Flýtilyklar
Uppbygging á KA svæðinu undirrituð
KA og Akureyrarbær skrifuðu í dag undir samning vegna uppbyggingar við nýjan gervigrasvöll með stúku á KA-svæðinu auk endurnýjunar og endurnýtingu á þeim gervigrasvelli sem nú er til staðar á svæðinu.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við endurnýjun og endurnýtingu gervigrasvallarins sem nú þegar er á svæðinu hefjist vorið 2022 og verði að því loknu tveir gervigrasvellir á KA-svæðinu. Skipt verið um gervigras á vellinum sem nú er til staðar og núverandi yfirlag verður fært og notað til að gera nýjan völl.
Framkvæmdir á nýjum aðalgervigrasvelli eiga að hefjast í ársbyrjun 2023 og er stefnan sett á að hann verði orðinn leikfær fyrir knattspyrnusumarið 2023. Í kjölfarið er svo áætlað að hefja byggingu stúku við aðalvöllinn í byrjun 2024 og að það verk verði lokið fyrir árslok. Að þessum framkvæmdum loknum verði því þrír glæsilegir gervigrasvellir á KA-svæðinu.
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar skrifaði undir fyrir hönd bæjarins og Ingvar Már Gíslason formaður KA skrifaði undir fyrir hönd félagsins. Þá voru Eva Hrund Einarsdóttir formaður frístundaráðs Akureyrar og Sigríður Jóhannsdóttir gjaldkeri KA vottar við undirritunina.
Ingvar Már Gíslason formaður KA var hæstánægður við undirritunina og hafði að henni lokinni þetta að segja. "Hér er að eiga sér stað undirritun sem mun skipa sér sess í íþróttasögu Akureyrar og Knattspyrnufélags Akureyrar sem ein merkilegustu tímamót og framfarskref sem stigin hafa verið hjá KA og í íþróttabænum Akureyri. Hjarta félagsins okkar slær hér á þessu svæði og hingað höfum við viljað stefna leynt og ljóst síðustu ár með alla okkar starfsemi.
Íþróttir eru og verða ein af meginstoðum þess samfélags sem við viljum búa í og byggja upp. Sameiginlega myndum við órjúfanlega heild sem styður við hvort annað, hvort sem litið er til lýðheilsu, atvinnustarfsemi, kennslu, þroska barna og ungmenna eða afreksíþrótta. Sú uppbygging sem fyrirhuguð er hér á KA svæðinu gerir okkur mögulegt að eflast og vaxa ásamt því að við höfum tækifæri til að sinna skyldum okkar í samfélaginu með enn betri hætti.
Fyrir hönd KA vil ég færa bæjarstjórn bestu þakkir fyrir þeirra framlag og ekki síst fyrir að hafa dug og þor til þess að horfa til framtíðar og þeirra tækifæra sem felast í öflugu íþróttastarfi. Í því samkomulagi sem hér er verið að gera felst mikil viðurkenning á hluverki félagsins og þeirri vinnu sem félagsmenn og iðkendur okkar leggja á sig dag hvern. Við erum að fjárfesta í heilsu og vellíðan og heilbrigði framtíðarinnar, við erum að fjárfesta í æskulýðs og forvarnarstarfi og við erum að fjárfesta í samkepnnishæfni Akureyrar.
Til hamingju KA og til hamingju Akureyringar."
Eva Hrund formaður frístundaráðs tók einnig til máls en hún sagði að markmið samkomulagsins sé annars vegar að efla og bæta íþróttaaðstöðu KA í samræmi við skýrslu starfshóps um nýframkvæmdir íþróttamannvirkja og hins vegar að færa knattspyrnutengda starfsemi af Akureyrarvelli svo Akureyrarbær geti hafið vinnu við að endurskipuleggja svæðið undir aðra starfsemi.
Akureyrarvöllur er, samkvæmt gildandi aðalskipulagi, skilgreindur sem þróunarsvæði og er stefnt að uppbyggingu þar í náinni framtíð. Svæðið býður upp á spennandi möguleika og er einnig áætlað að uppbygging þar skili Akureyrarbæ umtalsverðum tekjum í formi gatnagerðar- og byggingarréttargjalda. Völlurinn verður notaður til knattspyrnuiðkunar út sumarið 2022.