Stjarnan lagði KA/Þór í Garðabænum

Handbolti
Stjarnan lagði KA/Þór í Garðabænum
Svekkjandi tap gegn Stjörnunni (mynd: EBF)

Kvennalið KA/Þórs lék sinn annan leik í vetur í gær er liðið sótti Stjörnuna heim í Garðabæinn. Stelpurnar höfðu tapað fyrsta leik sínum gegn sterku liði Fram á sama tíma og Stjörnukonur unnu góðan útisigur á Haukum og voru því með 2 stig fyrir leikinn.

Okkar lið hóf leikinn vel og var staðan 1-3 í upphafi leiks en Stjarnan svaraði með næstu fjórum mörkum og leiddi leikinn eftir það. Eftir um 10 mínútna leik var staðan 6-5 en þá við tók furðulegur kafli þar sem hvorugu liðinu tókst að skora í rétt rúmar 10 mínútur. Það voru svo heimakonur sem reyndust sterkari eftir að þessari markaþurrð lauk og hálfleikstölur voru 11-8 Stjörnunni ívil.

Stjarnan var þarna komið með gott tak á leiknum og í upphafi síðari hálfleiks juku þær muninn en þegar um tuttugu mínútur lifðu leiks var munurinn orðinn sjö mörk og útlitið ekki bjart. En lið KA/Þórs er ekki beint þekkt fyrir að leggja árar í bát og tókst stelpunum að minnka muninn niður í þrjú mörk og enn um 10 mínútur eftir af leiknum.

Nær komst liðið þó ekki og heimastúlkur juku aftur forskot sitt í sex mörk, 26-20. Síðustu þrjú mörk leiksins voru hinsvegar okkar og lokatölur því 26-23. Stelpurnar eru því enn stigalausar í deildinni en eru búnar með tvo ansi erfiða leiki og því engin ástæða til að örvænta.

Á köflum sýndi liðið flottan leik en ljóst að liðið þarf að sýna meiri stöðugleika til að fá eitthvað útúr leikjum gegn jafn öflugum andstæðing og Stjarnan er.

Hulda Bryndís Tryggvadóttir og Martina Corkovic voru markahæstar í liði KA/Þórs með 5 mörk en Martina var að leika sinn fyrsta leik með liðinu. Næstar voru þær Martha Hermannsdóttir og Katrín Vilhjálmsdóttir með 3 mörk, Aldís Ásta Heimisdóttir, Rakel Sara Elvarsdóttir og Ásdís Sigurðardóttir gerðu 2 mörk og Arna Valgerður Erlingsdóttir gerði 1 mark. Matea Lonac varði 7 skot í markinu.

Næsti leikur liðsins er heimaleikur þann 4. október næstkomandi gegn HK en Kópavogsliðið gerði sér lítið fyrir og vann Hauka um helgina og ljóst að stelpurnar þurfa að hafa sig allar við til að sækja sigur þar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is