Myndaveislur frá skrautlegum Evrópuleikjum 2005

Handbolti
Myndaveislur frá skrautlegum Evrópuleikjum 2005
Einu af 95 mörkum KA fagnað (mynd: Þórir Tryggva)

KA lék sína fyrstu Evrópuleiki í handbolta í 17 ár um nýliðna helgi er strákarnir sóttu Austurríska liðið HC Fivers heim í tveimur leikjum. Eftir hörkueinvígi þar sem KA vann fyrri leikinn 29-30 voru það Austurríkismennirnir sem fóru áfram samanlagt 59-56.

Þetta voru Evrópuleikir númer 26. og 27. hjá karlaliði KA en KA lék fyrst íslenskra liða í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu veturinn 1997-1998 og var einnig fyrsta íslenska liðið til að vinna leik í keppninni með 21-19 heimasigri á liði Generali Trieste frá Ítalíu.

KA lék einnig í Norræna meistaramótinu árið 1998 þar sem KA endaði í 5. sæti eftir sigra á sænska liðinu Drott og norska liðinu Viking en tap gegn norska liðinu Runar stöðvaði sigurmöguleika liðsins.

Í kjölfar þessa verkefna lék KA ekki í Evrópu í sjö ár eða uns KA lék í Áskorendakeppni Evrópu tímabilið 2005-2006. Þar hóf liðið leik í 32-liða úrslitum og dróst gegn Georgíska liðinu Mamuli Tbilisi. Eftir samræður liðanna fékkst sú niðurstaða að báðir leikir yrðu spilaðir í KA-Heimilinu og var mikil spenna fyrir leikjunum.

Þórir Tryggvason ljósmyndari renndi í gegnum safnið sitt góða og gróf upp myndir frá báðum leikjunum og kunnum við honum bestu þakkir fyrir þennan magnaða pakka.

Vel var tekið á móti Georgíumönnunum og var vel gert við þá bæði í gistingu og mat. Fyrri leikurinn fór fram þann 11. nóvember og mætti fjöldinn allur af fólki í KA-Heimilið til að styðja strákana í baráttunni.


Smelltu á myndina til að skoða myndir frá fyrri leik KA og Mamuli

Það kom hinsvegar fljótt í ljós að þetta yrði leikur kattarins að músinni og KA gjörsamlega keyrði yfir gestina sem áttu í raun í hinum mestu vandræðum með að kasta boltanum sín á milli. Hvort að þeir hafi haft reynslu af því að spila með klístur skal ekki fullyrt en getumunurinn á liðunum var ógurlegur.

KA vann að lokum leikinn 45-15 og öll spenna eðlilega úr einvíginu fyrir síðari leikinn. Bjartur Máni Sigurðsson var markahæstur með 8 mörk, Goran Gusic og Hörður Fannar Sigþórsson gerðu 7 mörk hvor, Ólafur Sigurgeirsson og Gústaf Línberg gerðu 4 mörk hvor, Andri Snær Stefánsson og Jónas Guðbrandsson gerðu báðir 3 mörk, Jónatan Magnússon og Ragnar Snær Njálsson gerðu báðir 2 mörk og þá gerðu Magnús Stefánsson og Guðmundur Freyr Hermannsson báðir eitt mark. Auk þeirra skoraði Hafþór Einarsson markvörður 2 mörk í leiknum og Hreiðar Levý Guðmundsson markvörður gerði einnig mark í leiknum.

Menn mættu því eðlilega rólegri í síðari leikinn sem fór fram degi síðar en þrátt fyrir það vannst enn stærri sigur í þeim leik. Nú voru lokatölur 50-15 KA ívil og unnu strákarnir einvígið því samtals 95-30 og komnir áfram í 16-liða úrslit keppninnar. Aftur var Bjartur Máni Sigurðsson markahæstur með 8 mörk, Gústaf Línberg gerði 6 mörk, Goran Gusic og Hörður Fannar Sigþórsson gerðu 5 mörk hvor, Guðmundur Freyr Hermannsson, Elfar Halldórsson og Ólafur Sigurgeirsson gerðu allir 4 mörk, Andri Snær Stefánsson, Geir Gíslason og Jónas Guðbrandsson gerðu allir 3 mörk, Óðinn Stefánsson gerði 2 mörk og Jónatan Magnússon gerði eitt mark. Að lokum gerði markvörðurinn Stefán Guðnason 2 mörk í leiknum.


Smelltu á myndina til að skoða myndir úr síðari leik KA og Mamuli

Í kjölfar síðari leiksins var haldinn glæsilegur kvöldverður í KA-Heimilinu þar sem leikmönnum Tbilisi var boðið og úr varð skrautlegt kvöld þar sem gestirnir sýndu betri spilamennsku á píanói KA-Heimilisins en þeir gerðu á handboltavellinum.


Smelltu á myndina til að skoða myndir frá veislunni góðu

Þessari eftirminnilegu heimsókn Georgíumannanna lauk þó á heldur neikvæðan hátt því fyrir brottför þeirra höfðu þeir farið ránshendi um KA-Heimilið og meðal annars tekið fjöldan allan af verðmætum af yngriflokkaliði sem hafði fengið að gista í húsinu. Rútu liðsins var á endanum snúið rakleitt við og þeim gert að skila öllu sem þeir höfðu tekið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is