Flýtilyklar
Tvö gull og eitt silfur í bikarkeppni HSÍ
Handknattleiksdeild KA eignaðist tvo bikarmeistara um helgina auk þess sem ein silfurverðlaun bættust við í safnið er úrslitahelgi Poweradebikarsins fór fram að Ásvöllum. Strákarnir og stelpurnar á yngra ári fimmta flokks stóðu uppi sem bikarmeistarar og stelpurnar í 3. flokki fengu silfur.
Strákarnir á yngra ári 5. flokks unnu glæsilegan 22-15 sigur á liði Vals í úrslitaleik en staðan var 13-8 fyrir KA í hálfleik. Sigurinn var í raun aldrei í hættu og strákarnir verðskuldaðir bikarmeistarar.
Liðið skipa þeir Andri Stefán Haddsson, Atli Hrafn Hlynsson, Fannar Helgi Kristinsson, Hermann Hrafn Guðlaugsson, Jaki Ragnarsson, Jóhann Óli Helgason, Kristinn Hreinsson og Sölvi Snær Andrason. Þjálfarar eru þeir Andri Snær Stefánsson og Sigþór Árni Heimisson.
Stelpurnar á yngra ári 5. flokks unnu einnig sigur á liði Vals í sínum úrslitaleik, bæði lið hófu leikinn á frábærum varnarleik og var staðan 3-4 fyrir Val að loknum fyrri hálfleik. En stelpurnar okkar komu frábærlega inn í síðari hálfleikinn og tóku öll völd á vellinum. Að lokum vannst 11-8 sigur og stelpurnar hömpuðu bikarnum í leikslok.
Liðið skipa þær Arney Steinþórsdóttir, Aþena Ósk Óskarsdóttir Tulinius, Brynja Hólm Baldursdóttir, Elsa Kristín Egilsdóttir, Hildur Birta Stefánsdóttir, Júlía Margrét Siguróladóttir, Lydia Björk Ragnarsdóttir, Maríanna Gunnþórsdóttir, Rakel Sara Jónatansdóttir, Rannveig Sara Guðmundsdóttir, Steinunn Harpa Heimisdóttir og Sunna Koldís Kristinsdóttir. Þjálfari liðsins er Heimir Örn Árnason en Andri Snær Stefánsson aðstoðaði við leikinn.
Þá léku einnig stelpurnar í 3. flokki KA/Þórs til úrslita en rétt eins og hjá krökkunum í 5. flokki mættu stelpurnar liði Vals. Fyrirfram var vitað að við gríðarleg sterkt lið væri að eiga en stelpurnar sýndu frábæra baráttu og var leikurinn lengi vel í járnum. Valur leiddi 12-16 í hálfleik en undir lok leiks skildu leiðir og unnu Valsstúlkur að lokum 19-34 sigur.
Óþarfi að tapa svona stórt en árangurinn engu að síður frábær hjá okkar frábæra liði en nú þegar hafa nokkrar stelpur unnið sér sæti í meistaraflokksliði KA/Þórs og er framtíðin svo sannarlega björt hjá okkur.
Liðið skipa þær Bergrós Ásta Guðmundsdóttir, Elena Soffía Ómarsdóttir, Hafrún Linda Guðmundsdóttir,
Hekla Halldórsdóttir, Hólmfríður Björk Sævarsdóttir, Jóhanna Fönn Hannesdóttir, Kristín Andrea Hinriksdóttir, Sif Hallgrímsdóttir, Sunneva María Vilhelmsdóttir og Þórunn Nadía Hlynsdóttir. Þjálfarar eru þeir Jónatan Magnússon og Þorvaldur Þorvaldsson og þá var Lydía Gunnþórsdóttir liðsstjóri en hún gat ekki leikið vegna meiðsla.
Við óskum okkar frábæru liðum til hamingju með þennan glæsilega árangur en þetta var annað árið í röð sem við eigum þrjú lið í bikarúrslitum yngriflokka.