Myndaveislur frá Evrópuleikjum KA/Þórs

Handbolti
Myndaveislur frá Evrópuleikjum KA/Þórs
Flott reynsla í Evrópu (mynd: Þórir Tryggva)

KA/Þór lék sína fyrstu heimaleiki í Evrópukeppni um helgina er stelpurnar tóku á móti Norður-Makedónsku meisturunum í Gjorche Petrov. Stelpurnar léku tvö einvígi í Evrópu á síðustu leiktíð en í bæði skiptin seldu stelpurnar heimaleikinn og var því loksins komið að fyrstu heimaleikjunum.

Báðir leikir liðanna fóru fram í KA-Heimilinu og úr varð áhugavert einvígi en miklar breytingar hafa orðið á okkar liði frá síðustu leiktíð auk þess sem að Rut Jónsdóttir gat ekki leikið vegna meiðsla. Það var því ljóst að verkefnið gegn sterku liði Gjorche yrði ansi krefjandi fyrir okkar unga lið.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá fyrri leiknum

Þeir Þórir Tryggvason og Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndarar voru á leikjunum og bjóða til myndaveislu frá herlegheitunum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir framtakið.

Stelpurnar okkar byrjuðu fyrri leikinn af krafti og komust snemma í 6-3. Skömmu síðar urðu hinsvegar tvenn áföll þar sem Hrafnhildur Irma Jónsdóttir og Anna Þyrí Halldórsdóttir þurftu báðar að yfirgefa völlinn vegna meiðsla. Það kvarnaðist því enn úr okkar liði og gestirnir gengu á lagið. Hálfleikstölur voru 7-11 fyrir Gjorche og útlitið ekkert sérlega bjart.

En það býr gríðarlegur karakter í stelpunum okkar og þær náðu að koma sér aftur inn í leikinn um miðbik síðari hálfleiks. Gestirnir reyndu að hanga á forskotinu og það leit út fyrir að þeim tækist það en þegar 30 sekúndur lifðu leiks jafnaði Lydía Gunnþórsdóttir metin af vítapunktinum en Lydía sem er nýorðin 16 ára var ísköld á punktinum og skoraði af öryggi fjögur mörk.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá fyrri leiknum

Bæði lið fengu í kjölfarið tækifæri á sigurmarki en náðu ekki og lokatölur því 20-20 jafntefli og allt í járnum fyrir síðari leikinn sem fór fram degi síðar í KA-Heimilinu.

Aftur voru það stelpurnar okkar sem byrjuðu betur en þær komust snemma í 3-1 en í kjölfarið gekk allt á afturfótunum og gestirnir gengu heldur betur á lagið. Sóknarleikur okkar var slakur og lið Gjorche fékk hvert hraðaupphlaupið á fætur öðru og leiddi 8-16 í hálfleik.

Einvígið var því í raun búið í hálfleik og aðeins formsatriði fyrir Gjorche að klára leikinn. Mestur varð munurinn 12 mörk í þeim síðari en að lokum lauk leiknum með 23-34 sigri gestanna og Evrópuævintýrið því búið í ár.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá síðari leiknum

Þrátt fyrir stórt tap í síðari leiknum verður að hrósa okkar liði, eftir gríðarlega miklar breytingar á liðinu frá síðustu leiktíð er alveg ljóst að það mun taka tíma að ná upp takti í spilamennskuna og þá eru ansi margar ungar uppaldar stelpur sem eru skyndilega komnar í lykilhlutverk í okkar liði.

Ekki eru meiðsli lykilmanna að aðstoða en það er ekki spurning að þessir leikir munu gefa okkur mikið fyrir baráttuna í vetur og verður spennandi að sjá hvernig stelpurnar okkar nota reynsluna til góðs.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is