Lokaumferð N1 deildarinnar, Akureyri - Fram o.fl.

Á fimmtudagskvöldið lýkur N1 deildarkeppninni að þessu sinni. Í lokaumferðinni leika Akureyri og Fram en leikurinn hefst klukkan 19:30 í Íþróttahöllinni. Bæði liðin eru örugg í úrslitakeppnina en Fram á í baráttu við HK um hvort liðið hafnar í 3. sæti deildarinnar. Á sama tíma leika HK og FH í Kópavoginum þannig að úrslit beggja leikjanna hafa áhrif.

Þó að Akureyrarliðið hafi tryggt sér efsta sætið og þar með Deildarmeistaratitilinn þá hefur leikurinn töluverða þýðingu því að með sigri mun Akureyri hafa betur í viðureignum við öll hin liðin í deildinni. Fyrir leikinn er Fram með betri stöðu í innbyrðis viðureignum, Akureyri vann fyrsta leik liðanna á útivelli 31-32 en Fram vann þegar liðin mættust hér á Akureyri 30-34 þannig að Fram hefur þrjú mörk í plús.
Akureyri verður því að sigra í leiknum til að ná yfirhöndinni gegn Fram.


Gulli, Heimir og Höddi hafa örugglega ekkert á móti því að taka á Frömurum á fimmtudaginn

Fram liðið hefur átt misjöfnu gengi að fagna í vetur, í fyrstu tíu umferðunum vann liðið alla leikina nema hvað þeir töpuðu leik á móti Akureyri og HK og liðið virtist líklegt til afreka. Þá kom arfaslakur kafli þar sem margir leikir töpuðust og margir hverjir með miklum mun. Þá komu tveir mikilvægir sigrar í röð, sérstaklega var mikilvægur stórsigur gegn Haukum og liðið virtist hafa náð sér á strik á ný. Í síðustu umferð mátti Fram liðið hins vegar þola skell á móti HK þar sem Fram tapaði með níu marka mun á heimavelli 26-35.

En Fram liðið mun örugglega mæta af fullum krafti til leiks á fimmtudaginn líkt og Akureyrarliðið enda mikilvægt að enda deildina með sigri og koma til leiks í úrslitakeppnina með vindinn í seglin.

Það er allavega ljóst að það verður hörkuleikur í boði í Höllinni á fimmtudagskvöldið.
Nánari upplýsingar um leikinn.

Aðalfundur Akureyrar Handboltafélags 12. apríl 
Þriðjudaginn 12. apríl verður haldinn aðalfundur Akureyrar Handboltafélags. Fundurinn verður haldinn í fundaaðstöðu Akureyrar Handboltafélags í Íþróttahöllinni og hefst klukkan 20:00. Hannes Karlsson formaður fer yfir starfsárið og stöðu mála. Að sjálfsögðu eru allir áhugamenn hvattir til að koma en á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf.

Kosning á leikmanni marsmánaðar 
Þá er marsmánuður nýliðinn og endaði með krýningu deildarmeistara Akureyrar. Það er því komið að því að kjósa leikmann marsmánaðar. Kosningin er rafræn á heimasíðunni, hægt er að kjósa fram til kl. 18:30 þann 13. mars. Smelltu hér til að taka þátt.