Flýtilyklar
Stjarnan sló Þór/KA út í Bikarnum
Það var enginn smá leikur á Þórsvelli í dag þegar Þór/KA tók á móti Stjörnunni í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Stjarnan fór alla leið í bikarúrslitin í fyrra einmitt eftir að hafa slegið út okkar lið og voru okkar stelpur staðráðnar í að hefna fyrir tapið í fyrra enda stefnan að vinna alla bikarana sem í boði eru.
Þór/KA 0 - 2 Stjarnan
0-1 Guðmunda Brynja Óladóttir ('18)
0-2 Birna Jóhannsdóttir ('39)
Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir kom aftur inn í mark Þórs/KA en hún hafði í vikunni unnið brons í spjótkasti á Vormóti HSK. Leikurinn fór rólega af stað, Þór/KA var meira með boltann en beitti mest löngum sendingum inn fyrir sem hugsaðar voru fyrir Söndru Mayor en það kom lítið útúr því.
Á 18. mínútu kom fyrsta markið og það var furðulegt svo ekki sé meira sagt. Guðmunda Brynja Óladóttir framherji Stjörnunnar átti að því er virtist máttlítið skot fyrir utan teig en Bryndís Lára rann til í markinu og gat því lítið gert annað en að horfa á boltann sigla í netið.
Staðan orðin 0-1 fyrir gestina og visst kjaftshögg í upphafi leiks enda hafði varla verið færi í leiknum. Áfram gekk okkar liði erfiðlega að finna glufur á Stjörnuvörninni en markið virti gefa gestunum aukinn kraft og sjálfstraust.
Á 32. mínútu gerðu gestirnir mjög vel þegar þær spiluðu sig í úrvalsfæri og Katrín Ásbjörnsdóttir átti gott skot á markið sem Bryndís Lára gerði meistaralega í að verja, þarna bætti hún svo sannarlega upp fyrir markið. Skömmu síðar fékk Sandra Mayor aukaspyrnu vinstra megin við mark gestanna, Anna Rakel Pétursdóttir tók spyrnuna en hún fór rétt framhjá.
Stjörnunni gekk mun betur að koma sér í færi og þær tvöfölduðu forystuna á 39. mínútu þegar Birna Jóhannsdóttir náði boltanum eftir vörslu hjá Bryndísi Láru og skoraði í autt markið. Strax í kjölfarið kom besta færi Þórs/KA í fyrri hálfleik þegar Sandra Mayor gerði vel út á kanti, kom boltanum fyrir og Hulda Ósk Jónsdóttir var alein en skalli hennar fór framhjá.
Fyrri hálfleikurinn klárlega vonbrigði og alveg klárt mál að Donni hefur farið vel yfir málin með stelpunum, Donni skipti Láru Einarsdóttur inná fyrir Huldu Ósk og strax á upphafssekúndum síðari hálfleiks kom Sandra Mayor sér í ákjósanlegt færi en var á endanum flögguð rangstæð.
Fínn kraftur var í stelpunum í upphafi síðari hálfleiks en áfram vantaði örlítið uppá til að koma sér í alvöru færi. Liðið slapp svo með skrekkinn þegar Harpa Þorsteinsdóttir átti skot langt fyrir utan teig sem small í skeytunum, Bryndís var mjög framarlega og reynsla í Hörpu að reyna skot.
Strax á eftir var Sandra Mayor að sleppa í gegn en var rifin niður rétt fyrir utan teiginn, þrátt fyrir fína pressu tókst ekki að koma skoti að marki. Það varð svo athyglisvert atvik þegar Birna Kristjánsdóttir í marki Stjörnunnar lenti í árekstri við samherja, Sandra Mayor gerði sig líklega í að þruma boltanum í autt netið en þá flautaði dómari leiksins brot á Söndru sem uppskar svo gult spjald fyrir kjaftbrúk.
Stjarnan hafði áfram gott tak á leiknum og ótrúlegt en satt þá fékk okkar lið varla færi í leiknum. Mjög sjaldan sem maður sér liðið spila eins og það gerði í dag. Sandra Mayor fékk að vísu gott tækifæri alveg undir lok leiks en Birna varði tvívegis frá henni og á endanum sigldu Stjörnustúlkur 0-2 sigri í hús og þær eru komnar áfram í 8-liða úrslitin.
Mikil vonbrigði en það var vitað fyrir fram að þetta yrði mjög krefjandi leikur. Nú tekur við smá landsliðspása þar sem þær Sandra María, Anna Rakel og Arna Sif verða í eldlínunni. Framundan eru svo nokkrir toppslagir í Pepsi deildinni og ljóst að stelpurnar og Donni þurfa að fara vel yfir spilamennskuna í dag.