýsingar, leikjaskipulag og úrslit leikja og ljósmyndir.

Lokaumferð N1 deildarinnar, Akureyri - Fram o.fl.

Á fimmtudagskvöldið lýkur N1 deildarkeppninni að þessu sinni. Í lokaumferðinni leika Akureyri og Fram en leikurinn hefst klukkan 19:30 í Íþróttahöllinni. Bæði liðin eru örugg í úrslitakeppnina en Fram á í baráttu við HK um hvort liðið hafnar í 3. sæti deildarinnar. Á sama tíma leika HK og FH í Kópavoginum þannig að úrslit beggja leikjanna hafa áhrif.