Flýtilyklar
Keppnistímabilið 1994-1995
Í júnímánuði halda þrír okkar fremstu þjálfarar til Þýskalands til frekara náms í þeim fræðum, Alfreð, Árni Stefánsson aðstoðarmaður Alfreðs og yngri flokka þjálfari og Jóhannes Bjarnason yngri flokka þjálfari. Valdimar og Sigmar Þröstur eru áfram í herbúðum KA en við bætist einn efnilegasti handknattleiksmaður þjóðarinnar, Patrekur Jóhannesson úr Stjörnunni.
Í fyrsta leik Íslandsmótsins er um jafntefli að ræða í hörkuleik gegn Víkingi, 26:26, þar sem Valdimar skoraði 13 og Patrekur 7, samtals 20 af okkar 26 mörkum. Í tapleik gegn Stjörnunni, 26:28, snýst dæmið við þar sem Patrekur skoraði 11 og Valdimar 8. „Verðum að rífa þetta upp“, sagði bitur Alfreð eftir 21:24 tap gegn Val og enn aftur skoruðu tvímenningarnir bróðurpart markanna, Valdimar 10 og Patrekur 8. En allt kom fyrir ekki, sigurmark Hauka úr vítakasti á lokasekúndunum og tap 26:27 var staðreynd.
Valdimar Grímsson skorar gegn Víkingum
Loks sigur og var það hlutskipti HK að bíða lægri hlut 26:17 og sýndi Jóhann Gunnar þá allar sínar bestu hliðar og skoraði 8 mörk, Patrekur 7. Í næsta sigurleik, 27:22 á. ÍR, hélt Jóhann uppteknum hætti og gerði 8. KA vann sama lið 34:28 í 16-liða úrslitum bikars. Í framhaldi af þessum leikjum kom góður kafli og ekkert stóð fyrir okkar mönnum og unnust góðir sigrar meðal annars á, FH 27:24, Aftureldingu 21:18, og á Víkingi í bikarnum 30:24.
Eftir 9 sigra í röð kom tap 23-25 gegn Víkingi. „Töpuðum þessu á eigin klúðri“ sagði keppnismaðurinn Valdimar að leik loknum, en hann gerði 7 eins og Patrekur, þeir voru bestir ásamt Sigmari Þresti. Síðan kom skellur 26-30 tap fyrir Stjörnunni í KA-heimilinu en sigur í hörkuleik í Eyjum í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar með 24-22, Patrekur með 10 mörk, unglingurinn Atli Þór Samúelsson 5 og Sigmar Þröstur með yfir 20 skot varin. Í undanúrslitum beið erfiður leikur á Nesinu gegn Gróttu.
Lið KA er að verða vel sjóað bikarlið og sýndi allar sínar bestu hliðar á Seltjarnarnesinu gegn duglegu liði Gróttu og vann yfirburðasigur 25-16. Valdimar 8, Leó Örn 6 og Jóhann Gunnar 5 voru ásamt Sigmari Þresti bestir en sem fyrr voru Erlingur og Alfreð akkeri varnarinnar.
Alfreð Gíslason fagnar með stuðningsmönnum í KA-Heimilinu
Bikarmeistarar eftir ótrúlegan úrslitaleik
Stemningin fyrir leiknum var gífurleg, KA sem hafði leikið sinn fyrsta bikarúrslitaleik árið áður var reynslunni ríkari eftir slæmt tap gegn FH og var mikið líf í KA-Heimilinu að útvega stuðningsmönnum miða á leikinn sem og að koma upp ferðum á leikinn sjálfan. Stemningin var einnig mikil hjá liðinu sjálfu og voru þó nokkrir sem breyttu um hárstíl.
Hárstíllinn klikkaði þó hjá Patreki Jóhannessyni sem var krúnurakaður í bikarleiknum. Ástæðan var sú að hann lét lita á sér hárið, en litunin misheppnaðist og því lét hann raka allt hárið af sér. „Hárið átti að vera í KA-litunum, en það klikkaði svo rosalega og ég varð að raka það allt af. Ég gat ekki látið nokkurn mann sjá mig með mislitað hár. Ég ákvað því í samráði við konuna mína að raka það allt af. Ég held að ég sé skárri svona," sagði Patrekur.
Hinn 4. febrúar rann stóri dagurinn upp, á ný voru „gulir og glaðir“ mættir á parketgólf Laugardalshallar í bikarúrslit og aftur skyldi att kappi við lið með áratuga langa reynslu af stórmótum sem þessum, andstæðingurinn var hið stórsnjalla lið Vals. Lið KA hafði lært margt á því ári sem liðið var, nú voru menn ekki teknir kaldir í bólinu, jafnt var á öllum tölum í fyrri hálfleik uns KA náði tveggja marka forystu, 12-10, sem var hálfleiksstaða.
Leikur KA og Vals þróaðist í hreinan spennutrylli, Guðmundur Hrafnkelsson varði víti frá Valdimar í lok venjulegs leiktíma, leikurinn var framlengdur og framlengdur á ný - önnur eins tilþrif hafa vart sést á fjölum Hallarinnar. Hið óvænta gerðist, lið okkar þoldi hið mikla álag og átti lokaorðið í leiknum og vann 27-26 og sú gleði sem sigrinum fylgdi verður ei með orðum lýst, rétt eins og þegar strákarnir okkar unnu Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnunni 1989 var gleðin svo innileg og ósvikin.
Það tók margan gamlan KA-manninn langa stund að átta sig á að KA var Bikarmeistari í fyrsta sinn! Í jöfnu baráttuliði KA skoraði Patrekur 11 mörk, Valdimar 8 og Sigmar Þröstur varði vel rétt eins og kollegi hans hinum megin.
Bikarúrslitin 1995 - æsilegasti úrslitaleikur allra tíma
Það er fróðlegt að skoða vandaða og umfangsmikla umfjöllun blaðanna frá þessum tíma en hér að neðan er hægt að skoða skrif Morgunblaðsins, DV og Akureyska blaðsins Dagur, þú smellir á myndirnar til að skoða hvert blað.
Gríðarleg fagnaðarlæti fylgdu í kjölfarið, gólfið á Laugardalshöllinni varð gult af öllum þeim fjölda KA-manna sem þustu inn á gólfið. Þá má með sanni segja að bæjarhátíð hafi farið fram á Akureyri og tóku rúmlega 300 manns við liðinu á Akureyrarflugvelli og hylltu hetjurnar sínar. Í kjölfarið var fagnað langt fram á nótt.
KA-menn fögnuðu fyrsta bikarmeistaratitlinum í stórkostlegum tvíframlengdum leik
KA-menn fögnuðu bikarmeistaratitli í fyrsta sinn á laugardaginn (4. febrúar 1995) í mest spennandi úrslitaleik sem fram hefur farið hér á landi. Leikur KA og Vals var tvíframlengdur, stemmingin gríðarleg í Höllinni og hin besta skemmtun fyrir áhorfendur. Lokatölur urðu 27:26. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 20:20 og síðan 24:24 eftir fyrri framlengingu. Leikurinn verður lengi í minnum hafður, enda ekki á hverjum degi sem menn upplifa slíka spennu.
KA-menn komu vel stemmdir í leikinn og náðu fljótlega afgerandi forystu og fór Alfreð Gíslason þar fyrir sínum mönnum. Hann dreif liðið áfram með sínum einstaka krafti og smitaði þannig út frá sér. Þegar 8 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik var staðan 10:5 fyrir KA og stefndi í stórsigur Norðanmanna. Valsmenn, sem eru þekktir fyrir að gefast ekki upp, söxuðu forskotið niður í tvö mörk fyrir hlé. 12:10. Frosti Guðlaugsson var drjúgur á lokakafla fyrri hálfleiks og gerði þrjú síðustu mörkin.
Þegar fjórar mínútur voru liðnar af síðari hálfleik voru Valsmenn búnir að jafna, 12:12. Þá hrökk Patrekur í gang, en hann fór sér frekar hægt í fyrri hálfleik. Hann gerði þrjú mörk á skömmum tíma og aftur var KA komið með tögl og hagldir. En seiglan í Valsliðinu var enn til staðar og aftur var jafnt, 17:17 og 19:19. Dagur kom liði sínu yfir 19:20 þegar rúmlega ein mínúta var eftir en Patrekur jafnaði, 20:20, þegar 45 sekúndur voru eftir og allt á suðupunkti. Í næstu sókn Valsmanna varði Sigmar Þröstur frá Degi og KA-menn brunuðu upp og Patrekur fékk dæmt vítakast, sem var reyndar ákaflega furðulegur dómur. Valdimar tók vítið þegar leiktíminn var úti en Guðmundur varði og því var framlengt.
Patrekur allt í öllu
Jón Kristjánsson gerði fyrsta markið fyrir Val í framlengingunni, 20:21 og í næstu sókn varði Guðmundur af línunni frá Leó. Dagur fékk tækifæri til að auka forskot Vals í tvö mörk, en skaut í stöng og Patrekur svaraði með tveimur mörkum áður en flautað var til hálfleiks, 22:21. Patrekur var aftur í aðalhlutverki eftir hlé og kom KA í 24:21 þegar 150 sekúndur voru eftir. Á þessum tímapunkti voru KA-menn farnir að fagna, en það var aðeins of snemmt því Valsmenn voru ekki búnir að leggja árar í bát. Þeir léku maður á mann og uppskáru þrjú mörk áður en tíminn var úti, 24:24. Ingi R. Jónsson lék mjög vel á þessum kafla og gerði tvö af þremur mörkum Vals og það síðara þegar sjö sekúndur voru eftir. Og enn var framlengt.
KA með pálmann í höndunum
Patrekur kom KA yfir í 25:24 og í næstu sókn varði Sigmar Þröstur vítakast frá Degi. Valdimar renndi sér inn á línuna og fékk sendingu frá Alfreð sem hann skilaði í markið, 26:24. Valgarð minnkaði muninn fyrir Val úr vítakasti. Alfreð kom KA í 27:25 og Jón Kristjánsson svaraði fyrir Val, 27:26. Í síðari hálfleik í síðari framlengingunni gekk hvorki né rak og sáu markverðir liðanna til þess. KA stóð með pálmann í höndunum og var það mjög verðskuldað.
Hungrið vó þungt hjá KA
Eins og áður segir var leikurinn frábær skemmtun og bauð upp á allt sem góður handboltaleikur getur boðið uppá. KA-menn voru mjög hungraðir í sigurinn og það kann að hafa ráðið úrslitum. Þrír leikmenn KA báru sóknarleik liðsins uppi; þeir Patrekur, Valdimar og Alfreð. Þessir leikmenn áttu allir mjög góðan leik og mér er til efs að Patrekur hafi leikið betur í annan tíma. Varnarleikur liðsins var gríðarlega sterkur með þá Alfreð, Patrek og Erling á miðjunni, Valdimar fyrir framan og Jóhann G. Jóhannsson og Val Arnarson í hornunum. Að ógleymdum Sigmari Þresti sem átti stórleik í markinu. Leó Örn komst einnig ágætlega frá sínu.
Valsmenn lengi í gang
Valsmenn voru lengi í gang og vöknuðu ekki til lífsins fyrr en langt var liðið á fyrri hálfleik. Það ber að hrósa liðinu fyrir það eitt að komast inní leikinn hvað eftir annað í nánast vonlausri stöðu. Það er mikill „karakter“ í liðinu og það gafst ekki.upp fyrr en í fulla hnefana. Jón og Dagur byrjuðu illa en óx ásmegin er á leið, sérstaklega Degi. Frosti spilaði vel í horninu og eins komst Valgarð vel frá sínu eftir að hann fékk tækifærið. Júlíus var öflugur í fyrri hálfleik en ógnaði lítið eftir það. Geir var sterkur og þó svo að hann hafi ekki skorað nema eitt mark þá fiskaði hann þrjú vítaköst og stjórnaði varnarleiknum. Ingi Rafn kom mjög öflugur inn í framlengingunni og hefði átt að fá að spreyta sig meira. Guðmundur stóð fyrir sínu í markinu að vanda og gerði vel í því að verja vítakastið í lok venjulegs leiktíma og hélt þannig spennunni í leiknum enn lengur.
Bikarmeistarar 1995, aftari röð frá vinstri: Sveinn Rafnsson, stjórnarmaður, Guðmundur B. Guðmundsson, gjaldkeri handknattleiksdeildar, Sverrir Björnsson, Þorvaldur Þorvaldsson, Alfreð Gíslason, Patrekur Jóhannesson, Erlingur Kristjánsson, Helgi Arason, Leó Örn Þorleifsson, Erlendur Stefánsson og Þorvaldur I. Þorvaldsson, formaður handknattleiksdeildar.
Fremri röð frá vinstri: Valur Arnarson, Árni J. Stefánsson, liðsstjóri, Einvarður Jóhannsson, Sigmar Þröstur Óskarsson, ungur stuðningsmaður, Björn Björnsson, Jóhann G. Jóhannsson og Atli Þór Samúelsson. Á gólfinu fyrir framan liggur Valdimar Grímsson. Mynd: Morgunblaðið/Bjarni
Bikarmeistarar 1995, aftari röð frá vinstri: Atli Þór Samúelsson, Alfreð Gíslason, Þorvaldur Þorvaldsson, Patrekur Jóhannesson, Helgi Arason, Leó Örn Þorleifsson, Árni Stefánsson. Fremri röð: Jóhann G. Jóhannsson, Valdimar Grímsson, Sigmar Þröstur Óskarsson, Erlingur Kristjánsson, Björn Björnsson, Einvarður Jóhannsson, Valur Arnarson. Ljósmyndastofa Páls. Smelltu á myndina til að fá stærri mynd.
Smelltu á eftirfarandi myndir til að lesa blöðin frá þessum tíma:
Einnig eru hér nokkrar myndir Þóris Tryggvasonar frá stemmingunni eftir leik.
Árni Stefánsson og Erlingur Kristjánsson með bikarinn
Sigmar Þröstur Óskarsson og Patrekur Jóhannesson alsælir
Lið okkar hafnaði í 6. sæti 1. deildar annað árið í röð og mætir Stjörnunni í 1. umferð úrslitakeppninnar. Fyrsti leikur tapast 24:29 og átti okkar lið aldrei möguleika en svaraði með góðum sigri heima 26:21 og fóru svo fullir sjálfstrausts í Garðabæinn og unnu öruggan 26:23 sigur, Valdimar 10, Patrekur og Erlingur 4 hvor. Í undanúrslitum bíður lið Gunnars Gunnarssonar, Víkingar, er vinna okkur 24:32 í fyrsta leik og menn þegar farnir að tala um hverjir munu verða andstæðingar Víkinga í úrslitum. Of snemmt, því KA vann 2. leik heima 22:19, þar sem Sigmar Þröstur var hetja KA-manna. 3. leikur liðanna var hörkuspennandi, KA endurtók leikinn gegn Stjörnunni og vann oddaleik á útivelli, nú 23:22, Valdimar 7 mörk og Alfreð 5 en vörnin og Sigmar Þröstur skópu sigurinn, sem þýddi að KA er í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinni og andstæðingurinn ekki árennilegur, hinn hamrammi Valur.
Valdimar Grímsson fékk þungt högg undir lok leiksins gegn Víkingum
Í yngri flokkunum gengur starfið vel, stórvel á stundum. Akureyrarmótið er að mestu okkar eign 3. árið í röð og á Íslandsmótinu eru enn hlutir að gerast. 6. flokkur Jóhannesar og Þóris endurtekur leik sinn frá fyrra ári, kemur heim með Íslandsmeistarartitla A-, B-og C-liða! Jóhannes hlaut ÍSÍ-bikarinn fyrir afburðaárangur á undanförnum árum. 4. flokkur sama Jóhannesar fylgdi þessum glæsilega árangri eftir með snilldarleik í úrslitum gegn ÍR 15:9 þar fóru fremstir Heimir Örn Árnason með 5 og Þórir Sigmundsson einnig með 5 mörk.
Stöð 2 kíkti á æfingu hjá þreföldum Íslandsmeisturum KA í 6. flokki drengja. Rætt er við Jóhannes Bjarnason þjálfara, Þorleif Ananíasson, Egil Daða Angantýsson (markvörð C-liðs), Halldór Brynjar Halldórsson (hornamann C-liðs) og Baldvin Þorsteinsson (fyrirliða A-liðs).
Íslandsmeistarar KA í 6. flokki í handbolta. A lið 1995. Aftari röð frá vinstri: Þórir Sigmundsson aðstoðarþjálfari, Ingólfur Axelsson, Árni Harðarson, Einar Logi Friðjónsson, Atli Ingvason, Haukur Steindórsson, Lárus Ásgeirsson, Jóhannes Bjarnason þjálfari. Fremri röð frá vinstri: Jóhann Helgason, Gísli Grétarsson, Baldvin Þorsteinsson, Bjarni Steindórsson, Einar Logi Egilsson.
Íslandsmeistarar KA í 6. flokki í handbolta. B lið 1995. Aftari röð frá vinstri: Þórir Sigmundsson aðstoðarþjálfari, Skúli Eyjólfsson, Ívar Hauksson, Hafþór Úlfarsson, Arnar Sæþórsson, Friðrik Smárason, Jóhannes Bjarnason þjálfari. Fremri röð frá vinstri: Árni B. Þórarinsson, Daníel Christensen, Ólafur Þórisson, Þorgils Gíslason, Bjarni Þórisson.
Íslandsmeistarar KA í 6. flokki í handbolta. C lið 1995. Aftari röð frá vinstri: Þórir Sigmundsson aðstoðarþjálfari, Halldór Tuliníus, Jóhann Valdemarsson, Helgi Jónasson, Theódór Gunnarsson, Jóhannes Bjarnason þjálfari. Fremri röð frá vinstri: Steindór Ragnarsson, Jón Gunnarsson, Egill Thoroddsen, Egill Angantýsson, Egill Níelsson, Halldór Halldórsson.
Íslandsmeistarar KA 1995 – 4. flokkur karla. Aftari röð frá vinstri: Jóhannes G. Bjarnason þjálfari, Kári Jónsson, Jóhann Hermannsson, Jóhannes Jónsson, Anton Þórarinsson, Benedikt Brynleifsson, Axel Árnason, Atli Þórarinsson, Heimir Örn Árnason. Fremri röð frá vinstri: Davíð Helgason, Birkir Birgisson, Hans Hreinsson, Þórir Sigmundsson fyrirliði, Hafþór Einarsson, Jónatan Magnússon, Hilmar Stefánsson, Hlynur Erlingsson.
Alfreð Gíslason var sæmdur silfurmerki KA á aðalfundi félagsins fyrir frábæran árangur sem leikmaður og þjálfari KA.
Úrslitaviðureign KA og Vals
En í átökin á ný, fyrsti úrslitaleikurinn var hörkuleikur er Valur vann 21:23 að Hlíðarenda, og Valdimar átti hreint stórkostlegan leik og gerði 13 mörk. Annar leikur á Akureyri var nánast endurtekning bikarleiksins og vannst 23:22 eftir framlengingu, hrikaleg átök frá fyrstu til hinstu mínútu. Valdimar fer fyrir okkar mönnum með 10 mörk og Patrekur 5, Sigmar Þröstur með stór góða markvörslu.
3. leikurinn var í fullu samræmi við aðra leiki liðanna í vetur, ótrúleg spenna í troðfullu Vals-heimili 23:24 og enn varð að bíða með krýningu meistaranna. Patrekur með 7 svo og Valdimar. 4. viðureignin í KA-heimilinu, ólyginn sagði að í húsinu væri 1800 manns og stemmningin rafmögnuð frá upphafi til enda, leikurinn í anda spennufíklanna og vinnst með 1 marki, 23:22. Var því um hreinan úrslitaleik að ræða að Hlíðarenda, staðan jöfn 2:2 og markatalan 90:91!
Patrekur Jóhannesson og Valdimar Grímsson sækja á Valsvörnina, í loftinu er gamli KA-maðurinn Jón Kristjánsson
Leikur Vals og KA var eins og alla handboltaunnendur dreymir um, hraður og sveiflukenndur en umfram allt frábær skemmtun í yfirfullum Hlíðarenda. KA hafði frumkvæðið lengst af og voru menn farnir að gæla við hið „ómögulega“, tvöfaldan sigur í stærstu mótum handboltans. Um miðjan seinni hálfleikinn slasast besti maður vallarins, Alfreð Gíslason, og við það riðlaðist leikur KA og Valur sá smugu og með snilldartilþrifum Dags Sigurðssonar jafnaði Valur 4 sek. fyrir lok leiks. Framlenging var óhjákvæmileg en ólíkt bikarúrslitunum var lið okkar slegið, hinn ungi og bráðefnilegi Ólafur Stefánsson fór á kostum í framlengingunni og lið okkar var sigrað, 27:30. Ekki er laust við að visst tómarúm hafi skapast eftir þetta niðurlag, annað liðið varð þó að tapa og í þetta sinnið var það lið okkar.
Eftir baráttuna hetjulegu marði algjörlega áhugalaust lið KA Þór á Akureyrarmóti 22:21 en á lokahófi HSÍ var Patrekur sæmdur nafnbótinni „besti leikmaðurinn“, hann var einnig markahæstur eins og Valdimar á sl. ári. Alfreð var valinn besti varnarmaðurinn og Sigmar Þröstur besti markvörðurinn, Stefán Arnaldsson að venju besti dómarinn. Þannig fór mikið fyrir Akureyringum, KA-mönnum, á lokahófi HSÍ.
HM-keppni á Íslandi
Sá merki atburður átti sér stað að Íslendingar stóðu fyrir heimsmeistarakeppni í handknattleik og var öllu tjaldað til. Einn riðill var leikinn á Akureyri, léku þar m.a. Svíar sem af eðlilegum ástæðum æfðu í KA-heimilinu og höfðu á orði að þeim líkaði þar vel. Keppnin varð þó aldrei sá stórviðburður sem menn höfðu vonað, mun færri mættu á leikina og landslið Íslands náði sér ekki á strik og að keppni lokinni kvaddi Þorbergur Aðalsteinsson landsliðsþjálfari og Þorbjörn þjálfari Vals Jensson tók við.
Valsarar, nammi nammi namm!
Myndbönd frá 1994-1995
1993-1994 << Framhald >> 1995-1996