Tilnefningar til Böggubikars drengja 2024

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak | Lyftingar

Böggubikarinn verður afhendur í ellefta skiptið í ár en hann er veittur bæði dreng og stúlku sem þykja efnileg í sinni grein en eru ekki síður sterk félagslega. Böggubikarinn verður afhentur á 97 ára afmælishátíð KA sunnudaginn 12. janúar klukkan 17:00.

Böggubikarinn er farandbikar sem veittur er einstaklingum, pilti og stúlku, á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi. Böggubikarinn er veittur í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, sem fædd var þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011. Bróðir Böggu, Gunnar Níelsson, er verndari verðlaunanna en þau voru fyrst afhend árið 2015 á 87 ára afmæli KA.

Að þessu sinni eru sex öflugir drengir tilnefndir af deildum KA til Böggubikars drengja fyrir árið 2024.

Dagbjartur Búi er ákaflega áhugasamur og metnaðarfullur einstaklingur en hann er öflugur kantmaður sem getur einnig leyst miðjustöðurnar vel. Hann er áræðinn leikmaður með framúrskarandi skotfærni. Fyrri hluta ársins var hann á láni hjá Dalvík/Reyni þar sem hann lék 14 leiki í Lengjudeildinni og Mjólkurbikarnum.

Um haustið skipti hann aftur í KA og í kjölfarið spilaði hann sína fyrstu leiki í Bestu deildinni. Dagbjartur Búi var lykilmaður í liði 2. flokks og átti hann stóran þátt í að tryggja þeim Íslandsmeistaratitilinn.

Friðrik Alvin H. Grankvist er ungur og virkilega efnilegur 19 ára drengur í lyftingadeild KA. Hann keppti í maí á sínu fyrsta móti, það gekk ekki allt upp þar og féll hann því miður úr keppni í bekkpressu, en gekk þó vel í hnébeygju og réttstöðulyftu.

Friðrik sýndi styrk sinn með því að nýta sér þá reynslu er hann keppti einnig á Íslandsmóti fullorðinna og náði þar þriðja sæti í -93kg flokk með góðum árangri þar sem hann lyfti samanlagt 517.5kg.

Friðrik er metnaðarfullur og sinnir æfingur gríðarlega vel. Það má þess geta að Friðrik er búsettur á Sauðárkróki, en það lætur hann ekki stoppa sig og keyrir oft til Akureyrar til að æfa í Lyftingadeild KA. Hann hefur sýnt miklar framfarir og hefur alla burði til þess að verða topp kraftlyftingamaður á næstu árum.

Jens Bragi er einstaklega duglegur íþróttamaður, Hann er sterkur félagslega í meistaraflokki KA og setur alltaf markið hátt á æfingum. Hann ýtir undir að aðrir leikmenn leggja meira á sig á æfingum og utan æfinga. Jens er alltaf að leita leiða til þess að bæta sig og er duglegur við það að leita sér fróðleiks frá þeim sem eru í kringum hann.

Jens Bragi er einstaklingur sem stefnir hátt í sinni íþróttagrein og er hluti af sterkum 2006 árgangi hjá KA sem varð bikarmeistari unglinga í vor.

Jens hefur einnig verið hluti af U-18 sem náði eftirtektarverðum árangri í sumar þar sem þeir enduðu í 4. sæti á EM í Svartfjallalandi.

Samir Ómar Jónsson er tilnefndur til Böggubikarsins 2024 fyrir framúrskarandi árangur í júdó, félagslega styrk og jákvæða framkomu sem hefur haft áhrif innan Júdódeildar KA. Hann er efnilegur íþróttamaður sem hefur náð góðum árangri á keppnisvöllum, en ekki síður sýnt frumkvæði og stuðning sem aðstoðarþjálfari og æfingafélagi.

Á keppnisárinu 2024 skaraði Samir fram úr í bæði yngri flokkum og fullorðinsflokki. Hann tryggði sér tvenn þriðju sæti á Íslandsmóti yngri flokka í U18 og U21 keppnisflokkum í -66 kg þyngdarflokki. Á Vormóti JSÍ keppti hann í fullorðinsflokki og náði öðru sæti, sem sýnir getu hans til að standast samkeppni meðal reyndari keppenda. Hann náði einnig þriðja sæti í U18 flokki á Vormóti yngri flokka. Þessir árangrar endurspegla metnað hans og hæfileika.

Utan keppnisvallarins hefur Samir tekið að sér mikilvægt hlutverk sem aðstoðarþjálfari hjá Júdódeild KA, þar sem hann vinnur markvisst með yngri iðkendum. Hann er einnig fyrirmynd á æfingum með jákvæðu viðhorfi og hvetjandi framkomu sem stuðlar að góðum anda innan deildarinnar. Framlag hans hefur veitt öðrum iðkendum innblástur og eflt félagslíf deildarinnar á margvíslegan hátt.

Samir Ómar Jónsson er því vel að þessari tilnefningu kominn, ekki aðeins sem efnilegur íþróttamaður heldur einnig sem sterkur félagslegur leiðtogi sem er öðrum til fyrirmyndar bæði innan vallar og utan.

Sólon Sverrisson er gríðarlega efnilegur iðkandi hjá fimleikadeild KA og hefur hann sýnt ótrúlega þrauseigju og dugnað. Sólon er einn af aðeins þremur eldri karlkyns iðkendum deildarinnar en hann lætur það ekki stöðva sig og æfir gríðarlega vel og af miklum metnaði. Sólon mætir 6 daga vikunnar á 3-4 tíma æfingar. Hann er ávallt mjög jákvæður og kurteis og er frábær fyrirmynd.

Sólon hefur keppt fyrir hönd Íslands á Norðurlandamótum bæði árin 2023 og 2024 þar sem hann hefur sýnt að hann er í fremstu röð.

Stefán Máni er fyrirliði í U20 ára liði KA í blaki karla. Hann er góð fyrirmynd sem kemur vel fram, sýnir góða ástundun og aga. Hann er jákvæður og ávallt tilbúinn til að aðstoða liðsfélaga sína.

Stefán Máni keppir einnig í strandblaki og var valinn í landslið yngri leikmanna og keppti meðal annars á NEVZA evrópumóti síðastliðið sumar. Hann er farinn að æfa með sterku meistaraflokksliðið KA og ljóst að hann á framtíðina fyrir sér.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is