Flýtilyklar
Sannfærandi útisigur á Fjölni
KA sótti Fjölnismenn heim í 3. umferð Olís deildar karla í gær en fyrir leikinn var KA liðið án stiga en heimamenn höfðu unnið góðan sigur í nýliðaslag gegn HK. Þrátt fyrir stigaleysið hafði KA liðið verið að spila vel og ljóst að ef strákarnir myndu halda áfram sinni spilamennsku myndu fyrstu stigin koma í hús.
Það má með sanni segja að KA liðið hafi mætt gríðarlega vel til leiks en staðan var orðin 0-7 KA ívil eftir nokkrar mínútur og leikurinn í raun búinn. Vörnin var frábær, þar fyrir aftan var Jovan Kukobat klár í að loka rammanum og í kjölfarið komu auðveld mörk.
Jafnvægi kom í leikinn eftir þessa mögnuðu byrjun og var munurinn 6-8 mörk út fyrri hálfleikinn en að honum loknum var staðan 11-17. Það var í raun aldrei nein spenna í leiknum og síðari hálfleikur spilaðist svipað og sá fyrri. Heimamenn minnkuðu muninn niður í 5 mörk en komust aldrei nær og að lokum vannst 25-32 sigur.
Vissulega hefði verið gaman að fylgja þessari byrjun betur eftir og vinna enn stærri sigur en í heildina var leikur liðsins frábær og gríðarlega jákvætt að vinna jafn sannfærandi og raun bar vitni. Fyrstu stig vetrarins eru því komin í hús og við getum beðið spennt eftir næsta leik sem er heimaleikur gegn ÍR mánudaginn 30. september.
Tarik Kasumovic var markahæstur í liði KA með 8 mörk og Dagur Gautason gerði 7 mörk. Einar Birgir Stefánsson gerði 4, Allan Norðberg 3, Áki Egilsnes 3, Andri Snær Stefánsson 2, Patrekur Stefánsson 2, Daníel Örn Griffin 2 og Jón Heiðar Sigurðsson 1 mark.
Í markinu varði Jovan Kukobat 15 skot en hann var lengi vel með 100% vörslu. Svavar Ingi Sigmundsson gerði sér lítið fyrir og varði 3 víti í röð og endaði hann með 4 varin skot.
Þá má til gamans geta að KA liðið lék í bláum útivallarbúningum sínum í leiknum enda leika Fjölnismenn í gulum búningum. Í gegnum tíðina hefur handknattleikslið KA ekki oft þurft á því að halda að hafa varabúning og gott að sjá að það truflaði strákana ekkert að vera bláir í gær!