Magnús Dagur framlengir um tvö ár

Handbolti

Magnús Dagur Jónatansson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild KA og er nú samningsbundinn út tímabilið 2024-2025. Magnús sem er enn aðeins 16 ára gamall hefur þrátt fyrir ungan aldur tekið sín fyrstu skref í meistaraflokki og tók þátt í þremur leikjum á nýliðnum vetri.

Það eru afar jákvæðar fréttir að Maggi sé búinn að gera nýjan samning en hann er gríðarlega efnilegur leikmaður og verið burðarstóll í ógnarsterku liði KA í árgang 2006 en strákarnir töpuðu ekki leik í öllum fjórða flokki þar sem þeir hömpuðu öllum þeim titlum sem í boði voru á Íslandi áður en þeir urðu Partille Cup meistarar en þar lögðu þeir mörg af sterkustu liðum Norðurlandanna.

Maggi er einnig fastamaður í yngrilandsliðum Íslands og kom sterkur inn í síðari hluta tímabilsins eftir að hafa glímt við erfið meiðsli. Það er ekki spurning að Maggi mun koma í enn stærra hlutverk í meistaraflokksliði KA næsta vetur og verður afar gaman að fylgjast áfram með hans framgöngu í gula og bláa búningnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is