Flýtilyklar
Keppnistímabilið 2017-2018
KA lék aftur undir eigin merki í karlahandboltanum á tímabilinu eftir að hafa leikið undir merkjum Akureyrar Handboltafélags frá árinu 2006. Þjálfari meistaraflokks karla var Stefán Árnason og lék liðið í Grill 66 deild karla. Liðið endaði í 2. sæti deildarinnar og vann sér sæti í Olís deildinni á næsta tímabili eftir 3-0 sigur gegn HK í umspili.
Líkt og undanfarin ár léku konurnar undir merki KA/Þór og gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Grill 66 deildina með töluverðum yfirburðum, töpuðu einungis einu stigi í deildinni. Þar með vann liðið sig upp í Olís deild kvenna á næsta tímabili. Þjálfarar meistaraflokks KA/Þór voru Jónatan Magnússon og Þorvaldur Þorvaldsson.
Hér til hliðar er hægt að skoða leikmannahópa liðanna svo og yfirlit yfir úrslit allra leikja liðanna á tímabilinu.
Á sameiginlegu lokahófi meistaraflokkanna, föstudaginn 11. maí var tilkynnt um val á leikmönnum tímabilsins. Karlamegin var Áki Egilsnes valinn besti leikmaður tímabilsins en mikill stígandi í leik hans í vetur. Áki var jafnframt markahæsti leikmaður liðsins með 115 mörk á tímabilinu.
Dagur Gautason var valinn sá efnilegasti en hann var algjör lykilmaður í KA liðinu í vetur þrátt fyrir að vera nýlega orðinn 18 ára. Dagur var jafnframt annar markahæsti maður liðsins með 88 mörk.
Hjá KA/Þór var Martha Hermannsdóttir valin besti leikmaðurinn en hún eins og svo oft áður fór fyrir liðinu sem vann öruggan sigur í Grill 66 deildinni og fór í undanúrslit Bikarkeppninnar. Þá var Matha markahæsti leikmaður liðsins með 105 mörk.
Ásdís Guðmundsdóttir var valin efnilegasti leikmaður liðsins en hún var frábær á línunni í vetur og skoraði samtals 69 mörk. Þá leikur Ásdís með U-20 árs landsliði Íslands.
Dagur Gautason, Martha Hermannsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir með viðurkenningar sínar.
Dagur er einnig með bikar Áka Egilsnes sem var kominn til Færeyja og því ekki viðstaddur.
Á lokahófi HSÍ sem fram fór 24. maí fengu leikmenn og þjálfarar sem þóttu skara fram úr á tímabilinu viðurkenningar. Þar á meðal voru eftirtaldir frá KA og KA/Þór:
- Besti varnarmaður Grill 66 deildar kvenna 2018: Martha Hermannsdóttir – KA/Þór
- Besti varnarmaður Grill 66 deildar karla 2018: Heimir Örn Árnason – KA
- Besti þjálfari í Grill 66 deild kvenna 2018: Jónatan Þór Magnússon – KA/Þór
- Efnilegast leikmaður Grill 66 deildar karla 2018: Dagur Gautason - KA
- Leikmaður ársins í Grill 66 deild kvenna 2018: Martha Hermannsdóttir – KA/Þór
Leikmenn í landsliðsverkefnum
Í mars voru tilkynntir æfingahópar yngri landsliða karla. Fulltrúar KA eru þeir Sigþór Gunnar Jónsson í U-20 ára liðinu og Dagur Gautason í U-18 ára liðið. Arnór Ísak Haddsson lék með U-16 ára landsliði Íslands á alþjóðlegu móti í Grikklandi í apríl.
Í mars komu öll kvennalandslið Íslands saman til æfinga og keppni í alþjóðlegri landsliðsviku. KA/Þór átti þar alls sjö fulltrúa: Aldís Ásta Heimisdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir léku með U-20 ára landsliði Íslands. Þar til viðbótar var Hulda Bryndís Tryggvadóttir valin í afrekshóp leikmanna sem leika á Íslandi, Margrét Einarsdóttir og Ólöf Marín Hlynsdóttir í U-18 ára landslið kvenna. Rakel Sara Elvarsdóttir og Helga María Viðarsdóttir í U-16 ára landslið kvenna.