Flýtilyklar
Árin 1988 - 1992
Keppnistímabilið 1988 - 1989
Eftir tveggja ára þjálfarastarf lét Brynjar Kvaran af störfum, hélt suður á ný en við tók, eftir talsvert japl, jaml og fuður, Júgóslavi að nafni Ivan Duranec. Fyrrum þjálfari KA, landi Duranec, Ljubo Lazic, var á óskalista KA-manna en átti ekki heimangengt. Annar var fenginn en reyndist ekki vera sá gæða þjálfari sem menn höfðu haldið og var gert að yfirgefa bæinn, hvað hann og gerði, svo hingað mætti nefndur Duranec. Formaður deildarinnar er Aðalsteinn Jónsson rétt eins og á sl. ári.
Deildarkeppnin fór vel af stað með sigri á Víkingi 30:20, þar sem Sigurpáll Árni fór á kostum og gerði 9 mörk. Fylgdi liðið sigrinum eftir með öðrum ekki síðri þegar liðið vann stolt Hafnarfjarðar, FH, í æsispennandi leik með 25:24 þar sem Erlingur fór mikinn og skoraði 8 mörk. Eftir fína byrjun kom 1 marks tap gegn KR, 18:19 með Alfreð Gíslason í aðalhlutverki í liði andstæðinga, leikur þar sem jafntefli hefði verið réttlát, niðurstaða. Í fjórða leik var lið okkar hins vegar niðurlægt er liðið gjörtapaði fyrir Val í Reykjavík með 16:31. Hversu ótrúlegt sem það nú er, þóttu markverðir liðsins sýna bestan leik, þeir Axel Stefánsson og Sigfús Karlsson.
Jakob Jónsson mundar skothöndina í Íþróttahöllinni
Annars skiptust á skin og skúrir þennan vetur, liðið var að vinna einstaka leiki, alls 6, en beið ósigur í 10 leikjum og hafnaði í 7. sæti með 14 stig. Ekki þótti hinn júgóslavneski þjálfari sýna meiri færni en svo að hann var látinn fara og á útmánuðum ársins 1989 var Erlingur Kristjánsson ráðinn þjálfari til tveggja ára og Þorleifur Ananíasson honum til aðstoðar. Akureyrartitillinn vannst í 2 leikjum, hinum fyrri lauk 31:23 og mun vera orðið langt síðan sá titill fór út fyrir Glerá.
Karl Karlsson var valinn í drengjalandslið en Friðjón Jónsson, sá gamalreyndi leikmaður ákvað að hætta keppni eftir þrálát meiðsli. Jakob Jónsson heldur í víking til Stavanger í Noregi.
Formannaskipti voru á vordögum er Aðalsteinn hættir og við tekur Einar Jóhannsson.
Spennan í hámarki í KA húsinu. Meðal áhorfenda eru Einar Jóhannsson fyrrum varaformaður KA, Hrefna Torfadóttir formaður KA og maður hennar Magnús Gauti Gautason hinn gamalkunni markvörður KA í handbolta.
Keppnistímabilið 1989 - 1990
Haldið var til frænda vorra og vina í Færeyjum í öndverðum septembermánuði í keppnisför og unnust allir leikir, enda mun fyrirstaðan öllu minni en í hinni íslensku 1. deild. Glöggt er gests augað og seint verða þeir eyjaskeggjar sagðir leiðinlegir heim að sækja, ferðin þótti hin ágætasta fyrir átök komandi vetrar. Eitthvað sat þó ferðin í okkar mönnum, því fyrstu 4 leikir vetrarins töpuðust. Stórt tap í fyrsta leik gegn Stjörnunni 14:23, naumt gegn Víkingi 22:23,Val 23:27 og loks stórt fyrir FH 19:28. Upp stytta él um síðir og svo var einnig hér, sigur í 5. leik og var það hlutskipti HK að tapa með 26:23 og fylgdi í kjölfarið góður sigur á ÍBV, 34:21. Fram til þessa hafði Erlingur, sem fagnaði Íslandsmeistaratitli í knattspyrnu um sumarið, dregið vagninn og verið lærlingunum sönn fyrirmynd en í 7. leik var það þó unglingurinn Karl Karlsson sem setti mark sitt á jafnteflisleik gegn KR (27:27) og gerði 10 mörk!
Í Akureyrarmótinu mátti lið okkar þakka fyrir jafntefli 20:20 í fyrri leik liðanna en nokkuð öruggur 25:21, sigur vannst í síðari leiknum og titillinn þar með í höfn. Þór hafði betur í fjölda vinninga á Akureyramótinu en átti þó ekki í lið í 2. flokki og féll þá Akureyrarmótið niður þennan veturinn. Er það bagalegt því ekki mun veita af leikjum fyrir ungviðið okkar.
Í Íslandsmótinu lá leiðin upp á við í síðari umferðinni, t.a.m. unnust 4 leikir í röð, gegn HK 25:22, ÍBV 24:21, KR 22:19 og loks gegn ÍR 18:17. Síðasti leikur mótsins tapaðist fyrir sterku liði Víkings 16:23 en liðið náði sínum besta árangri frá upphafi í 1. deild, 5. sæti.
Voru menn almennt sáttir og sem fyrr greinir var Erlingur áfram sem þjálfari meistaraflokks en ógetið er endurkomu Friðjóns Jónssonar er jafnað hafði sig á meiðslunum eftir læknismeðferð og lék skínandi vel á sínum bestu stundum. FH varð Íslandsmeistari.
Þorleifur Ananíasson tók þá ákvörðun að hætta handboltaiðkun eftir áratuga baráttu með liði sínu, KA, urðu leikirnir vel á 6. hundraðið og mörkin skipta þúsundum. Þessi eldsnöggi, ósérhlífni leikmaður þótti á sínum bestu stundum einn af betri handknattleiksmönnum Íslands, en þó ekki sé langt um liðið þá var leiðin Akureyri-Reykjavík lengri en nú, þykir mönnum þó nóg um, og tal um landsleiki tæplega á dagskrá. Með Þorleifi hverfur af keppnisvellinum einn af okkar litríkari íþróttamönnum, en sem félagsmaður KA munum við ugglaust njóta Þorleifs um ókomna tíð enda KA honum einkar kært.
Keppnistímabilið 1990 - 1991
Erlingur Kristjánsson var áfram í brúnni og breytingar á leikmannahópi eins og venjulega, menn koma og fara en það er auðvitað vandamál handboltans sem vetraríþróttar hvað margt ungmennið hverfur til náms á suð-vesturhornið margfræga. Rétt eins og árið áður var farið í keppnisför snemma hausts, til Ítalíu. Þótti ferðin takast með ágætum en töldu menn sig hafa einhvern pata af hinni ítölsku mafíu og úrslit leikja fyrirfram ákveðin!?
Betur fóru menn af stað í vetur en á sl. vetri þegar fyrstu 4 leikirnir töpuðust, sigur vannst á Selfyssingum með 15 mörkum, 27:12, þar sem Hans Guðmundsson og Erlingur fóru á kostum og skoruðu 9 og 8 mörk. Breytt fyrirkomulag deildar hafði verið ákveðið á vordögum og liðum fjölgað úr 8 í 10 og skulu 6 efstu lið leika um Íslandsmeistaratitilinn í úrslitakeppni. Hinum góða sigri á Selfossi var fylgt eftir með 24:17 sigri á Fram þar sem Hans skoraði 11 mörk.
Erlingur Kristjánsson með skot að marki í Íþróttahöllinni
Eftir hið jákvæða upphaf kom þungur þriggja leikja kafli, tap í Eyjum 23:27, gegn Val 22:23 og loks skellur gegn Íslandsmeisturum FH 21:29 en menn unnu sig út úr vandanum með glæsilegum leik gegn Stjörnunni, 29:20. Í bikarkeppninni vannst sigur á sama liði, nú 23:22 í æsispennandi leik. Í kjölfarið fylgdi eitt af þessum þungu tímabilum, unnust fáir sigrar og liðið seig niður töfluna, niður í 8. sæti en áfram hélt Hans þó að skora og var efstur manna á þeim lista.
Úr yngri flokkunum voru 4 piltar úr 3. flokki valdir til æfinga með drengjalandsliðinu, Ívar Bjarklind, Arnar Sveinsson, Karl Ólafsson og Helgi Axelsson, auk þess sem Axel Stefánsson markörður var valinn í landslið 20 ára og yngri.
Sjálfsagt er að geta þess starfs er Magnea Friðriksdóttir innti af hendi í þágu kvennahandbolta KA í vetur, tók þessi dugnaðar kona að sér að sjá um rekstur hans og þjálfun að nokkru leiti á móti Halldóri Rafnssyni.
Aðalfréttin í upphafi 1991, er að Alfreð Gíslason muni snúa heim frá Spáni og taka við liðinu og stjórna því næstu 3 árin. Víst er að mikill er fengur félagsins að fá hann heim á ný, en alkunna er, að Alfreð hefur getið sér gott orð á erlendri grundu í mörg ár.
Skömmu áður hafði unnist enn einn Akureyrarmótstitillinn í mfl. en naumt var það, 30:29 og eru ár og dagar síðan KA hefur átt í jafn miklu basli með nágranna sína í mfl. handboltans – en auðvitað eiga viðureignir liðana að vera svona. Tvö slæm töp gegn Víkingi í deild og bikar, 17:25 og 18:26 en þegar upp var staðið náði liðið í 19 stig úr 22 leikjum og hafnaði í 8. sæti af 12 og mun heyja baráttu um tilveru sína í 1. deild! Vannst þar sigur á Þrótti 32:24 í fyrsta leik síðan gekk á ýmsu en stórsigur, 30:18, á Stjörnunni tryggði áframhaldandi sæti í deildinni.
Sigurður Sigurðsson tekur við formennsku af Einari Jóhanssyni í marsmánuði. Valur varð Íslandsmeistari.
Keppnistímabilið 1991 - 1992
Upphaf Alfreðs var þó ekki til að hrópa húrra fyrir því KA tapaði á æfingamóti á Akureyri fyrir Þór 23-25 og mun það vera fyrsta tap KA í meistaraflokki gegn Þór síðan liðin léku í 2. deild árið 1978!
Fyrsti alvöruleikur liðsins á Akureyri eftir langt hlé tapaðist, í Reykjavík raunar, með minnsta mun gegn Víkingi, 26-27, Alfreð sýndi styrk sinn engu að síður og skoraði 10 mörk.
Vígsluleikurinn í KA-húsinu tapaðist því miður, en 28-33 tap gegn FH, er engu að síður staðreynd, en Stefán Kristjánsson og Sigurpáll Árni Aðalsteinsson voru bestu menn KA með 10 mörk hvor. Þessi merkilegi leikur, vígsluleikur KA-hússins dró hátt í 1.500 manns í húsið og stemmningin gríðarleg. Sú ráðstöfun ráðamanna að allir skyldu úr skónum í takmörkuðu rými anddyris hússins var ekki til að gleðja alla enda má ætla að skóhrúgan hafi minnt á einhverja brunaútsöluna!
Enn var beðið eftir sigri því þriðji leikur tapaðist einnig 21-29 fyrir Stjörnunni. Langþráður sigur kom loks í 4. leik og voru það Haukar sem voru svo vinsamlegir að tapa fyrir okkur með 24-17 en í raun gekk hvorki né rak og eftir 7 umferðir er lið okkar í 10-unda sæti af 12 liðum deildar.
Gunnar Gíslason kemur inn í lið KA síðla hausts og hafði þá ekki leikið með KA í 5 ár. Betur gekk í annarri umferð meðal annars góður útisigur gegn Val 27-29 í leik þar sem Sigurpáll Árni fór á kostum og gerði 10 mörk, gerði pilturinn raunar 11 í leiknum þar á undan, 29-29 í viðureigninni gegn Haukum. Tekst okkar mönnum sífellt betur að höndla boltann, æft undir þungarokki til að venjast hávaða KA-hússins og liðið fer upp töfluna öruggum skrefum. Sigurpáll Arni á, hvern stórleikinn af öðrum og er jafnan meðal markahæstu KA manna.
Landslið Íslands í handbolta mætti norður þann 6. mars og lék gegn KA. KA fékk tvo lánsmenn fyrir leikinn en það voru þeir Sigurður Sveinsson og Þorgils Óttar Matthiesen. Úr varð frábær leikur í troðfullu KA-Heimilinu. Þegar Valdimar Grímsson kom landsliðinu í 22-28 seint í síðari hálfleik bjuggust flestir við að KA væri búið að tapa leiknum en frábær kafli sneri leiknum við.
Lið KA skoraði næstu 7 mörk og komst yfir 29-28 og lokamínúturnar voru svakalegar. Á endanum var það Sigurður Sveinsson sem tryggði KA sigurinn með skoti á lokasekúndunni, 32-31. Sætur sigur staðreynd en Ísland náði stuttu síðar 4. sætinu á Ólympíuleikunum í Barcelona.
Akureyrarmótið vannst auðveldlega, 19-14 og 23-15 en það sem meira er, KA vinnur alla flokka og má segja að nú beri nýrra við. Tilkoma hússins hefur virkað sem alger vítamínssprauta á allt starfið og hefur stjórn deildarinnar auðnast að ráða vel menntaða og áhugasama þjálfara til starfa. Og Alfreð Gíslason kom á réttum tíma.
Svo mikið gekk á í yngri flokkunum, að Árni Stefánsson hélt suður með 4. flokkinn og sneri heim með fyrstu Íslandsmeistara KA í handbolta frá upphafi! 5. flokkur gerði einnig góða ferð og náði 3. sæti. Nefndur Árni átti eftir að mynda tvíeyki með vini sínum Alfreð, sem liðsstjóri meistaraflokksins, skyldu menn ekki gleyma þætti Árna - saman voru þeir eins konar tvíhöfða persóna.
Íslandsmeistarar KA 1992 – 4. flokkur karla. Aftari röð frá vinstri: Óskar Bragason, Sverrir Björnsson, Ísleifur Einarsson, Vilhelm Anton Jónsson, Tómas Jóhannesson, Guðmundur Rúnar Brynjarsson, Arnar Már Vilhjálmsson, Halldór Jóhann Sigfússon, Ragnar Már Þorgrímsson, Árni Stefánsson þjálfari. Fremri röð frá vinstri: Guðmundur Pálsson, Baldur Sigurðsson, Guðmundur Freyr Sveinsson, Hörður Flóki Ólafsson, Jóhann Eyþórsson, Friðrik Flosason, Bjarni Bjarnason, Arnar Árnason, Ragnar Páll Ólafsson.
Lið okkar lauk keppni í 4. sæti 1. deildar sem er auðvitað vel viðunandi, einkum eftir arfa slakt gengi framan af vetri. Í úrslitakeppninni tapaði KA fyrir ÍBV í 3. leik í troðfullu KA-húsi með 20-26 en lið Eyjamanna hefur löngum reynst okkur KA-mönnum erfið hindrun.
Á lokahófi HSÍ voru Stefán Arnaldsson (KA-maður frá bernsku) og Rögnvald Erlingsson kosnir bestu dómararnir. Leó Örn Þorleifsson Ananíassonar og Helgi Þór Arason valdir í landslið yngri en 16 ára. Sigurpáll Árni var markhæstur með 165 mörk, Alfreð 136 og Stefán Kristjánsson 133. Hafnarfjarðarliðið FH varð Íslandsmeistari.
1980-1987 << Framhald >> 1992-1993