4. flokkur kvenna úr leik í 8 liða úrslitum

4. flokkur kvenna átti strembið verkefni fyrir höndum, bikarmeistarar Selfoss á Selfossi síðasta sunnudagskvöld. 

Stelpurnar hafa verið á miklu skriði í vetur og framfarirnar hreint út sagt lygilegar. Á dögunum unnu þær 2. deildina og stefndu að sjálfsögðu á að fara alla leið í úrslitakeppninni. 
Leikurinn byrjaði nokkuð þægilega. KA/Þór komst í 2-0 og hefðu hæglega getað bætt við forskotið strax í byrjun. KA/Þór spilaði frábæra 3-2-1 vörn sem Selfoss átti í mjög miklum erfiðleikum með að finna glufur á. Hins vegar fór sóknin í algjöran baklás eftir fimm mínútur og sumir leikmenn KA/Þórs vissu hreinlega ekki hvernig mótherjinn leit út enda ekki horft fram fyrir sig í þó nokkurn tíma. Hraðaupphlaupin létu alveg á sér standa þrátt fyrir mjög góða vörn og seinni bylgjan var engin. Laufey Lára djöflaðist vel í vörn Selfoss, Þórey nýtti þau fáu færi sem hún fékk en hafði úr litlu að moða og Hulda Bryndís átti sína spretti sem skiluðu oftast nær marki eða dauðafæri. Hins vegar vantaði sárlega heilt yfir í leiknum að fleiri tækju af skarið en taugarnar voru heldur þandar hjá mörgum. 

Liðin skiptust þó á að ná forustu í leiknum og munurinn aldrei meira en 1-2 mörk. Mest náði Selfoss þriggja marka forskoti og staðan í hálfleik 9-6 en KA/Þór náði að jafna í 9-9 á fyrstu mínútum síðari hálfleiks. Þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum brenna KA/Þór stelpur af upplögðu tækifæri og Selfoss fer upp og skora og ná tveggja marka forustu. Aftur klikkar KA úr ágætisfæri og Selfoss gera út um leikinn. Lokatölur 17-14 fyrir Selfoss í baráttuleik. 

Selfoss var að spila góða 5-1 vörn en í hvert skipti sem stelpurnar slökuðu aðeins á, létu boltann ganga og fóru síðan í markvissa árás fengu þær góð færi. Hins vegar var oft á tíðum heldur mikið óðagot og margar stress ákvarðanir sem skiluðu litlu öðru en hnoði og mistökum. 

Þrátt fyrir að vera að spila nokkuð lélegan sóknarleik var vörnin sú besta sem þær hafa spilað í vetur. Hver ein og einasta barðist eins og ljón og héldu þær liði Selfoss í einungis 17 mörkum sem er 10 mörkum minna en Selfoss hefur verið að skora að meðaltali í vetur. Línumaður Selfoss sem hefur verið þeirra helsta markamaskína skoraði til að mynda einungis eitt mark í leiknum. 

Það er engin skömm að því að tapa á Selfossi. Selfoss lenti í 2. sæti í 1. deild, hársbreidd frá því að tryggja sér deildarmeistaratitilinn og unnu bikarmeistaratitilinn. Það sem er kannski mest svekkjandi við tapið er að stelpurnar vissu að þær voru betri en þær sýndu í leiknum. 

Þær eiga mikið hrós skilið fyrir veturinn. Þær hafa lagt gríðarlega mikið á sig í vetur. Æft aukalega og æft af krafti. Framfarirnar eru gríðarlegar og hugarfarið frábært. 
Þær duttu út í hörku leik gegn einu af bestu liðum landsins og voru í raun klaufar að slá þær ekki út. Viljinn og getan var svo sannarlega til staðar en stundum er handboltinn frekar grimm íþrótt og ekkert við því að segja.