Vinnum leikinn KA menn

Stuðningsmannalag handboltans í KA, Vinnum leikinn KA menn, er gríðarlega gott lag sem flestir ef ekki allir KA menn kunna utan að. Það þekkja þó ekki allir söguna bakvið lagið.

Alfreð Gíslason sneri aftur til félagsins fyrir tímabilið 1991-1992 og upphófst þá mikill uppgangur í handboltanum hjá KA. Ári síðar, tímabilið 1992-1993 komst KA alla leið í undanúrslit í Bikarkeppninni og tók þar á móti Selfyssingum með Sigurð Val Sveinsson í broddi fylkingar. Eftir mikinn spennuleik þar sem KA vann upp fimm marka forystu fyrir lokasprettin tókst gestunum að tryggja eins marks sigur með marki á lokasekúndunni. KA liðið missti þar með af því að komast í úrslitaleikinn að þessu sinni.

Pétur Guðjónsson fékk hinsvegar hugdettu eftir leikinn að lagi fyrir handboltadeildina sem hann tók alla leið og samdi lagið fræga, hugmyndin byrjaði með línunni „vinnum leikinn, vinnum leikinn...“. Þegar góð mynd að laginu var komin fór Pétur í Hafnarstræti 100 þar sem hljómsveitin Amma Dýrunn æfði. Amma Dýrunn skipuðu þeir Jón Ómar Árnason (gítar), Baldur Rafnsson (bassi), Ólafur Hrafn Ólafsson (gítar), Sævar Benjamínsson (trommur) og Valur Halldórsson (söngur).

Alfreð var á þessum tíma þjálfari handboltaliðs KA ásamt því að vera framkvæmdastjóri félagsins. Pétur hitti á Alfreð og spurði hvort KA gæti borgað fyrir stúdíótímana fyrir lagið. Alfreð tók vel í beiðnina og sagði orðrétt „já, ekki málið“. Amma Dýrunn spilaði svo lagið ásamt Níelsi Ragnarssyni í Studio Samver, en Geir Gunnarsson stjórnaði upptöku.

Árið 1994 komst KA alla leið í Bikarúrslitaleikinn og mætti þar FH. Fyrir þann leik fór Árni Jóhannsson fyrir því að taka KA liðið inn í stúdíó RÚVAK til að syngja inn á viðlagið. Útkomuna þekkja flestir og hægt er að hlusta á þessa útgáfu hér að neðan.

Síðar kemur upp umræða að það þurfi að endurútgefa lagið vegna þess að upprunalega útgáfan sé ekki nógu vel tekin upp. Sándið sé ekki nógu gott og að upprunalega upptakan sé týnd. Haft var samband við Kristján Edelstein um að endurgera lagið, hann hafði frjálsar hendur og endurútsetti lagið. Kristján fékk Eyjólf Kristjánsson til að syngja lagið og aftur söng handboltalið KA undir. Þessi útgáfa af laginu hefur ekki heyrst oft og þótti hún ekki nógu góð.

Áfram voru því uppi raddir um að endurgera lagið og Pétur gekk í málið. Árið 1996 ræddi Pétur málin við Magnús Má Þorvaldsson, en Sigurður Sigurðsson (kenndur við SS Byggi) var einnig staðráðinn í því að eitthvað þyrfti að gera við þetta magnaða lag.

Pétur hringdi því næst í Val sem sungið hafði upprunalegu útgáfuna svo eftirminnilega og bað hann um að syngja aftur í nýrri útgáfu. Pétur hafði svo samband við Rúnar Júlíusson (Rúnna Júl) sem hann kannaðist vel við enda spilaði Rúnar mikið á þessum árum á veitingastaðnum Við Pollinn sem rekinn var af Alfreð Gíslasyni. Rúnni Júll var því vel tengdur inn í KA stemninguna.

Bæði Valur og Rúnar voru meira en til í verkefnið og var á endanum farið í Stúdíó Geimstein þar sem lagið var tekið upp. Valur spilaði á trommur, Rúnar á bassa og Björgvin Gíslason á gítar. Valur og Rúnni sungu svo dúett og úr varð útgáfan sem þekktust er í dag. Hana má heyra hér að neðan.

Við viljum þakka Pétri Guðjónssyni kærlega fyrir aðstoðina við að taka saman söguna bakvið þetta frábæra lag.

Vinnum leikinn KA menn
Á handboltaleik ætlum við,
til að hvetja okkar lið.
Við hrópum og köllum
ofan af pöllum
já svona af gömlum sið.

Sigurinn viljum fá,
kátt verður í KA höll þá,
strákar af ykkur harkið
og dúndrið á markið
nú boltinn í netinu lá.

KA menn vinnum leikinn
vinnum leikinn, vinnum leikinn KA menn
núna skulum berjast
og skotum verjast
og skorum tvö mörk í senn.

KA menn vinnum leikinn
vinnum leikinn, vinnum leikinn KA menn
og núna verðið að skjóta
og vörnina brjóta
og skora svo eitt mark enn.

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is