06.04.2010
Stelpurnar í KA töpuðu 0-3 gegn Fylki í kvöld og því eru vonir um bronsverðlaun á Íslandsmótinu nánast foknar út
í veður og vind. Mikil forföll voru í liðinu og vantaði m.a. Elmu, Birnu, Evu, Ástu, Dýrleifi og Ísey. Þær sem eftir voru
áttu á brattann að sækja og töpuðu öllum hrinunum.
29.03.2010
Stelpurnar í blakliði KA fengu enn einn skellinn í kvöld þegar Þróttur Neskaupstað kom í heimsókn. Þrátt fyrir slæmt
tap sýndu stelpurnar að mikið er spunnið í liðið en meðalaldurinn var 15,6 ár í seinustu hrinunni. Báða reynsluboltana vantaði
í lið KA og verður það að teljast bæði furðulegt og leiðinlegt að vera að spila í úrslitakeppni um
Íslandsmeistaratitil án þess að geta notað sína bestu leikmenn. KA-dömur verða nú að stefna á bronsið en um það
bítast þær við Fylki. Allt stefnir í hreinan úrslitaleik um titilinn milli Þróttar og HK í lokaumferðinni. KA á tvo heimaleiki
í næstu viku, gegn Fylki á þriðjudag og gegn HK á fimmtudag. Báðir leikir hefjast kl 19:30
28.03.2010
Lilja Stefánsdóttir, mamma Hilmars og Jóhanns, leikmanna KA tók nokkrar myndir í leikslok þegar sigur KA var tryggður og eru þær nú
komnar inn á síðuna. Þið veljið Myndir hér fyrir ofan til að skoða þær.
Um Íslandsmeistarana má lesa meira hér fyrir neðan.
27.03.2010
KA tók þriðja titil sinn á jafnmörgum vikum fyrr í dag þegar liðið valtaði yfir HK í Kópavoginum. Sjálfur
Íslandsmeistaratitillinn var í boði og má segja að aðeins annað liðið hafi mætt til leiks. Eftir klúður hjá HK í fyrstu
hrinunni var allur vindur úr þeirra liði og KA þurfti engan toppleik til að kjöldraga Kópavogspilta. Flest gekk HK í mót og setja verður
stórt spurningamerki við framkvæmd leiksins þar sem tveir leikmenn, einn úr hvoru liði, voru ekki skráðir á leikskýrsluna þegar
hún var undirrituð rétt fyrir leik. Sá fyrri þurfti að yfirgefa völlinn snemma í fyrstu hrinu og þurrkuðust þá öll stig HK
út enda leikmaðurinn búinn að spila leikinn frá byrjun. KA-maðurinn Jóhann Eiríksson þurfti svo að yfirgefa varamannabekk KA um miðja
aðra hrinu þar sem hann var ekki heldur skráður á skýrsluna. Settu þessi furðulegu uppátæki mikið mark á leikinn og HK-menn
náðu sér aldrei í gang eftir að aðal stuðkarlinn þeirra var sendur upp í stúku.
KA-síðan var á staðnum og hélt úti beinni netlýsingu fyrir Adda Noregsfara. Netlýsinguna má lesa með því að
ýta á Lesa meira.
27.03.2010
Stelpurnar léku annan leik sinn í úrlitakeppninni á laugardag gegn HK og töpuðu þær 0-3. Í liðið vantaði bæði
Guðrúnu og Huldu Elmu en það afsakaði samt ekki hörmulegt andleysi og skelfilegan leik liðsins í fyrstu tveimur hrinunum.
25.03.2010
Fyrsti leikurinn í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn fór fram í kvöld í KA-heimilinu. KA lagði þá HK í mjög jöfnum
og spennandi leik. Fór leikurinn reyndar 3-0 en KA-menn voru stálheppnir að vinna fyrstu hrinuna. Næsti leikur liðanna verður á laugardag í Digranesi og
hefst hann kl 15:30. Er ástæða til að hvetja alla blakunnendur til að hópast á leikinn til að hvetja sín lið. Með sigri á laugardag
verður KA Íslandsmeistari. Ef HK vinnur þá mun leikinn oddaleikur í KA-heimilinu á mánudag kl 19:30.
22.03.2010
Eins og flestum ætti að vera kunnugt eru karla- og kvennalið KA nú á lokaspretti Íslandsmótsins, sjálfri úrslitakeppninni. Karlarnir unnu
Þrótt 3-0 á miðvikudag og 3-1 á föstudag í nokkuð strembnum leikjum og tryggðu sér rétt á að leika til úrslita gegn
HK. Fyrsti leikur í þeirri rimmu verður í KA-heimilinu kl 19:30 á fimmtudagskvöldið. Leikur nr. tvö verður
í Digranesi á laugardaginn kl 15:30. Vinna þarf tvo leiki til að verða Íslandsmeistari og má alveg reikna með að það þurfi oddaleik.
Ef svo fer mun hann verða leikinn í KA-heimilinu kl 19:30 á mánudagskvöld.
Kvennaliðið spilar tvöfalda umferð gegn HK, Þrótti Nes og Fylki. Fyrsti leikurinn gegn Þrótti fór 0-3 og næsti leikur verður gegn HK
í Digranesi á laugardaginn kl 13:30. Bæði liðin munu því spila við HK á laugardaginn og eru stuðningsmenn KA á
höfuðborgarsvæðinu hvattir til að koma á leikina og styðja sín lið.
21.03.2010
Blaklið KA, karla og kvenna, voru hyllt við hátíðlega athöfn í KA heimilinu í vikunni en þau náðu gríðarlega góðum
árangri s.l. helgi í bikarkeppninni eins og áður hefur komið fram. Þórir Tryggva var á svæðinu og tók myndir sem hægt er að
sjá hér.
16.03.2010
Fyrsti leikur í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn fór fram í kvöld. KA vann þá Þrótt 3-0 eftir nokkuð jafnar hrinur.
Engu líkara var sem leikmenn hefðu samið um að taka þrjár hrinur með svona hæfilegri áreynslu því leikurinn var frekar bragðdaufur
í heildina. KA fer suður og spilar við Þrótt á föstudagskvöldið. Liðið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst í
úrslitaeinvígið.
Stelpurnar spila sinn fyrsta leik gegn Þrótti á Neskaupstað nú á fimmtudag en fá svo Fylki í heimsókn næsta miðvikudag.
Úrslitakeppnin hjá konunum er þannig að fjögur efstu liðin í deildinni spila tvöfalda umferð.