Flýtilyklar
Ótrúlegur stórsigur KA á Haukum
KA tók á móti Haukum í 2. umferð Olís deildar karla í KA-Heimilinu í dag. Fyrirfram var reiknað með sigri gestanna en liðinu var spáð Íslandsmeistaratitlinum fyrir tímabil á sama tíma og okkar liði hefur verið spáð neðsta sætinu í deildinni. Spá er hinsvegar bara spá eins og kom svo sannarlega á daginn í dag.
Það var ljóst strax frá upphafi að KA liðið var vel gírað í leikinn og menn ætluðu að selja sig ansi dýrt. Jón Heiðar Sigurðsson opnaði markareikninginn og strax í kjölfarið varði Jovan Kukobat algjört dauðafæri af línunni, það var eitthvað í loftinu.
KA hafði frumkvæðið í upphafi en gestirnir voru aldrei langt undan. Hinsvegar þegar fyrri hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður var KA komið með gott tak á leiknum og leiddi 8-4. Forskotið hélst í 2-4 mörkum út hálfleikinn og KA liðið var að spila virkilega vel. Er flautað var til hálfleiks leiddi KA 13-9 og einn af lykilþáttum í þessari góðu stöðu var stórfengleg frammistaða Jovans í markinu.
Það var því eðlilegt að menn væru hræddir um að gríðarlega sterkt lið Hauka myndi koma með áhlaup í síðari hálfleiknum og að markvarslan hjá Jovan myndi detta niður er leið á leikinn. Atli Már Báruson minnkaði muninn í 13-10 en þá skildu leiðir allsvakalega.
KA skoraði næstu 6 mörk í leiknum og komst í 19-10, gestirnir voru sem rotaðir og höfðu engin svör við frábærum varnarleik KA sem og öguðum sóknarleik sem gaf vel af sér. Það var í raun alveg sama hvað Gunnar Magnússon þjálfari Haukar reyndi að kokka upp, það gekk ekkert hjá Hafnfirðingum að koma sér í leikinn.
Stórkostleg spilamennska KA hélt áfram og liðið bætti áfram við forskotið. Á endanum vannst 11 marka stórsigur, 31-20, og sigurgleðin í KA-Heimilinu magnþrungin. Stemningin og gleðin var allsráðandi á meðan leiknum stóð og gaf það strákunum án efa mikinn aukakraft.
Hvernig liðið sló jafn sterkt lið og Hauka útaf laginu hef ég varla séð áður og áttu strákarnir svör við öllu sem gestirnir reyndu. Jovan Kukobat var án nokkurs vafa maður leiksins en hann varði í kringum 25 skot þar af 4 vítaköst, geri aðrir betur!
Áki Egilsnes fór fyrir markaskoruninni en hann gerði 9 mörk en auk hans átti Jón Heiðar Sigurðsson stórleik á miðjunni og endaði hann með 6 mörk rétt eins og Dagur Gautason sem var skeinuhættur í hraðaupphlaupum.
Varnarlega var KA liðið algjörlega frábært og var hrein unun að fylgjast með færslunni hjá mönnum, þá sérstaklega Daníel Matthíassyni, Daða Jónssyni og Heimi Erni Árnasyni í hjarta varnarinnar auk þess sem að Dagur Gautason var svakalegur fremsti maður.
Mörk KA: Áki Egilsnes 9 (2 úr vítum), Dagur Gautason 6, Jón Heiðar Sigurðsson 6, Allan Norðberg 3, Daníel Matthíasson 2, Tarik Kasumovic 2, Andri Snær Stefánsson 1, Sigþór Árni Heimisson 1 og Sigþór Gunnar Jónsson 1 mark.
Í markinu var Jovan Kukobat með 22 varin skot, þar af 4 vítaköst.
Mörk Hauka: Orri Freyr Þorkelsson 5, Atli Már Báruson 4, Daníel Þór Ingason 4, Halldór Ingi Jónasson 4, Ásgeir Örn Hallgrímsson 2 og Heimir Óli Heimisson 1 mark.
Grétar Ari Guðjónsson og Andri Sigmarsson vörðu samtals 12 skot í marki Hauka.
KA hefur því unnið báða leiki sína í deildinni til þessa og er á toppi Olís deildarinnar með 4 stig. Næsti leikur er á laugardaginn og verður það fyrsti útileikurinn í vetur en þá sækja strákarnir Fram heim. Það er ljóst að það verður gríðarlega mikilvægur leikur en báðum liðum var spáð fallbaráttu í vetur og því hægt að líta á leikinn sem fjögurra stiga leik.