Keppnistímabilið 2023-2024

Þjálfari meistaraflokks karla var Halldór Stefán Haraldsson og honum til aðstoðar Guðlaugur Arnarsson. Liðið lék í Olís deild karla og endaði í 8. sæti deildarinnar. Liðið komst þar með í úrslitakeppnina en beið þar lægri hlut gegn FH sem stóð að lokum uppi sem Íslandsmeistari. Í bikarkeppninni tapaði liðið í fyrir Stjörnunni í 8-liða úrslitum.
Að vanda léku konurnar undir merki KA/Þór. Þjálfari meistaraflokks KA/Þór var Arna Valgerður Erlingsdóttir og henni til aðstoðar Þorvaldur Þorvaldsson. Það var ljóst að tímabilið yrði erfitt, lykilleikmenn fjarri góðu gamni og ungir leikmenn í aðalhlutverkum. Svo fór að lokum að liðið hafnaði í neðsta sæti Olís deildar kvenna. Í bikarkeppninni féll liðið út í annarri umferð eftir tap gegn spútnikliði Selfoss á útivelli.

Annað árið í röð varð Einar Rafn Eiðsson markakóngur Olísdeildarinnar, að þessu sinni með 151 mark. Ótrúlegt en satt þá er þetta fjórða árið í röð sem KA á markakóng deildarinnar, sem einnig eiga það sameiginlegt að vera allir örvhentir!

Á lokahófi handknattleiksdeildar voru að vanda veitt ýmis verðlaun:

Bestur hjá KA: Einar Rafn Eiðsson
Efnilegastur hjá KA: Skarphéðinn Ívar Einarsson
Besti liðsfélagi hjá KA: Haraldur Bolli Heimisson

Best hjá KA/Þór: Matea Lonac
Efnilegust hjá KA/Þór: Bergrós Ásta Guðmundsdóttir
Besti liðsfélagi hjá KA/Þór: Anna Þyrí Halldórsdóttir

Auk þess voru fimm leikmenn voru heiðraðir fyrir að spila 100 leiki fyrir félagið en það voru þau: Patrekur Stefánsson, Arnór Ísak Haddsson og Daði Jónsson karla megin en kvennamegin voru það Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir og Matea Lonac.

Þá átti KA alls fimm fulltrúa í U-18 ára landsliði karla. Þetta eru þeir Dagur Árni Heimisson, Hugi Elmarsson, Jens Bragi Bergþórsson, Magnús Dagur Jónatansson og Óskar Þórarinsson.

KA/Þór átti fimm fulltrúa í æfingahópum yngrilandsliða Íslands. Bergrós Ásta Guðmundsdóttir, Lydía Gunnþórsdóttir og Sif Hallgrímsdóttir voru í U18 ára landsliðinu og þá voru þær Bríet Kolbrún Hinriksdóttir og Hafrún Linda Guðmundsdóttir í U15 ára landsliðinu.


Bergrós, Sif og Lydía

Yngri flokkarnir stóðu heldur betur fyrir sínu á tímabilin. Þrjú lið tóku þátt í úrslitaleikjum Powerade bikarsins. 3. flokkur karla varð bikarmeistari, sama gerði 6. flokkur kvenna, eldra ár. En strákarnir á yngra ári 5. flokks fengu silfurverðlaun.

Þá urðu krakkarnir í 6. flokki Íslandsmeistarar bæði karla og kvennamegin.

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is