Flýtilyklar
Myndaveislur frá 2-0 sigri KA á HK
KA tók á móti HK á Greifavellinum í gær en leikurinn var fyrsti heimaleikur KA liðsins á Akureyri í sumar. Mikil eftirvænting var fyrir leiknum auk þess sem að þrjú ansi mikilvæg stig voru í húfi. Ekki skemmdi svo fyrir að veðrið lék við Akureyringa og mættu rétt tæplega 1.000 manns á völlinn.
Egill Bjarni Friðjónsson og Sævar Geir Sigurjónsson ljósmyndarar voru á leiknum og bjóða þeir báðir upp á myndaveislu frá herlegheitunum hér fyrir neðan og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.
Eftir rýra uppskeru í undanförnum leikjum hófu strákarnir leikinn af krafti og ætluðu sér greinilega að ná forystunni snemma en liðin gerðu markalaust jafntefli í fyrri leik sínum í Kórnum í sumar. Gestunum tókst að standast pressuna og komu sér hægt og bítandi betur inn í leikinn.
Lítið var um opin færi en eftir rétt tæplega hálftíma leik fékk KA aukaspyrnu á miðjum vellinum, ekki virtist vera mikil hætta á ferð en Dusan Brkovic kom með frábæran bolta innfyrir vörn gestanna sem Ásgeir Sigurgeirsson elti uppi og negldi boltanum upp í hornið fjær og staðan orðin 1-0.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum
Gestirnir reyndu hvað þeir gátu að jafna metin fyrir hlé en komust lítt áleiðis og KA leiddi því í hléinu. Ekki leið langur tími í þeim síðari er boltinn datt fyrir Daníel Hafsteinsson rétt fyrir utan teiginn og Danni þrumaði boltanum glæsilega í netið. Staðan orðin 2-0 og útlitið heldur betur gott.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum
Í kjölfarið tók HK svo til völdin á vellinum enda þurftu þeir nauðsynlega á marki að halda til að hleypa spennu í leikinn. En Dusan Brkovic og Mikkel Qvist sem léku í hjarta KA varnarinnar áttu frábæran leik og þar fyrir aftan stöðvaði Steinþór Már allt sem lenti á honum. Það var ekki að sjá að þeir Dusan og Mikkel væru að leika í fyrsta skiptið hlið við hlið og spennandi að fylgjast áfram með samvinnu þeirra.
Steikjandi hiti var allan leikinn og mátti sjá á mönnum er leið á síðari hálfleikinn að menn voru orðnir ansi þreyttir við þessar aðstæður. Spurning hvort að blíðviðrið sem hefur leikið við okkur Akureyringa geti nýst okkur í næstu leikjum en fleiri urðu mörkin ekki og KA sigldi mikilvægum 2-0 sigri heim.
Ekki besta spilamennska liðsins í sumar en það skiptir í raun engu máli. Varnarlega spilaði liðið vel og mörkin tvö voru vel útfærð. Með sigrinum koma strákarnir sér aftur upp í baráttuna við toppinn og spennandi að sjá hvort við náum að endurtaka leikinn gegn Leiknismönnum í næsta leik.
Dusan Brkovic var valinn Nivea KA-maður leiksins að þessu sinni en Dusan átti frábæran leik í vörninni og sending hans í fyrsta marki liðsins var frábærlega útfærð.