Flýtilyklar
Rodrigo Gomes framlengir út 2023
Rodrigo Gomes Mateo skrifaði í dag undir nýjan samning við Knattspyrnudeild KA og er nú samningsbundinn út sumarið 2023. Þetta eru frábærar fréttir enda hefur þessi öflugi varnarsinnaði miðjumaður komið frábærlega inn í liðið en hann er nú á sínu öðru tímabili með KA.
Rodri er 32 ára gamall Spánverji sem hefur leikið á Íslandi frá árinu 2014 en hann gekk upphaflega til liðs við Sindra áður en hann skipti yfir til Grindavíkur. Með Grindavík var hann í lykilhlutverki og lék þar 92 leiki í deild og bikar uns hann kom yfir í KA fyrir síðasta sumar.
Rodri skoraði sín fyrstu mörk fyrir KA á dögunum en hann gerði bæði mörk liðsins í 2-2 jafntefli gegn Víkingum á útivelli í Pepsi Max deildinni en alls hefur hann leikið 32 leiki fyrir KA í deild og bikar. Næsti leikur KA er á sunnudaginn er Stjörnumenn mæta norður.