Ótrúlegt sigurmark KA/Þórs gegn Stjörnunni

Handbolti
Ótrúlegt sigurmark KA/Þórs gegn Stjörnunni
Ótrúlegur sigur staðreynd sem og mikilvæg 2 stig!

Það var heldur betur mikið undir í leik kvöldsins þegar KA/Þór tók á móti Stjörnunni í Olís deild kvenna. Þarna mættust liðin í 3. og 4. sæti deildarinnar og skólabókardæmi um fjögurra stiga leik. Úr varð háspennu lífshættu leikur sem mun seint renna mönnum úr minnum.

Smá titringur var í báðum liðum í upphafi og tók smá tíma fyrir liðin að koma sér á blað. Að vísu eru bæði lið einnig betur þekkt fyrir öflugan varnarleik og kom því ekki mikið á óvart að það var ekki mikið skorað í leiknum.

KA/Þór hóf leikinn betur og leiddi meirihluta fyrri hálfleiks með tveimur til þremur mörkum. Stelpurnar virtust hafa góð tök á leiknum en undir lok hálfleiksins gerðu þær sig sekar um of marga brottrekstra og Stjörnuliðið kom sér aftur inn í leikinn.

Staðan var 12-11 í hálfleik og ljóst að hart yrði barist um stigin tvö í þeim síðari. KA/Þór komst í 13-11 og 14-12 en í kjölfarið var jafnt á öllum tölum og óhætt að segja að áhorfendur leiksins hafi fengið ansi mikið fyrir peninginn í þetta skiptið.

Staðan var 22-22 er lokamínútan gekk í garð og var KA/Þór með boltann. Stelpurnar voru hinsvegar algjörir klaufar er dæmd var á þær leiktöf og gestirnir höfðu um 20 sekúndur til að finna sigurmarkið.

Útlitið var því alls ekki gott en Garðbæingar reyndu að koma boltanum á línuna sem gekk ekki og í kjölfarið tók Matea Lonac markvörður KA/Þórs boltann og skoraði sigurmarkið með skoti yfir allan völlinn!

Út brutust ótrúleg fagnaðarlæti enda svakalegur endir á þessum stórleik og gríðarlega mikilvæg 2 stig í höfn hjá liðinu. Með sigrinum eru stelpurnar komnar með 10 stig í 4. sæti deildarinnar og eru nú aðeins einu stigi á eftir Stjörnunni í 3. sætinu.

Stelpurnar eru staðráðnar í að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni í vor og geta þessi stig vegið ansi þungt þegar upp er staðið. Enn eru þó 12 leikir eftir af deildinni og nóg eftir en stelpurnar geta þó verið ansi ánægðar með uppskeruna til þessa.

Martha Hermannsdóttir var markahæst í liði KA/Þórs með 6 mörk, þar af 3 úr vítaköstum. Martina Corkovic var með 4, þar af eitt úr víti, Anna Þyrí Halldórsdóttir, Katrín Vilhjálmsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir gerðu 3 mörk hver, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2, Rakel Sara Elvarsdóttir 1 og Matea Lonac markvörður gerði 1 mark auk þess að verja 16 skot í leiknum og var án vafa besti maður vallarins.

Næsti leikur er annar stórleikur en þá sækja stelpurnar lið HK heim og mætast þar liðin í 4. og 5. sæti deildarinnar. Aðeins efstu fjögur liðin fara í úrslitakeppnina og geta stelpurnar með sigri því komist fjórum stigum fyrir ofan HK.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is