Flýtilyklar
Mikilvægur sigur í fyrsta leik (myndir)
KA tók á móti Leiknismönnum í fyrstu umferð Bestu deildarinnar á Dalvíkurvelli í gær. Mikil eftirvænting er fyrir sumrinu enda náði KA liðið frábærum árangri á síðustu leiktíð og var gaman að sjá hve margir lögðu leið sína til Dalvíkur til að styðja strákana.
KA liðið hafði mikla yfirburði á vellinum í gær en gestirnir lágu til baka og gáfu fá færi á sér. Fyrir vikið var lítið bit í sóknarleik Leiknismanna en þeirra helstu tækifæri komu eftir kæruleysi í öftustu línu KA liðsins en það slapp sem betur fer til.
Sævar Geir Sigurjónsson ljósmyndari var á leiknum og býður hér til myndaveislu frá herlegheitunum á Dalvíkurvelli og kunnum við honum bestu þakkir fyrir framtakið.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum
Fyrri hálfleikur var markalaus en í upphafi síðari hálfleiks kom Elfar Árni Aðalsteinsson KA yfir með góðum skalla eftir frábæra fyrirgjöf frá Ásgeiri Sigurgeirssyni. Í kjölfarið datt leikurinn niður og sigldu strákarnir að lokum sanngjörnum 1-0 sigri í hús.
Strákarnir gerðu nóg í gær til að tryggja stigin þrjú og frammistaðan að mörgu leiti jákvæð. Það getur verið erfitt að vera fyrirfram sterkari aðilinn í fyrstu leikjum sumars þegar liðin eru enn að koma sér í gang og afar jákvætt að þessu verkefni sé lokið með þremur stigum.