Fyrstu Íslandsmeistarar kvenna hjá KA

Árið 2002 var ansi gjöfult fyrir handknattleiksdeild KA en ekki nóg með að meistaraflokkur karla varð Íslandsmeistari öðru sinni þá unnust alls sex Íslandsmeistaratitlar í keppni yngri flokka. Þar á meðal var sigur unglingaflokks kvenna sem var fyrsti Íslandsmeistaratitill KA í kvennaflokki í handboltanum.

Stelpurnar gerðu reyndar gott betur og urðu einnig Bikarmeistarar fyrr um veturinn og unnu þar með báða titla vetrarins en Deildarkeppnin fór fram með þeim hætti að leikið var í tveimur riðlum og var því ekkert lið Deildarmeistari.


Íslands- og Bikarmeistaralið KA árið 2002

Aftari röð frá vinstri: Halldór Karlsson aðst.þjálfari, Inga Dís Sigurðardóttir, Martha Hermannsdóttir fyrirliði, Katrín Andrésdóttir, Anna Teresa Morales og Hlynur Jóhannsson þjálfari.
Fremri röð frá vinstri: Þórhildur Björnsdóttir, Katrín Vilhjálmsdóttir, Elísabeth Malmberg Arnarsdóttir, Ásdís Sigurðardóttir og Sandra Kristín Jóhannesdóttir.

Í bikarkeppninni mættu stelpurnar ÍBV í 8-liða úrslitum og höfðu þær undirtökin allan tímann. Voru yfir í hálfleik 10-7 og sigur liðsins aldrei í hættu. Ásdís Sigurðardóttir átti góðan leik fyrir KA ásamt markverðinum Elísabetu Malmberg sem varði vel.

Hinn raunverulegi úrslitaleikur fór svo fram í undanúrslitunum er KA tók á móti Stjörnunni. KA liðið leiddi 11-7 í hálfleik og vann að lokum sannfærandi 26-21 sigur þar sem Inga Dís gerði 10 mörk og þær Ásdís og Anna Teresa 5 mörk hvor.

Í úrslitaleiknum beið lið Gróttu/KR og virtist vera smá skjálfti í liðinu því fyrsta markið kom ekki fyrr en eftir sjö mínútna leik. Eftir það keyrðu stelpurnar yfir Gróttu/KR og leiddu 11-6 í hléinu. Aftur kom hinsvegar slæmur kafli og stelpurnar skoruðu ekki mark fyrstu 12 mínútur síðari hálfleiks. En í kjölfarið fann liðið taktinn á ný og vann að lokum 23-15 sigur og hömpuðu Bikarmeistaratitlinum góða.

"Við erum bara með miklu betra lið en þær og vonandi skilar þetta sér inn í meistaraflokkinn auk þess við stefnum einnig á Íslandsmeistaratitil í þessum flokki" sagði Hlynur Jóhannsson þjálfari liðsins að leik loknum. Ásdís Sigurðardóttir var markahæst með 9 mörk, Inga Dís Sigurðardóttir 7(2), Katrín Andrésdóttir 3, Martha Hermannsdóttir 2, Sandra Jóhannesdóttir 1 og Erla Tryggvadóttir 1.

Í undanúrslitum Íslandsmótsins mættu stelpurnar FH og unnu frekar öruggan 26-22 sigur eftir að hafa verið 14-9 yfir í hálfleik. Ásdís Sigurðardóttir var markahæst með 8 mörk, Inga Dís Sigurðardóttir 7(1), Martha Hermannsdóttir 5(2), Anna Morales 4 og Þórhildur Björnsdóttir 2.

Úrslitaleikurinn var hinsvegar háspenna lífshætta en þar mættu stelpurnar liði Stjörnunnar. Liðin höfðu barist í bikarnum sem og í sama riðlinum í deildarkeppninni og þekktust því vel. Stjarnan leiddi 9-11 í hálfleik og héldu því forskoti nær allan síðari hálfleikinn. En KA liðið gafst ekki upp og komst yfir er tvær mínútur lifðu leiks.

Það dugði þó ekki og Stjarnan náði að jafna fyrir leikslok 19-19, KA fékk þó dauðafæri í lokin til að tryggja sér sigur en tókst ekki og því þurfti að framlengja. Í framlengingunni var KA-liðið sterkara og vann fyrri hálfleik hennar 3-0, en lokatölur leiksins urðu 24-21 KA í vil. Martha Hermannsdóttir var markahæst með 7(4) mörk, Ásdís Sigurðardóttir 5, Inga Dís Sigurðardóttir 5(2), Anna Morales 4 og Katrín Andrésdóttir 3 auk þess sem Elísabet Arnardóttir átti stórleik í markinu.

Fjórar í sigurliðinu höfðu verið í liði KA sem hafði endað í öðru sæti á Íslandsmótinu tímabilin 1999, 2000 og 2001. Höfðu þær fengið viðurnefnið silfurstúlkurnar og líklega var fögnuðurinn þá einna mestur hjá þeim en þetta voru þær Ásdís Sigurðardóttir, Inga Dís Sigurðardóttir, Martha Hermannsdóttir og Þórhildur Björnsdóttir.


Silfurstúlkurnar sem fengu silfur á Íslandsmótinu þrjú ár í röð

Aftari röð frá vinstri: Hlynur Jóhannsson þjálfari, Ásdís Sigurðardóttir, Klara Fanney Stefánsdóttir, Helga Björg Ingvadóttir, Eyrún Gígja Káradóttir og Martha Hermannsdóttir.
Fremri röð frá vinstri: Inga Dís Sigurðardóttir, Nanna Ýr Arnardóttir, Þórhildur Björnsdóttir fyrirliði, Selma Sigurðardóttir Malmquist og Guðrún Linda Guðmundsdóttir.

Þess má reyndar einnig geta að kvennalið KA í handbolta var ósigrað í alls 8 ár en fimleikakonur úr KA léku gamnileik í handbolta gegn KR árið 1930 og töpuðu 4-2 enda aldrei spilað handbolta áður. En við heimkomuna hétu þær því að jafna metin og byrjuðu æfingar undir stjórn Hermanns Stefánssonar. Árið eftir vann þetta lið KA 10-3 sigur á KR og árið 1932 vann KA 13-2 sigur á KR liðinu.

Næstu ár fylgdu sigrar á Völsung 7-6, Þór 11-3 og KR 13-1. Árið 1939 vann liðið tvo 4-3 sigra á Norðfirðingum og Þór. Ekki var hafin keppni á Íslandsmóti en ekki nokkur spurning að liðið var það besta á landinu. Margrét Steingrímsdóttir og Sigurveig Guðmundsdóttir voru aðalstjörnur liðsins. Lið ÍBA varð svo Íslandsmeistari utanhúss árið 1941 en það var í fyrsta skiptið sem Íslandsmótið fór fram.

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is