Flýtilyklar
KA - Viking 27-20, 15. október 1995
- |
27-20 (12-8)
KA áfram eftir öruggan sigur
KA fór þægilega í gegnum norsku víkingana með sigri í KA-Heimilinu
Ekkert nema sigur dugði KA til að komast áfram í evrópukeppni bikarhafa þegar liðið tók á móti norska liðinu Viking frá Stavanger. KA-Heimilið var troðfullt og stemningin var ægileg sem virtist slá gestina út af laginu.
KA liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og ekki leið á löngu uns staðan var orðin 7-3 og síðar 10-5. Krafturinn í KA liðinu var mikill og með dyggum stuðningi áhorfenda var ljóst frá upphafsmínútum leiksins að heimamenn myndu klára dæmið og fara áfram í næstu umferð. Staðan í hálfleik var 12-8 og síðari hálfleikurinn í raun formsatriði.
Stemningin í KA-Heimilinu var ólýsanleg og hafði mikið að segja þegar KA liðið valtaði yfir Norsku Bikarmeistarana
Frábær byrjun á síðari hálfleik gerði svo endanlega út um litlar vonir gestanna frá Noregi en KA skoraði fyrstu 4 mörkin og komst fljótlega í 10 marka forskot. Þessi munur hélst milli liðanna næstu mínútur en gestirnir náðu að laga stöðuna örlítið undir lokin og öruggur 27-20 sigur KA staðreynd og liðið komið áfram í næstu umferð.
Til að strá enn frekara salti í sárin hófu stuðningsmenn KA að syngja hástöfum í síðari hálfleik "Seier'n er vår" eða "sigurinn er okkar" en þetta var þekktur sigursöngur norskra íþróttaáhugamanna. Það kom greinilega á Norðmennina að fá þennan söng í andlitið og vakti meðal annars upp reiði Norskra blaðamanna í KA-Heimilinu.
Það er ljóst að KA er með hörkulið og þegar áhorfendur eru í sama stuði og leikmenn er ljóst að fá lið munu geta sótt sigur í KA-Heimilið. Norðmennirnir í Viking eru með fínt lið en KA er einfaldlega betra og þrátt fyrir að liðið hafi ekki leikið áður í evrópukeppni er liðið til alls líklegt.
Leó Örn og félagar í KA slógu út norsku víkingana með sigri í KA-Heimilinu
Markaskorun KA í leiknum:
Julian Duranona 9 (2 úr vítum), Jóhann Gunnar Jóhannsson 6, Patrekur Jóhannesson 5, Leó Örn Þorleifsson 4, Atli Þór Samúelsson 1, Björgvin Björgvinsson 1 og Björn Björnsson 1.
Varin skot: Guðmundur Arnar Jónsson 11 (þar af 1 víti) og Björn Björnsson 6.