Víkingar unnu toppslaginn (myndaveisla)

Fótbolti
Víkingar unnu toppslaginn (myndaveisla)
Tökum næsta leik (mynd: Þórir Tryggva)

KA tók á móti Víkingum í toppslag í 5. umferð Pepsi Max deildarinnar í fótbolta á Dalvíkurvelli í gær. Bæði lið voru ósigruð með 10 stig fyrir leikinn og var mikil eftirvænting fyrir leiknum. Þórir Tryggvason ljósmyndari var á leiknum og býður til myndaveislu frá herlegheitunum og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris frá leiknum

Leikurinn fór ansi rólega af stað og ljóst að bæði lið höfðu ákveðið að fara af varfærni inn í leikinn enda toppslagur. Í raun var hvorugt liðið líklegt í fyrri hálfleik sem varð því markalaus.

Eftir um kortérs leik í þeim síðari skoruðu gestirnir fyrsta markið er boltinn barst til Nikolaj Hansen fyrir framan opið markið. Varnarmenn KA vildu rangstöðu en markið stóð og á brattann að sækja.

Í kjölfarið fór KA liðið að færa sig framar á völlinn og reyndi hvað það gat til að ná jöfnunarmarkinu. Eftir nokkrar ágætistilraunir var Andri Fannar Stefánsson felldur innan teigs seint í uppbótartíma og vítaspyrna dæmd. Hallgrímur Mar Steingrímsson tók spyrnuna en skaut yfir markið og lokatölur því 0-1 tap.

Afar svekkjandi að fá ekkert útúr leiknum en þetta virtist því miður ekki alveg vera okkar dagur. Byrjunin á sumrinu er þó áfram góð og nóg eftir, við höldum áfram og þökkum kærlega fyrir stuðninginn úr stúkunni!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is