Matea Lonac framlengir við KA/Þór

Handbolti

Matea Lonac skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við KA/Þór og er nú samningsbundin liðinu út tímabilið 2026-2027. Eru þetta algjörlega frábærar fréttir enda hefur Matea verið einn besti markvörður landsins frá því hún gekk í raðir KA/Þórs árið 2019.

Matea mætti norður fyrir tímabilið 2019-2020 og hefur leikið með KA/Þór allar götur síðan. Matea sýndi strax styrk sinn með liðinu og vakti verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína er KA/Þór hampaði Íslandsmeistaratitlinum, Bikarmeistaratitlinum, Deildarmeistaratitlinum auk þess að verða Meistari Meistaranna og var þá með bestu markvörsluna í deildinni.

KA/Þór tryggði sér nýverið sæti í deild þeirra bestu á ný eftir að hafa farið taplausar í gegnum Grill66 deildina og var Matea með flest varin skot í deildinni. Tvívegis hefur Matea verið kjörin leikmaður ársins hjá KA/Þór og er hún ákaflega vel liðin hér fyrir norðan. Matea sem varð 33 ára á dögunum hefur leikið alls 140 leiki fyrir KA/Þór í deild, bikar og Evrópu og ljóst að þeir leikir verða enn fleiri.

Við óskum Mateu og KA/Þór til hamingju með samninginn og hlökkum til að fylgjast áfram með þessum magnaða markverði næstu árin.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is