Mjög vel heppnuð lærdómsferð 9-14 ára júdókrakka.

Júdó
Þeir júdókrakkar sem æfa með flokkum 9-14 ára hjá KA fóru til Reykjavíkur nú um helgina til þess að æfa með jafnöldrum sínum af öllu landinu.  Tilgangur ferðarinnar var að kynnast jafnöldrum sínum sem eru einnig að æfa júdó án þess að keppni sé blandað þar inn í.  Einnig að fá tækifæri til þess að læra af öðrum þjálfurum.
Krakkarnir æfðu tvisvar á laugardeginum.  Æfingarnar stóðu í tvo tíma hvor um sig og voru þær mjög krefjandi. 

Á fyrri æfingunni lærðu þau hvernig Halldór Guðbjörnsson hefur tekið tai-otoshi síðustu 40 árin eða svo og var það meistarinn sjálfur sem kenndi þeim.  Bjarni Skúlason kenndi þeim hvernig hann tekur ouchi-gari en það bragð tryggði honum sigur á síðasta Íslandsmóti í opnum flokki.  Axel Ingi Jónsson kenndi krökkunum kouchi-gari sem nýttist honum oft á hans ferli og tryggði honum marga titla.  Þórir Rúnarsson, sem er alþjóðlegur dómari í júdó, fór yfir nýjustu breytingar á júdóreglunum og svaraði fyrirspurnum frá krökkunum sem voru margar.

Á milli æfinga fóru krakkarnir öll saman og borðuðu hádegisverð. 

Á seinni æfingunni upplifðu krakkarnir það að fá kennslu frá tveimur hæstgráðuðu mönnum Íslands, þeim Bjarna Friðrikssyni og Yoshihiko Iura, en þeir eru báðir 7. dan og því með rautt og hvítt belti.  Krakkarnir höfðu flest aldrei séð svoleiðis belti og þótti það mjög tilkomumikið.  Einnig kenndu systkinin Víkingur og Anna Soffía Víkingsbörn krökkunum á seinni æfingunni og bæði eru þau frábær í júdó og því mikill fengur fyrir krakkana að læra af þeim.  Fyrir þær stelpur sem tóku þátt þá var það mikill fengur að fá að læra af Önnu Soffíu. 

Á seinni æfingunni sýndi þeir Yoshihiku Iura og Björn Halldórsson krökkunum Goshin-jutsu sem er kata-æfing og krakkarnir höfðu aldei séð áður.  Er óhætt að segja að þeir félagar hafa aldrei fengið eins góðir undirtektir við kata-sýningu og þeir fengu þarna.  Thor Vilhjálmsson rithöfundur er með svarta beltið í júdó og æfir enn reglulega.  Hann mætti á seinni æfinguna og spjallaði við krakkana, kallaði þau Vormenn Íslands. Krökkunum þótt stórmerkilegt að sjá þennan virta öldung léttan á fæti í júdógalla og leiddist það ekki þegar hann sagðist ekki muna hvað hann væri gamall.

Krakkarnir glímdu svo margar æfingaglímur á báðum æfingunum.  Mikill fjöldi þjálfara tók þátt í þessum æfingum og gengu á milli og hjálpuðu krökkunum.  Allir voru þeir sammála um það að krakkarnir hefðu staðið sig frábærlega á allan hátt.  Hátt í hundrað krakkar tóku þátt í þessum æfingum.  Frá KA komu 33 krakkar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is