Nýtt stiga- og markamet KA í efstu deild

Fótbolti
Nýtt stiga- og markamet KA í efstu deild
Sögulegur árangur í sumar (mynd: Egill Bjarni)

KA vann glæsilegan 0-1 útisigur á Val í lokaumferð Bestu deildarinnar fyrir úrslitakeppnina að Hlíðarenda í gær. Þessi frábæri árangur liðsins í sumar er um margt sögufrægur en fjölmörg félagsmet féllu í sumar.

Með sigrinum settu strákarnir nýtt stigamet hjá KA í efstu deild en að loknum 22. umferðum í sumar er KA í 2.-3. sæti með 43 stig. Eldra stigamet félagsins var 40 stig sem náðist á síðustu leiktíð

Þá tókst loksins að bæta meðalstigametið frá Íslandsmeistarasumrinu 1989 þegar KA vann Hörpudeildina með 34 stigum eftir 18. umferðir. Það gera 1,89 stig að meðaltali í leik en með framgöngu sinni í sumar afrekuðu strákarnir að ná að meðaltali 1,95 stigum úr hverjum leik.

Sóknarleikurinn hefur verið frábær í sumar og gerðu strákarnir 45 mörk í deildarleikjum sumarsins sem er nýtt félagsmet en fyrra met voru 37 mörk sumarið 2017. Að meðaltali skoruðu strákarnir því 2,05 mörk í leik sem er einnig nýtt met en metið frá 2017 voru 1,68 mörk að meðaltali í leik.

Markatala KA liðsins í sumar er 19 mörk í plús sem er enn eitt metið sem strákarnir settu í sumar en eldra metið var 16 mörk í plús sumarið 2021. Meðalmarkatala sumarsins er 0,86 í plús á leik sem er bæting frá 0,78 mörk í plús á leik frá Íslandsmeistarasumrinu 1989 þegar KA gerði 29 mörk og fékk á sig 15 mörk.

Þá unnust 13 leikir af þeim 22 leikjum sem KA spilaði í deildinni í sumar sem er nýtt met og unnust því 59% af leikjum sumarsins. Gamla metið voru 12 sigurleikir sumarið 2021 sem gera 54,5% af leikjum þess árs.

Eitt af fáum metum sem féllu ekki í sumar hvað varðar liðsárangur eru mörk fengin á sig. Íslandsmeistarasumarið 1989 fékk KA aðeins 15 mörk á sig í 18 leikjum sem gera aðeins 0,83 mörk í leik. Í tvö önnur skipti hefur KA fengið minna en mark á sig að meðaltali í leik í efstu deild en í fyrra fékk KA á sig 20 mörk í 22 leikjum sem gera 0,91 mark í leik og sumarið 1987 fékk liðið á sig 17 mörk í 18 leikjum sem gera 0,94 mörk á sig í leik.

Þá slógu strákarnir met í sumar er þeir unnu 0-5 útisigur á Leiknismönnum í Breiðholtinu en það er stærsti útisigur KA í efstu deild. Eldra met var fjögurra marka sigur en KA vann 0-4 sigur á Völsung sumarið 1988 og 1-5 sigur á Víking sumarið 1989. Stærsti sigur KA í efstu deild er hinsvegar 6-0 heimasigur á Víði sumarið 1987.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is