Stelpurnar í 3. flokki kvenna spiluðu gegn deildarmeisturum HK í 8 liða úrslitum í Digranesi síðastliðinn laugardag.
Ljóst var fyrir leik að um erfiðan leik yrði að ræða. KA/Þór byrjaði leikinn vel og skiptust liðin á að skora. Eftir tíu
mínútna leik meiðist Kolbrún Gígja og við það riðlaðist leikur KA/Þórs nokkuð og HK gekk á lagið.
Sjálfstraustið fór úr leik KA/Þórs og HK var allt í einu komið með 8 marka forskot. Síðustu tíu mínúturnar
í hálfleiknum voru þó virkilega góðar, sérstaklega varnarlega en HK skoraði einungis eitt mark á þeim kafla.
Seinni hálfleikur byrjaði svipað og fyrri hálfleikur hafði endað nema hvað að sóknin hjá KA/Þór gekk mun betur og fóru
þær að saxa á forskotið. Þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum var munurinn kominn niður í tvö mörk og
KA/Þór manni fleiri. Þrátt fyrir tvö kjörin tækifæri til að minnka þetta niður í eitt mark fóru KA stelpur illa að
ráði sínu og munurinn hélst 2-3 mörk þar til 2 min voru eftir og KA/Þór tók sénsinn á að klippa á tvo helstu leikmenn
HK liðsins. Óhætt er að segja að það hafi ekki gengið og HK skoraði þrjú síðustu mörk leiksins og skyldu
norðanstúlkur eftir með sárt ennið.
Síðari hálfleikurinn var virkilega góður að mörgu leiti. Þær voru að spila á móti besta sóknarliði landsins og
stóðu vörnina virkilega vel í síðari hálfleik sérstaklega. Með smá heppni og meiri áræðni hefðu þær
hugsanlega getað stolið einhverju út úr þessum leik. En því fór sem fór og 3. flokkurinn úr leik þennan veturinn.
3. flokkurinn hefur spilað á köflum í vetur virkilega vel og sýnt að þær geta unnið hverja sem er. Hins vegar duttu þær allt of oft
niður í sinni spilamennsku og niðurstaðan því kannski sanngjörn hvað það varðar.
Í liðinu eru hins vegar fullt af gríðarlega efnilegum stelpum og miklum baráttuþjörkum sem geta náð eins langt og þær vilja
í þessari íþrótt. Þrátt fyrir að veturinn hafi verið viss vonbrigði eru leikmenn að verða til í kringum þetta lið
sem eiga vonandi eftir að skila sér sem heilsteyptir og góðir leikmenn upp í meistaraflokkinn á komandi árum.