Flýtilyklar
Keppnistímabilið 2001-2002
Þessi texti er enn í vinnslu!
Ein magnasta endurkoman í handboltasögu KA kom í fyrri undanúrslitaleik KA og Hauka en Haukar sem voru Íslands-, Bikar- og Deildarmeistarar leiddu 16-8 í hálfleik. Útlitið var því ansi svart en KA liðið gafst svo sannarlega ekki upp!
KA vann að lokum 32-34 sigur eftir framlengingu og þurfti því aðeins einn sigur í viðbót til að slá út ógnarsterkt lið Hauka og tryggja sér sæti í lokaúrslitunum. Leikurinn í KA-Heimilinu var einnig ógleymanlegur en eftir mikla dramatík fyrir framan troðfullt KA-Heimili vann KA liðið 27-26 sigur og hefndi þar fyrir tapið gegn Haukunum árið áður í lokaúrslitunum.
Úrslitaeinvígi KA og Vals um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta árið 2002 var ógleymanlegt. KA liðið tapaði fyrstu tveimur leikjunum og var því komið í ansi erfiða stöðu enda þurfti Valur aðeins einn sigur í viðbót til að tryggja sér titilinn og var auk þess með heimaleikjaréttinn í einvíginu.
En KA liðið lagði ekki árar í bát og minnkaði muninn í 2-1 með afar sannfærandi 20-25 sigri í þriðja leik liðanna að Hlíðarenda. Halldór Jóhann Sigfússon var markahæstur í KA liðinu með 11 mörk (5 úr vítum), Sævar Árnason 4, Andrius Stelmokas 3, Heiðmar Felixson 2, Einar Logi Friðjónsson 2, Jónatan Magnússon 1, Heimir Örn Árnason 1 og Jóhann Gunnar Jóhannsson 1 mark.
Hér má sjá útsendingu RÚV frá þriðja leik liðanna
Með sigrinum tryggði KA sér fjórða leikinn í einvíginu og fór hann fram í KA-Heimilinu. KA þurfti áfram á sigri að halda til að halda einvíginu á lífi og voru stuðningsmenn liðsins heldur betur klárir í slaginn. Rúmlega 1.300 manns troðfylltu KA-Heimilið á þessum síðasta heimaleik liðsins undir stjórn Atla Hilmarssonar sem hafði gefið það út að hann myndi hætta eftir tímabilið.
Leikurinn var vægast sagt stál í stál og voru taugar allra á staðnum þandar til hins ítrasta. Lítið var skorað en KA leiddi 8-7 í hléinu. Sama var upp á teningunum í þeim síðari og ljóst að enginn sem var á svæðinu mun gleyma þessum leik.
Hér má sjá útsendingu RÚV frá fjórða leiknum ógleymanlega
KA liðið var komið í mikil vandræði í sóknarleik sínum í síðari hálfleik en þá steig hinn 18 ára gamli Baldvin Þorsteinsson steig upp og gerði fjögur mörk, þar á meðal ógleymanlegt mark úr víti þegar hann lagði boltann yfir hausinn á Roland Eradze í markinu. Að lokum vann KA lífsnauðsynlegan 17-16 sigur og tryggði sér þar með hreinan úrslitaleik að Hlíðarenda um titilinn.
Þórir Tryggvason ljósmyndari var á svæðinu eins og svo oft áður og birtum við hér myndaveislu hans frá leiknum. Við kunnum Þóri bestu þakkir fyrir myndirnar en hann tók sig til og skannaði og vann þessar myndir sem voru teknar á filmu á sínum tíma!
Sigurgleðin var gríðarleg í leikslok. Smelltu á myndina til að skoða myndaveislu Þóris frá leiknum
Gríðarlegur fjöldi KA-manna lagði leið sína suður á oddaleikinn og voru líklega meirihlutinn af þeim 1.300 manns sem hafði verið troðið í gamla íþróttasalinn að Hlíðarenda. Sigurgleðin sem braust út í leikslok var ógurleg en þarna varð KA Íslandsmeistari í handbolta öðru sinni og kvaddi því þjálfara sinn annað skiptið í röð með Íslandsmeistaratitli.
Hér má sjá útsendingu RÚV frá úrslitaleik liðanna að Hlíðarenda
Halldór Jóhann Sigfússon var markahæstur í KA liðinu með 8 mörk, Jóhann Gunnar Jóhannsson 4, Sævar Árnason 4, Heimir Örn Árnason 3, Andrius Stelmokas 2, Heiðmar Felixson 2 og Einar Logi Friðjónsson 1 gerði mark.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggvasonar frá herlegheitunum
En það var heldur betur ekki bara fagnað að Hlíðarenda því KA hópurinn flaug með bikarinn til Akureyrar og heljarinnar sigurhátið tók við í KA-Heimilinu. Þórir Tryggvason ljósmyndari flaug bæði suður á leikinn sem og til baka á sigurhátíðina og myndaði veisluna í bak og fyrir. Við kunnum honum bestu þakkir fyrir vinnuna að vinna þessar skemmtilegu myndir úr gömlu filmunum sínum og alveg ljóst að hans framlag til félagsins í gegnum árin er ómetanlegt.
RÚV fylgdist vel með sigurhátíðinni á Akureyri og fjallaði vel um málið. Atli Hilmarsson þjálfari liðsins var svo tekinn tali sem og Helga S. Guðmundsdóttir formaður KA.