Flýtilyklar
KA - Granitas Kaunas 28-19, 12. okt 1997
Það var töluverð eftirvænting fyrir heimaleik KA gegn Granitas Kauns enda átti liðið ágætan möguleika á að tryggja sér fyrst íslenskra liða sæti í Meistaradeild Evrópu. Flott mæting var í KA-Heimilið og þeir sem mættu voru rétt eins og leikmenn liðsins tilbúnir í slaginn.
Halldór Jóhann í eldlínunni gegn Litháensku meisturunum
Leikurinn var jafn framan af en KA hafði þó frumkvæðið. Undir lok fyrri hálfleiks kom svo góður kafli þar sem vörnin ásamt Sigtryggi í markinu tók til sinna ráða og hreinlega lokaði á gestina. Staðan breyttist á þessum tíma úr 10-8 í 13-8 en gestirnir náðu að klóra í bakkann á síðustu mínútu hálfleiksins og bæta stöðu sína með marki og því var staðan 13-9 þegar flautað var til hálfleiks.
Lið Kaunas var atkvæðameira í upphafi síðari hálfleiks og fór um margan KA-manninn þegar staðan var orðin 15-14 fyrir KA eftir nokkurra mínútna leik. Litlu síðar fékk svo sterkasti maður Kaunas, Robertas Pauzuolis, sína þriðju brottvísun og þar með rautt spjald. Þetta hafði talsverð áhrif á leik gestanna, KA gekk á lagið og tók leikinn í sínar hendur og þegar 10 mínútur voru til leiksloka komust þeir í fimm marka forskot 21-16. Það var einmitt það sem þurfti til að tryggja liðinu veru í Meistaradeildinni.
Karim Yala gerði 5 mörk í heimaleiknum
KA liðið lét hinsvegar ekki staðar numið við þetta heldur jók forskot sitt jafnt og þétt og þegar upp var staðið var munurinn orðinn 9 mörk, 28-19 og sanngjarn sigur KA staðreynd. KA liðið lék vel í leiknum og var vörnin mjög sterk megnið af leiknum auk þess sem markvarsla Sigtryggs var frábær en hann varði 23 skot.
Sóknarleikurinn batnaði til muna í síðari hálfleiknum með þá Karim Yala og Halldór Jóhann í broddi fylkingar. Þá var einnig gaman að sjá einn af ungu strákum liðsins, Heimi Örn, koma inná undir lokin og skora þrjú falleg mörk. Halldór Jóhann Sigfússon var markahæstur með 7 mörk, Jóhann Gunnar Jóhannsson 6, Karim Yala 5, Leó Örn Þorleifsson 3, Björgvin Þór Björgvinsson 3, Heimir Örn Árnason 3 og Sverre Andreas Jakobsson 1 mark.
Stemningin var mikil að leik loknum enda tímamótasigur staðreynd
Draumurinn um sæti í Meistaradeild Evrópu var þar með að veruleika en ljóst var að afar kostnaðarsamt verkefni væri þó framundan og það varð svo sannarlega raunin þegar dregið hafði verið í riðla. Andstæðingar KA voru nefnilega Króatíska liðið Badel 1862 Zagreb, Slóvenska liðið Celje Pivovarna Lasko og Ítalska liðið Generali Trieste. Það biðu því löng ferðalög sem og erfiðir andstæðingar en lið Badel hafði leikið í úrslitum keppninnar á síðustu leiktíð og Celje er eitt af stórveldum handboltans.
Heimasíða KA hafði þetta að segja um dráttinn á sínum tíma: "Þetta gat ekki farið öllu verr fyrir KA, dýr ferðalög og fyrirsjáanlegt stórtap á dæminu í heild. Við þessu er þó ekkert að gera , ekki er hægt að velja sér mótherjann sjálfur.
Forsvarsmanna KA bíður mikil vinna og höfuðverkur við fjárhagshliðina, leikmanna bíða erfiðir leikir sem þeir munu örugglega læra mikið af og það eina sem við óbreyttir áfhorfendur á Akureyri getum gert og verðum að gera er að troðfylla KA-Heimilið í öllum leikjunum þrem og létta þannig róðurinn fyrir KA eins og hægt er. En mikið andsk... var þetta svekkjandi niðurstaða, eins og fyrir laxveiðimann að koma heim með þrjá marhnúta eftir að hafa eytt miklu púðri og fyrirhöfn í veiðileyfi og búnað."