Brautryðjendur

Í afmælisblaði KA 1953 skrifaði Halldór Helgason um handknattleiksiðkun félaga sinna. Þar segir hann meðal annars:

„Á íþróttamóti 17. júní 1928 fór fram hér á Akureyri fyrsti opinberi kappleikur í handknattleik karla á Íslandi. Áttust þar við UMFA og KA, sem þá var aðeins 5 mánaða gamalt.“

Um þetta leiti voru Íslendingar rétt byrjaðir að fá nasaþefinn af því að til væri íþrótt sem héti handknattleikur. Þó voru liðin sjö ár frá því Valdimar Sveinbjörnsson, íþróttakennari í Reykjavík, hóf að kynna handbolta fyrir löndum sínum. Lengi vel féll boðskapur Valdimars í grýtta jörð. Íþróttafélögin í Reykjavík óttuðust að þessi nýja boltaíþrótt myndi draga úr áhuga manna á leikfimi sem þá var efst á baugi. Um 1930 tóku fordómarnir heldur að dvína og þegar KA stúlkurnar héldu suður á Alþingishátíðina 1930 að sýna leikfimi, léku þær í leiðinni handboltaleik við KR, sem sá norðanstúlkunum fyrir bæði fæði og húsnæði. Þetta var að frumkvæði KR-inga sem vildu með þessu móti reyna að afla fjár til að standa straum af kostnaði við móttökuna.

Þannig hófust fyrstu kynni stúlknanna frá Akureyri af handknattleik. Engin þeirra hafði séð þennan leik áður, hvað þá tekið þátt í honum. Á skammri stundu var þeim gert að læra leikreglurnar, svo tók alvaran við. Í hvoru liði voru 11 stúlkur. KR-ingar notuðu leikaðferð ekki óáþekka þeirri er þekktist í knattspyrnu, hver stúlka gætti sinnar stöðu og mótherja. KA liðið var hinsvegar á þönum, allar í vörn og allar í sókn. En völlurinn var stór, mun stærri en þekkist í dag, og þessi nútímalega leikaðferð KA stúlknanna gaf ekki góða raun. Þær töpuðu 4-2. En tónninn var gefinn og næstu árin voru norðanstúlkurnar nær ósigrandi í handknattleik. Alltaf var þó skortur á mótherjum og engin landsmót í handbolta voru á döfinni.

Stjórn KA sá að við svo búið mátti ekki standa og í febrúar 1934 skoraði hún á ÍSÍ að reka hið fyrsta smiðshögg á „knattvarpsreglur“ þær sem sambandið hafði þá haft til meðferðar í einhvern tíma. Ennfremur fannst KA stjórninni tilvalið að haldið yrði „... knattvarpsmót kvenna fyrir allt Ísland hjer á Akureyri næsta sumar“.

Þetta var nýstárleg hugmynd, á þessum tíma voru þeir fáir sem litu á handknattleikinn sem alvöru íþrótt. Af sunnanliðunum voru það lengi vel aðeins Haukar í Hafnarfirði, Valur í Reykjavík og KR-ingar sem sýndu íþróttinni áhuga. Kannski var það af þessari ástæðu að tillaga KA um Íslandsmót, komst ekki til framkvæmda fyrr en árið 1940.

Fyrsta landsmótið í handknattleik fór fram innanhúss, í íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu í Reykjavík. Akureyringar voru ekki meðal þátttakenda og það var raunar ekki fyrr en aldarfjórðungi síðar að Akureyrskir handknattleiksmenn tóku fyrst þátt í Íslandsmóti innanhúss. Á Akureyri skorti húsnæði og afleiðingarnar urðu þær að handknattleikur var þar aðallega stundaður á sumrin sem útiíþrótt. Bygging íþróttahússins við Laugargötu breytti þessu lítið. Handboltinn hélt áfram að vera vinsæl útiíþrótt yfir sumartímann. Æft var á grasfletinum þar sem íþróttahöllin stendur núna, norðan Hrafnagilsstrætis. Annað æfingasvæði var norðarlega á íþróttaleikvangi Akureyrar, sem þá var reyndar ekki til. Bretar reistu þar bragga í seinna stríði og í skjóli af þeim köstuðu KA menn handboltanum á milli sín.

Árið 1942 tók Þór að sér að halda annað Íslandsmótið í handknattleik kvenna utanhúss, það fyrsta hafði farið fram árið áður í Reykjavík og þá hafði Þór borið sigur úr býtum.

KA sem hafði árið áður ekki sent lið til keppninnar, ætlaði ekki að láta sitt eftir liggja að þessu sinni. Markmiðið var auðvitað að hrifsa Íslandsmeistaratitilinn af Þórsurum. Lið KA á þessu fyrsta Íslandsmeistaramóti í handknattleik sem félagið tók þátt í var skipað þeim Lóu Bjarnadóttur, sem stóð í markinu, Guðnýju Pálsdóttur, Hólmfríði Jónsdóttur, Kristínu Jensdóttur, Önnur Friðriksdóttir, Brynhildi Steingrímsdóttur og Hörpu Ásgrímsdóttur.

Keppinautarnir voru ekki af lakari endanum. Það voru Þórsstúlkurnar, þáverandi Íslandsmeistarar utanhúss. Frá Reykjavík komu meistararnir innanhúss, Ármenningar. Þá mættu Norðurlandsmeistararnir 1941, Völsungar frá Húsavík, til leiks og einnig Þróttur frá Neskaupstað.

Úrslitin urðu þau að KA stúlkurnar höfnuðu í þriðja sæti, einu stigi á eftir Þór, sem tapaði óvænt fyrir Þrótturum og missti þar með titilinn til Ármenninga.

Strax sumarið eftir voru KA stúlkurnar aftur mættar til keppni um Íslandsmeistaratitilinn. Þeim gafst þó ekki tími til að ljúka keppninni því mótið dróst á langinn vegna veðurs en þær urðu að mæta til vinnu hvað sem tautaði og raulaði. Stúlkunum tókst að ljúka þremur leikjum af sex, þær unnu tvo en töpuðu einum.

Fáeinum dögum síðar voru stúlkurnar komnar að Laugum að taka þátt í Handknattleiksmóti Norðlendinga. Þar sigruðu þær Þór 6-1 og gerðu jafnt við Völsung 1-1. Norðurlandsmeistaratitillinn var þeirra í fyrsta skiptið en ekki í það síðasta.

KA-stúlkur, Norðurlandsmeistarar í handknattleik 1943
KA-stúlkur, Norðurlandsmeistarar í handknattleik 1943. Aftari röð frá vinstri: Kristín Jensdóttir, Anna Friðriksdóttir, Brynhildur Steingrímsdóttir, Harpa Ásgrímsdóttir, Sigurveig Guðmundsdóttir. Sitjandi: Guðný Pálsdóttir, Hermann Stefánsson, þjálfari, Lóa Bjarnadóttir, Hólmfríður Jónsdóttir. Ljósmynd E. Sigurgeirsson.

2. flokkur KA í handbolta 1944
2. flokkur KA í handbolta 1944. Aftast frá vinstri: Steinunn Ingimundardóttir, Guðný Pálsdóttir. Í miðju: Harpa Ásgrímsdóttir, Anna Bjarman, Þórgunnur Ingimundardóttir. Fremst: Kristbjörg Jakobsdóttir, Helga Júníusdóttir. Ljósmynd E. Sigurgeirsson.

Þrátt fyrir að KA karlar léku handbolta strax á árinu 1928 þá lögðu þeir enga rækt við íþróttina fyrr en eftir 1945. Þetta var þó með einni undantekningu. Kvennalið KA, sem var upprunnið úr fimleikaflokki félagsins, hélt tryggð við fimleikana. Því var það lengi vel að ástundun þessara tveggja íþróttagreina fór saman. Að vetrinum til æfðu stúlkurnar fimleika í íþróttahúsi Menntaskólans og strax á eftir þeim átti karlaflokkur KA tíma. Hermann Stefánsson, sem leiðbeindi báðum fimleikahópunum, var sífellt á höttunum eftir mótherjum fyrir handboltastúlkurnar og oft fékk hann piltana til að keppa við þær. Þannig má segja að vegna stúlknanna hafi handboltinn smátt og smátt náð sterkari tökum á KA körlum.

Árið 1945 átti íþróttafélagið Þór 30 ára afmæli. Af því tilefni gerðu menn sér glaðan dag. Efnt var til mikillar íþróttahátíðar sem stóð yfir í fimm daga. Meðal keppnisgreina var handknattleikur kvenna, sem þurfti svo sem ekki að koma neinum á óvart. Hitt þóttu öllu meiri tíðindi að karlarnir kepptu líka í þessari nýstárlegu íþrótt. Viðureign þeirra lauk með sigri KA, sjö mörkum gegn einu. Tæpum mánuði síðar tóku a og b lið KA þátt í fyrsta Meistaramóti Akureyrar í handknattleik karla. Þór vann.

KA-stúlkur, Norðurlandsmeistarar í handknattleik 1943
Norðurlandsmeistarar KA 1945. Frá vinstri: Harpa Ásgrímsdóttir, Ágústína Guðlaugsdóttir, Hervör Ásgrímsdóttir, Lóa Bjarnadóttir, Ragnhildur Steingrímsdóttir, Brynhildur Steingrímsdóttir, Guðný Pálsdóttir. Ljósmynd E. Sigurgeirsson.

Norðurlandsmeistarar KA í handknattleik 1945
Norðurlandsmeistarar KA í handknattleik 1945. Fyrstu norðurlandsmeistararnir í karlaflokki. Frá vinstri: Páll Línberg, Þorsteinn Villiamsson, Snorri Kristjánsson, Ragnar Steinbergsson, Karl Karlsson, Sveinn Kristjánsson, Sigurður Steindórsson. Ljósmynd E. Sigurgeirsson.

Næstu árin átti handboltinn á brattann að sækja í KA. Æfingar voru óreglulegar og fáir sýndu áhuga. Snemma árs 1947 byrjaði að rætast úr þessu ófremdarástandi. Haraldur M. Sigurðsson tilkynnti þá um veturinn félagaskipti úr Þór yfir í KA. Hann tók fljótlega að sér þjálfun KA handknattleiksmanna, karla og kvenna. Um sumarið náðu piltarnir að vinna ÍR og það varð ekki til að draga úr áhuganum. En þrátt fyrir velgengni á Norðurlandsmótum og Akureyrarmótum kom það glögglega í ljós bæði 1949 og 1950, en þá var KA í fyrsta sinn meðal þátttakenda í Íslandsmóti karla í handknattleik utanhúss, að liðið stóð sunnanmönnum ekki á sporði í harðri keppni. En á þessum árum byrjaði handboltinn að taka miklum stakkaskiptum. Leikaðferðin hafði lengi vel verið svipuð og í knattspyrnu, menn voru ýmist bakverðir, miðjuspilarar eða í framlínunni. Það þekktist vart að allir þyrptust í vörn og því var markvörðurinn ekki alltaf mjög öfundsverður af hlutskipti sínu.

Meistaraflokkur KA 1947. Vann ÍR og Verslunarskólann
Meistaraflokkur KA 1947. Vann ÍR og Verslunarskólann. Aftari röð frá vinstri: Adam Ingólfsson, einar Einarsson, Ragnar Steinbergsson, Ófeigur Eiríksson, Sigurður Steindórsson. Fremri röð: Haraldur M. Sigurðsson, Jóhann Ingimarsson, Magnús Björnsson, Þorvarður Áki Eiríksson. Ljósmynd E. Sigurgeirsson.

KA menn byrjuðu ekki fyrr en 1947, við komu ÍR-inganna, að færa leikaðferðir sínar í svolítið nútímalegra horf. Þrátt fyrir að þeir bæru sigurorð af sunnanmönnum gátu þeir mikið af þeim lært. Hreyfanleiki ÍR-inganna var mun meiri en áður hafði sést og þeir beittu leikfléttum sem var ókunnugt fyrirbæri í íslenskum handknattleik.

Norðurlandsmeistarar KA 1949
Norðurlandsmeistarar KA 1949. Aftari röð frá vinstri: Halldór Helgason, Árnína Guðlaugsdóttir, Unnur Berg Árnadóttir, María Guðmundsdóttir, Sigurður Steindórsson. Fremri röð: Ása Ásgrímsdóttir, Eygló, Anna Sveinbjörnsdóttir, Guðrún Friðgeirsdóttir, Guðrún. Fremst: Ragnheiður Oddsdóttir. Ljósmynd E. Sigurgeirsson.

En það stóð KA mönnum fyrir þrifum hversu erfiðlega gekk að fá menn til að leggja handboltann fyrir sig. Ástæðurnar fyrir þessu voru fleiri en ein. Mótherjar voru ekki á hverju strái og því gáfust fá tækifæri til að spreyta sig í keppni. Í annan stað höfðu KA stúlkurnar getið sér gott orð fyrir færni sína í handbolta og sumum þótti sem handknattleikur væri kannski fremur kvennaíþrótt en karla. Í þriðja lagi þótti mörgum það varla sæmandi fullorðnum karlmanni að leika sér í íþróttum. „Þeir létu eins og fífl þegar þeim stæði það nær að vinna fyrir sér og verða að gagni“, eins og einn broddborgari Akureyrar orðaði það eitt sinn við Harald M. Sigurðsson.

Þetta karlalið KA í handknattleik hefur leikið á árunum 1947 til 1951
Þetta karlalið KA í handknattleik hefur leikið á árunum 1947 til 1951. Þarna hefur Þorvarður Áki leikið í markinu. Aftari röð frá vinstri. Ragnar Steinbergsson, Halldór Helgason, Einar Einarsson, Matthías Einarsson, Eggert Steinsen, Sigurður Steindórsson. Sitjandi: Bjarni Kristinsson, Jóhann Ingimarsson, Þorvarður Áki Eiríksson, Reynir Vilhelmsson, Magnús Björnsson. Ljósmynd E. Sigurgeirsson.

Þeir voru þó til sem létu sig ekki muna um það „að láta eins og fífl“. Og þessi „fíflagangur“ dró að sér áhorfendur þó að ekki væru þeir allir jafn vel að sér um eðli leiksins. Þannig var það eitt sinn að handboltamenn í KA lentu í kröppum dansi, það lá á liðinu og markvörðurinn Ragnar Steinbergsson varð fyrir því óláni að missa boltann í gegnum klof sér inn fyrir marklínuna. Þá var það sem eldri maður í áhorfendahópnum heyrðist tauta fyrir munni sér: „Ætli væri ekki betra að hann væri í pilsi?“

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni
„Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni“, á vel við varðandi þessa mynd. Hér eru markverðir íslenska landsliðsins í handknattleik 1988. Til vinstri er Brynjar Kvaran sonur Axels Kvaran og Einar Þorvarðarson sonur Þorvarðar Áka Eiríkssonar en þeir Axel og Þorvarður Áki léku með KA á árum áður eins sést á myndinni hér að neðan. Brynjar Kvaran var síðan spilandi þjálfari KA liðsins 1986-1988.  Ljósmynd Dagur.

Meistaraflokkur KA 1951
Meistaraflokkur KA 1951 en KA varð Norðurlandsmeistari í handknattleik karla árin 1945, 1948, 1949, 1950 og 1951. Aftast frá vinstri Adam Ingólfsson, Axel Kvaran, Einar Einarsson, Þorvarður Áki Eiríksson. Í miðju Magnús Björnsson, Jóhann Ingimarsson. Fremst Ragnar Sigtryggsson, Reynir Vilhelmsson, Haraldur M. Sigurðsson. Ljósmynd E. Sigurgeirsson.

Handknattleiksstúlkur úr KA á æfingu hjá Gísla Bjarnasyni
Handknattleiksstúlkur úr KA á æfingu hjá Gísla Bjarnasyni. Aftasta röð frá vinstri: Kristín Jónsdóttir, Guðný Bergsdóttir, Ásta Pálsdóttir, Auður Friðgeirsdóttir, Þórunn Nílsen, Jónína Pálsdóttir, Unnur Kristinsdóttir, Helga Haraldsdóttir, Súsanna Möller, Bergþór Gústavsdóttir, Anna María Sigurgeirsdóttir. Miðröð: Halldóra Rafnar, Þórunn Bergsdóttir, Margrét Sigtryggsdóttir, Ragna Guðmundsdóttir. Sitjandi fremst: Katrín Sigurgeirsdóttir, Hlaðgerður Laxdal, Ásdís Þorvaldsdóttir, Gísli Bjarnason, Sigurbjörg Pálsdóttir, Rósa Pálsdóttir, Alma Möller.

2. flokkur KA 1957
2. flokkur KA 1957. Aftari röð frá vinstri: Valgerður Valgarðsdóttir, Þórunn Nílsen, Rannveig Alfreðsdóttir, Sigurbjörg Pálsdóttir, Guðný Bergsdóttir. Fremri röð: Helga Haraldsdóttir, Súsanna Möller, Anna María Sigurgeirsdóttir, Bergþóra Gústavsdóttir. Ljósmynd M.Ó.G.

Handknattleikslið ÍBA, sem lék utanhúss gegn Ármanni 1958
Handknattleikslið ÍBA, sem lék utanhúss gegn Ármanni 1958. Aftari röð frá vinstri: Kristján Kristjánsson, Sigurður (MA), Einar Helgason, Jón Steinbergsson, Páll Magnússon (Þór). Fremri röð: Halldór (MA), Aðalsteinn Jónsson, Gísli Bjarnason, Hermann Sigtryggsson. Ljósmynd M.Ó.G.

Handknattleiksmenn komast á skrið

Um jólaleytið 1964 bauðst Handknattleiksráði Akureyrar til leigu skemma sem Rafveita Akureyrar var að byggja. Ráðið tók boðinu fegins hendi, því þó að Rafveituskemman væri ekki ýkja góður kostur þá var hún alltjent mun stærri að gólffleti en íþróttahúsið við Laugargötu- en þá var það líka upptalið. Leikið var á steingólfi, húsið óupphitað og engin baðaðstaða.

Meistaraflokkur KA
Meistaraflokkur KA. Aftari röð frá vinstri: Elsa Björnsdóttir, Ásdís Þorvaldsdóttir, Sigríður Guðmundsdóttir, Gunnhildur Baldvinsdóttir. Fremri röð: Ásrún Baldvinsdóttir, Helga Haraldsdóttir, Súsanna Möller, Alma Möller.

Þrátt fyrir þessa annmarka hljóp mönnum nú kapp í kinn og ákveðið var að senda kapplið til keppni á Íslandsmóti karla. Í janúar 1965 hélt lið ÍBA suður um heiðar og spilaði þrjá leiki í Reykjavík, þá fyrstu sem handboltamenn frá Akureyri léku í Íslandsmóti innanhúss. Í tilefni af þessum tímamótum buðu Ármenningar, sem höfðu alla tíð verið mjög duglegir að heimsækja Akureyringa og spila við þá handbolta, ÍBA liðinu í kaffisamsæti. Voru síðan allir norðanmennirnir leystir út með Ármannsveifu. Rétt er að geta þess að Ármenningar voru sjálfir í 1. deild og því ekki meðal mótherja Akureyringa þennan vetur.

Meistaraflokkur KA í handknattleik 1965
Meistaraflokkur KA í handknattleik 1965. Aftari röð frá vinstri: Jón Steinbergsson, Hafsteinn Geirsson, Stefán Tryggvason, Halldór Rafnsson, Björn Einarsson, Ævar Karlesson. Fremri röð: Þorleifur Ananíasson, Örn Ingi Gíslason, Ólafur Ólafsson, Bjarni Bjarnason. Myndin tekin í Rafveituskemmunni.

Meistaraflokkur KA um 1965
Meistaraflokkur KA um 1965. Myndin tekin í Rafveituskemmunni. Aftari röð frá vinstri: Árni Sverrisson, Stefán Tryggvason, Baldvin Þóroddsson, Hafsteinn Geirsson, Hörður Tuliníus. Krjúpandi: Gísli Baldvinsson, Örn Ingi Gíslason, Jón Steinbergsson, Ólafur Ólafsson.

Framhald >> 1967-1980

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is