Tilnefningar til þjálfara ársins 2024

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak

Sjö frábærir þjálfarar eru tilnefndir til þjálfara hjá KA fyrir árið 2024. Þetta verður í fimmta skiptið sem verðlaun fyrir þjálfara ársins verða veitt innan félagsins. Þjálfarar félagsins skipa lykilhlutverk í okkar starfi og erum við ákaflega heppin að eiga fjölmargar fyrirmyndarþjálfara innan okkar raða.

Valið verður kunngjört á afmælisfögnuði KA sunnudaginn 12. janúar í íþróttasal KA-Heimilisins og hefst veislan klukkan 17:00, allir velkomnir.

Egill Daði er mjög fær, skipulagður og metnaðarfullur knattspyrnuþjálfari. Við höfum verið heppin að hann hefur þjálfað lengi hjá félaginu og verið lykilþjálfari í uppgangi knattspyrnudeildarinnar. Egill Daði er þjálfari 2. flokks sem varð Íslandsmeistari A-liða og mun því á næsta ári keppa í UEFA Youth League. Egill Daði er vel að árangrinum kominn en hann hefur stýrt 2. flokk félagsins síðan haustið 2017 og á þeim tíma hafa ófáir strákar fengið tækifæri með meistaraflokk félagsins.

Júdódeild KA hefur útnefnt Eirini Fytrou sem Þjálfara ársins 2024 fyrir ómetanlegt framlag sitt til uppbyggingar deildarinnar. Þrátt fyrir að hún hafi aðeins starfað sem þjálfari hjá deildinni frá síðasta hausti, hefur hún náð einstökum árangri á skömmum tíma með elju, dugnaði og skýrri framtíðarsýn.

Eirini hefur tekist að snúa þróuninni í júdóinu við eftir tímabil lægðar. Með markvissri vinnu hefur hún tvöfaldað iðkendafjöldann á aðeins nokkrum mánuðum, sem er ótrúlegur árangur. Að auki hefur hún gert deildina sýnilegri og lagt grunn að jákvæðum anda innan deildarinnar.

Með Eirini í fararbroddi hefur Júdódeild KA þróast frá því að vera einungis keppnismiðuð yfir í fjölbreytt og skemmtilegt fjölskyldusport. Hún hefur náð að sameina áherslur á keppnisárangur og félagslega þátttöku, sem hefur eflt tengsl iðkenda, fjölskyldna þeirra og deildarinnar sem heildar.

Eirini Fytrou er Þjálfari ársins 2024 hjá Júdódeild KA vegna ástríðu sinnar fyrir íþróttinni og hæfileikans til að hvetja aðra til dáða. Framlag hennar hefur sett sterkan svip á deildina og gefur góð fyrirheit um áframhaldandi vöxt og velgengni í júdóinu.

Hallgrímur er klókur þjálfari sem leggur leikinn vel upp, hann er einnig metnaðarfullur og duglegur þjálfari. Hallgrímur stýrði KA þegar liðið varð Mjólkurbikarmeistari eftir sigur gegn Víking. Það var eftirtektarvert hversu vel hann lagði upp sigurinn gegn Val í undanúrslitum og úrslitaleikinn sjálfan. Fyrirfram átti KA að vera minna liðið í þeim viðureignum en þegar á hólminn var komið þá unnum við sanngjarna og mikilvæga sigra fyrir félagið. Hallgrímur náði þar með að feta í fótspor Guðjóns Þórðarsonar að vinna stóran titil í knattspyrnu karla.

Heimir Örn Árnason hefur þjálfað hjá KA/Þór undanfarin ár með frábærum árangri. Undir hans stjórn varð 2012 árgangur kvenna íslands- og Bikarmeistarar. Heimir er ótrúlega metnaðarfullur þjálfari sem sinnir sínum iðkenndum ótrúlega vel.

Jón Heiðar þjálfaði 6.flokk karla á síðasta ári með frábærum árangri þar sem lið 1 á eldra ári varð Íslandsmeistari. Jón Heiðar hefur unnið gríðarlega óeigingjarnt og faglegt starf fyrir KA síðustu ár. Jón Heiðar er einstaklega jákvæður og skemmtilegur sem smitar út frá sér til félagsins.

Julia Bonet Carreras stýrir U16 ára liði stúlkna í blaki og náði hún frábærum árangri með hópnum sem skilaði þeim bikarmeistaratitli og öðru sæti í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Hér er frábær hópur sem á framtíðina fyrir sér og Julia er þeim ómetanleg fyrirmynd jafnt innan vallar sem utan.

Miguel Mateo Castrillo er þjálfari karla- og kvennaliðs KA í blaki. Með stelpunum vann hann þrjá titla af fjórum sem hægt var að vinna tímabilið 2023-24; Meistari meistaranna, Deildar- og Íslandsmeistaratiltla. Hann vann jafnframt kosningu um besta þjálfarann í úrvalsdeild kvenna hjá BLÍ. KA hefur misst mikilvæga leikmenn en ungir og efnilegir leikmenn hafa stigið upp og hefur Mateo enn og aftur sýnt styrk sinn sem þjálfari því eins og staðan er í dag situr kvennalið KA í efsta sæti úrvalsdeildarinnar og karlaliðið í því þriðja.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is