Flýtilyklar
Risaleikur á Hlíðarenda hjá Þór/KA
Þór/KA lyfti sér á topp Pepsi deildar kvenna í síðustu umferð með frábærum 2-0 sigri á Breiðablik í uppgjöri toppliðanna. Það er svo annar svakalegur leikur framundan hjá liðinu en á morgun sækja þær Valskonur heim en aðeins munar einu stigi á liðunum fyrir leikinn.
Valsliðið tapaði 1-3 í 2. umferð deildarinnar gegn Stjörnunni en hefur síðan þá unnið alla 5 leiki sína og er eins og fyrr segir aðeins stigi á eftir okkar liði sem er með 19 stig af 21 mögulegu.
Það má búast við svakalegum leik enda um að ræða tvö frábær lið. Síðustu viðureignir liðanna hafa verið gríðarlega jafnar og spennandi og ansi líklegt að það verði raunin á morgun enda er svakaleg barátta um Íslandsmeistaratitilinn milli Þór/KA, Vals og Breiðabliks.
Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta á Origo völlinn að Hlíðarenda á morgun en leikurinn hefst klukkan 18:00. Fyrir þá sem ekki komast á völlinn fyrir sunnan þá er leikurinn í þráðbeinni á Stöð 2 Sport, áfram Þór/KA!