Flýtilyklar
Þriðji sigur KA í röð kom í Keflavík
KA sótti Keflvíkinga heim í fjórðu umferð Pepsi Max deildarinnar í kvöld. Fyrir leikinn var KA eitt af fjórum toppliðum deildarinnar með 7 stig og alveg klárt að strákarnir voru mættir á Suðurnesið til að sækja þrjú mikilvæg stig.
Enda leið ekki á löngu uns strákarnir tóku forystuna er Ásgeir Sigurgeirsson skoraði með laglegu skoti á 15. mínútu. En Keflvíkingar voru ekki lengi að svara því Ástbjörn Þórðarson jafnaði á 22. mínútu og leikurinn galopinn á ný.
Markið hafði þó engin áhrif á KA liðið sem hélt áfram að spila sinn leik og Ásgeir skoraði sitt annað mark strax í kjölfarið þegar hann skallaði boltann vel í netið eftir frábæra aukaspyrnu frá Hallgrími Mar. Skömmu fyrir hlé fékk KA svo vítaspyrnu en Sindri Kristinn í marki Keflavíkur varði spyrnuna frá Grímsa virkilega vel og hélt áfram spennu í leiknum.
Grímsi svaraði hinsvegar fyrir sig eftir um kortérsleik í síðari hálfleik er hann renndi boltanum snyrtilega í markið eftir að boltinn barst til hans rétt fyrir utan teig. Markið gerði í raun útum leikinn og stóra spurningin í raun hvort okkar menn næðu að bæta við fjórða markinu.
Það kom rétt fyrir leikslok þegar Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði eftir gott upplegg frá Grímsa og var honum eðlilega vel fagnað enda fyrsta mark Elfars í endurkomu sinni á völlinn eftir krossbandsslitin fyrir síðasta tímabil.
Afar sannfærandi 1-4 sigur því staðreynd í Keflavík og liðið okkar lítur hreinlega ansi vel út. Strákarnir eru áfram á toppi deildarinnar, nú með 10 stig af 12 mögulegum og verður afar spennandi að sjá hvernig toppslagurinn gegn Víkingum fer á föstudaginn.