Flýtilyklar
Myndaveislur frá leik KA og Blika
KA og Breiðablik mættust á Greifavellinum um helgina í úrslitakeppni Bestu deildarinnar. Leikurinn átti upphaflega að fara fram á sunnudeginum en vegna veðurs var leikurinn færður fram til laugardags.
Gestirnir voru fyrir leikinn í lykilstöðu á toppi deildarinnar og þeir mættu betur til leiks. KA liðinu gekk illa að eiga við vel spilandi lið Breiðabliks sem tók forystuna á 34. mínútu með marki Kristins Steindórssonar en þökk sé stórleik Kristijan Jajalo var staðan 0-1 er liðin gengu til búningsherbergja sinna.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá leiknum
Þeir Þórir Tryggvason og Sævar Geir Sigurjónsson ljósmyndarar voru á leiknum og bjóða upp á myndaveislur frá leiknum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.
Spilamennska KA liðsins varð betri í þeim síðari og strákarnir reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin. Þegar allt útlit var fyrir að gestirnir næðu að hanga á forystunni fékk KA vítaspyrnu er Ásgeir Sigurgeirsson var felldur innan teigs og Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði af öryggi.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum
En Adam var ekki lengi í paradís því Jason Daði Svanþórsson kom gestunum aftur yfir strax í kjölfarið og 1-2 sigur Breiðabliks því staðreynd. Svekkjandi niðurstaða vissulega en í heildina voru gestirnir betri í leiknum. Enn eru þrjár umferðir eftir af deildinni og áfram barátta um 2. sæti deildarinnar milli KA og Víkinga og mætast liðin í næstu umferð á Víkingsvelli.